Heimildir um framburð íslenskra miðaldamanna eru allar óbeinar því upptökur frá fyrri öldum eru vitanlega ekki til. Breytingar á stafsetningu í handritum segja mikið um málbreytingar og eins er Fyrsta málfræðiritgerðin ómetanleg heimild um framburð íslenskunnar á 12. öld. Eftirfarandi upplestur er úr Íslendingabók Ara fróða lesinn eftir útgáfunni í Íslenskum fornritum (1. bindi 1968). Upplesturinn miðast við þann framburð sem talinn er hafa átt við íslensku um 1200.
- Töluðu Danir og Íslendingar einhvern tíma sama tungumálið? eftir Guðrúnu Kvaran
- Á hvaða sviði málfræðinnar hafa mestar breytingar orðið frá forníslensku til dagsins í dag? eftir Guðrúnu Kvaran
- Er vitað hvernig texti Íslendingasagnanna var borinn fram þegar hann var skrifaður? eftir Guðvarð Má Gunnlaugsson
- Á heimasíðu Arne Torps eru gefin dæmi um hvernig frumnorræna, norræna og 15. aldar norska gætu hafa hljómað. Í fyrstu tveimur dæmunum er flutt vísa úr Atlakviðu á frumnorrænu, eins og hún gæti hafa hljómað um 400 þegar söguhetjurnar Atli og Gunnar voru uppi, og norrænu eins og hún gæti hafa hljómað um 1200 eða fyrr. Þriðja dæmið er um norrænu eins og hún gæti hafa hljómað í Noregi á 13. öld; textinn er úr Konungsskuggsjá. Fjórða dæmið er um norsku á 15. öld - en norsk tunga tók miklum breytingum á 14. og 15. öld - og hér er settur upp leikþáttur þar sem miðaldra karl skammar fullorðinn son sinn fyrir að tala „barnamál“.