Ef svo er, gætirðu komið með nokkur dæmi um breytingar, og jafnvel brot úr einhverri sagnanna með hljóðfræðilegu letri?Ekki er vitað nákvæmlega hvernig íslenska var borin fram á miðöldum, en þó er ljóst að töluverðar breytingar hafa orðið á framburði Íslendinga frá landnámstíð. Annars vegar er um að ræða kerfisbundnar breytingar, til dæmis þegar langt a (hljóðritað [a:]) verður á ([au] eða [au:], það er ýmist langt eða stutt) í flestum tilvikum. Hins vegar eru stöðubundnar breytingar, til dæmis þegar stutt a ([a]) verður langt ([a:]) á undan lf í orðum eins og hálfur, það er að segja breytingin er bundin við stöðu hljóðsins a, á undan lf í þessu tilviki (þessi breyting snerti öll uppmælt sérhljóð og fleiri samhljóð en f á eftir l). Enn fremur virðast hafa orðið meiri breytingar í sérhljóðunum en samhljóðunum. Við höfum auðvitað engar beinar heimildir um framburð forfeðra og formæðra okkar því að engar upptökur eru til frá fyrri öldum, en hins vegar höfum við töluvert af óbeinum heimildum. Fyrst er að nefna handritin en breytingar á stafsetningu í þeim segja mikið til um málbreytingar. Enn fremur er hægt að bera nútímaíslensku saman við skyld tungumál, svo sem færeysku, norsku, sænsku og dönsku, en vegna þess að þessi tungumál eru öll komin af sameiginlegu tungumáli í byrjun víkingaaldar er hægt að áætla framburð frummálsins og hvernig einstök hljóð hafa breyst í hverju málanna fyrir sig. Það er til dæmis gert ráð fyrir að það hljóð sem nú er borið fram sem [u] í sænsku og norsku og [o] í dönsku, en ýmist [o] eða [ɔ] í færeysku og [ɔ] í íslensku, hafi verið [o] í frumnorrænu, enda er það oftast skrifað ‘o’ í öllum málunum. Þessu til viðbótar eigum við einstæða og ómetanlega heimild um framburð íslenskunnar á 12. öld sem hefur verið kölluð Fyrsta málfræðiritgerðin. Höfundur hennar er óþekktur en hann setti sér það markmið að setja Íslendingum stafróf og til að færa rök fyrir máli sínu þurfti hann að taka dæmi af hverju hljóði fyrir sig og bera þau saman innbyrðis. Hann bar til dæmis saman far og fár: ‘Far heitir skip en fár er nokkurs konar nauð’. Annað dæmi er sekur og sekkur: ‘Sekr er skógarmaðr en sekkr er ílát’. Það eru hins vegar of mörg vafamál til að ráðlegt sé að hljóðrita eldri íslensku. Í fyrsta lagi skiptir máli um hvaða málstig er verið að ræða, það er á að hljóðrita samkvæmt þeim framburði sem við höldum að hafi verið íslenskur framburður um 1200 eða um 1400. Það er nefnilega líklegt að framburður um 1400 hafi verið líkari nútímaframburði en framburði um 1200, það er að segja meiri breytingar hafi orðið á framburði Íslendinga á tveimur öldum 1200–1400 en á sex öldum síðan um 1400. Íslendingasögurnar voru enn fremur samdar á nokkuð löngu tímabili, það er frá miðri 13. öld fram á síðari hluta 14. aldar, og engin þeirra er varðveitt í frumriti. Þar að auki getur elsta handrit (eða elsta handritsbrot) hverrar sögu verið frá 13., 14., 15. eða 17. öld og þar sem skrifarar fyrri alda skrifuðu ávallt með þeirri stafsetningu sem þeim var tömust er ekki auðvelt að endurgera málfar 15. aldar handrits í samræmi við málstig um 1200, svo að dæmi sé tekið, þótt það sé oft gert þegar sögurnar eru gefnar út með samræmdri stafsetningu fornri. Í öðru lagi vitum við lítið um mállýskumun í íslensku til forna. Sem dæmi má nefna að þótt breyting í stafsetningu gefi til kynna málbreytingu er ekki þar með sagt að um hafi verið að ræða algengan framburð, það getur hafa verið framburður fárra einstaklinga um langan aldur áður en hann varð ríkjandi framburður landsmanna. Í þriðja lagi vitum við ekkert um atriði eins og orðáherslu, tóna, setningaáherslu, það er hljómfall, en eins og kunnugt er hljóma íslenska