Af mannöpunum standa simpansar næst manninum og eru prótín simpansa og manna flest nauðalík. Oft er því slegið fram að erfðafræðilegur munur á þessum tegundum sé ekki nema 1%, en nákvæm vitneskja um þennan mun fæst ekki fyrr en búið er að raðgreina genamengi apans og bera saman við genamengi mannsins. Líkamsbygging simpansa og manns er býsna ólík. Hún ræðst eflaust að miklu leyti af starfsemi gena. Ekki er víst að genin sem þar skipta máli séu gjörólík hjá apa og manni. Mismunandi stjórnun á starfsemi líkra gena gæti ráðið úrslitum. Annað sem augljóslega skilur á milli manns og apa er hæfileiki mannsins til hugsunar langt umfram það sem þekkist hjá öpum eða öðrum dýrum. Nánast ekkert er vitað um erfðafræðilegan grundvöll þessa mismunar. Að líkindum er um að ræða mismun á genum sem sérstaklega starfa í taugafrumum eða á tjáningu þeirra. Það er alls ekki víst að um "ný" gen sé að ræða hjá manninum. Þetta gæti snúist um breytingar á gömlum apagenum eða breytta tjáningu þeirra. Skipulag gena hjá dýrum og mönnum býður til dæmis upp á það að sama genið geti gefið af sér mörg mismunandi afbrigði prótína. Við þróun mannsins hefðu getað komið fram ný afbrigði mikilvægra taugaprótína. Þetta eru ágiskanir en samanburður á taugaprótínum manna og apa á efalítið eftir að varpa ljósi á þann mismun sem máli skiptir. Ekki er þar með sagt að þessar rannsóknir muni á neinn hátt skýra sjálfa hugsun mannsins. Hún lætur ekki stjórnast af genum þótt ákveðin genastarfsemi liggi henni til grundvallar. Hugsunin veitir manninum einmitt frelsi frá stöðugri afskiptasemi gena og afurða þeirra. Genin eru hins vegar ekki óhult fyrir hugsun mannsins. Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvað þarf að flytja mikið af erfðaefni úr mönnum í apa til að þeir teljist til manna? Fleiri svör um menn, apa og þróunarsöguna: Svar Einars Árnasonar við Höfum við beina línu forfeðra frá öpum til nútímamanns eða vantar enn "týnda hlekkinn"? Laggott svar ÞV við Hvort erum við komin af öpum eða fiskum?
Mynd: webshots.com