og norska afar ólíkt þótt um náskyld mál sé að ræða. Einnig vitum við lítið sem ekkert um nokkur framburðaratriði eins og aðblástur, þ.e. framburð á ‘pp’, ‘tt’, ‘kk’, ‘pl’, ‘pn’, ‘tl’, ‘tn’, ‘kl’, ‘kn’, í orðum eins og heppni, hattur, ökkli, epli, ætla, vatn, sókn. Aðblástur er nú í íslensku, færeysku og örfáum norskum mállýskum. Auk þess er aðblástur í fjarskyldari málum og óskyldum málum í nágrenni við okkur, svo sem skosk-gelískum mállýskum og samísku. En hvort hann er upphaflegur í norrænu málunum eða síðari tíma þróun í nokkrum þeirra vitum við ekki. Til er samræmd stafsetning forn þar sem stafsetning handritanna, sem er afar óregluleg, er samræmd. Þessi stafsetning var búin til á síðustu öld til að auðvelda mönnum að lesa fornritin án þess að nota nútímastafsetningu. Líklegt er út frá stafsetningu handritanna, orðum fyrsta málfræðingsins og samanburði við skyld mál að hún fari mjög nærri framburði, mun nær framburði Íslendinga um 1200 en nútíðarstafsetning framburði okkar, þótt hún sé að sjálfsögðu ekki hljóðritun. Við vitum að ‘æ’, sem nú er borið fram [ai], var áður borið fram sem langt og opið e, sennilega svipað því sem nú er hljóðritað [æ:], og á 13. öld rann langt ö-hljóð, sem e.t.v. var borið fram [ø:], saman við æ. Við segjum nú gæsir og bækur með [ai:] sem á öðrum norrænum málum eru borin fram með opnu e-hljóði ([ε, æ, εa], þ.e. gæs, gäss), eða ö-hljóði (bøkur, böcker, bøger). Í tilvikum sem þessum varðveita færeyska og skandinavísku málin fornan framburð betur en íslenska. Eftirfarandi texti er úr Íslendingabók Ara fróða og er tekinn eftir útgáfunni í Íslenskum fornritum (1. bindi 1968). Í fremsta dálki er hann prentaður með samræmdri stafsetningu, sem er miðuð við þann framburð (og málfar almennt) sem talinn er hafa átt við íslensku um 1200. Í miðdálkinum er sami texti hljóðritaður að nokkru leyti eins og talið er að framburður hafi verið um 1200. Sérhljóðin eru hljóðrituð og sum samhljóð, en eins og kom fram hér að framan er of lítið vitað um framburð ýmissa samhljóða til að ráðlegt sé að hljóðrita þau. Þess vegna eru lokhljóðin t, p, k og b, d, g ekki hljóðrituð og ekki heldur z, órödduð hljómhljóð (l, r, m, n) eru einnig látin liggja á milli hluta svo og gómkvæð n. En önghljóð, þar á meðal g, eru hljóðrituð sem og lengd hljómhljóða. Framburðaratriði eins og aðblástur, fráblástur, rödduð eða órödduð lokhljóð og hljómhljóð og framgómun k og g eru því ekki sýnd. Þess skal og getið að hljóðritunin er miðuð við að hvert orð sé borið fram sérstakt en ekki miðuð við samfellt tal. Sami texti er svo hljóðritaður í aftasta dálki samkvæmt nútímaframburði en orðmyndum eins og enn í stað hinn er þó haldið óbreyttum þótt þær séu sjaldséðar í nútímamáli. Sömu hljóð og hljóðasambönd eru hljóðrituð og í miðdálkinum nema þar sem lokhljóð hafa orðið önghljóð (t.d. ok > og); í undantekningartilvikum eru lokhljóðin b, d, g einnig hljóðrituð. Taka verður hljóðritun forníslensku með fyrirvara!
Útgáfudagur
10.7.2000
Spyrjandi
Björn Kristinsson
Tilvísun
Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Er vitað hvernig texti Íslendingasagnanna var borinn fram þegar hann var skrifaður?“ Vísindavefurinn, 10. júlí 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=624.
Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2000, 10. júlí). Er vitað hvernig texti Íslendingasagnanna var borinn fram þegar hann var skrifaður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=624
Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Er vitað hvernig texti Íslendingasagnanna var borinn fram þegar hann var skrifaður?“ Vísindavefurinn. 10. júl. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=624>.