Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver veit nema engin aðferð sé skilvirkari þegar bregðast þarf við einhverju böli. Í þeim skilningi getur aðferðin talist vera góð, enda kannast allir við orðtakið „með illu skal illt út reka“. Til dæmis er sjaldgæft að kvikmyndir sýni áhorfendum annars konar leiðir þegar mæta þarf þeim öflum sem fara um með ofbeldi og illvirkjum. Aðferðin getur þó verið siðferðilega ámælisverð um leið enda tengsl milli tæknilegrar úrvinnslu með skilvirkni að leiðarljósi og siðferðilegs réttmætis oft óljós. Sérstaklega þarf að gæta að því að horfa til lengri tíma þegar afleiðingar athafnar eru skoðaðar. Margs konar skyldur, til að mynda skyldur við komandi kynslóðir, eru mikilsverð siðferðileg hugtök.
Að minnsta kosti ber að varast að ganga svo langt að álíta ofbeldi gott í sjálfu sér þrátt fyrir að það geti verið eina augljósa aðferðin sem stendur til boða. Líklega vísar spurningin í hugmyndir um að ofbeldi og valdbeiting geti verið réttlætanleg viðbrögð við vissar aðstæður. Sérstaklega getur það átt við ef aðili beitir valdi eða hótunum að fyrra bragði, eða er ógnandi á annan hátt. Við erum sem sagt flest sammála um að það er aldrei réttlætanlegt að beita ofbeldi af fyrra bragði, en sættum okkur við það sem sjálfsvörn. En reynslan kennir okkur að slík viðhorf eru ekki virt. Sérstaklega hefur reynst erfitt að greina hvað þetta „að fyrra bragði“ vísar til. Yfirleitt ganga klögumál á víxl um hvaða aðili átti upptökin. Í raun má segja að þarna sé um að ræða mesta vanda stjórnmálaheimspeki samtímans. Þjóðir, samfélög og einstaklingar telja sig hafa rétt til að bregðast við „hinu illa“. Viðbrögðin geta verið tvenns konar: það er hægt að bjóða hinn vangann, eins og sagt er, eða beita valdi. Fáir segjast velja síðari kostinn nema vísa um leið til einhvers konar nauðungar sem rekur þá áfram. Enn færri velja þann fyrri.
Friðarsinnar efast um að ofbeldi bæti heiminn.
Löng hefð er fyrir því í vestrænni hugsun að fordæma þá sem telja að afleiðingarnar einar skipti máli og ofbeldi sé réttlætanlegt í krafti bærilegrar niðurstöðu. Páll postuli orðaði það eitthvað á þá leið að þeir sem horfi bara til afleiðinga verka skilji ekki hið góða. En eins og áður sagði virðist margvíslegur ófriður ekki leystur í þeim jákvæða anda. Væntanlega þarf að milda orð Páls örlítið. Einn helsti heimspekingur miðalda, Tómas af Aquino (1225–1274), gerði það og setti fram kenningu sína um hið réttláta stríð. Kenningin krefst þess meðal annars að réttmæt yfirvöld lýsi yfir stríði, að markmiðin með stríðrekstrinum séu göfug og að stríðið sé háð á heiðvirðan hátt. Síðastnefnda skilyrðið er mikilvægast samkvæmt Tómasi: jafnvel bestu markmið geta aldrei réttlæt hvaða hegðun sem er í stríði. Sjálfsvörn getur verið dæmi um réttmætt markmið. Afleiðingar hennar eru vonandi að þú heldur lífi, en hún gæti haft þau áhrif að árásarmaður beri skaða af vörninni. Svokallað lögmál um tvennar afleiðingar, sem Tómas setti fram, segir að verknaður sé réttmætur þrátt fyrir þennan skaða.
Með kenningu Tómasar í huga getum við því skilyrt í hvaða skilningi ofbeldi er réttlætanleg leið til að bregðast við hinu illa. Tvö skilyrði virðast vera ófrávíkjanleg. Skaðinn sem þú veldur öðrum má aldrei vera takmark í sjálfu sér. Og ofbeldið má aldrei vera skeytingarlaust gagnvart þeim sem verða fyrir því. Því miður eiga hernaðaraðilar oft erfitt með að taka tillit til slíkra fyrirvara. Þeir sem telja sig heyja réttlátt stríð verða einnig að gæta þess að ofbeldi leiðir ekki aðeins til augljósra áverka. Það er einnig ofbeldi að ræna fólk grundvallarréttindum eins og aðgangi að vatni og öðru sem fullnægir daglegum þörfum. Bara það að koma í veg fyrir að börn geti gengið í skóla er ofbeldi. Stríðandi aðilum ber siðferðilega að varast að hlaupa á eftir lauslegum hugmyndum um að eitthvað sé skásta bölið og aðeins fórnarkostnaður friðar.
Sjálfsvörn sem byggir á valdi verður því ávallt að taka mið af þessum ofangreindu skilyrðum. Ræðuritarar eiga það til að taka lögmálið um tvennar afleiðingar traustataki án þess að kynna sér allar hliðar þess. Ef nokkuð stríð eða annað ofbeldi á að geta talist réttlætanlegt verður að taka tillit til allra afleiðinga. Það gengur ekki upp að reyna að sannfæra fólk um að „ófyrirséður skaði“ (e. collateral damage) sé siðferðilega réttlætanlegur í ljósi aðstæðna. Lögmálið um tvennar afleiðingar er ekki óumdeilt siðferðilögmál, en það er ekki svo einfalt að það skeyti ekki um aðra af tveimur afleiðingum. Þvert á móti. Athöfn getur orðið ámælisverð ef hún gætir ekki að hlutfallinu milli afleiðinganna. Mögulegur þjófnaður réttlætir ekki að innbrotsþjófur sé skotinn til bana, svo dæmi sé tekið.
Það má því ekki forðast að ganga til þeirra flóknu umræðu sem valdbeiting krefst í hvert sinn. Hver sá sem hvetur til ofbeldis verður að bera saman siðferðileg verðmæti og leiðir. Mestu friðarsinnar geta mögulega lent í því að réttlætiskennd þeirra sé þannig misboðið að þeir vilja grípa til aðgerða. Þeir vita að ofbeldi er ekki góð leið, en það getur verið eina leiðin. Ábyrgð samfélagsins, og oft á tíðum alþjóðasamfélagsins, felst í að gæta þess að ofbeldið verði hvorki markmið í sjálfu sér né skeytingarlaust um hag almennra borgara. Stríðshróp eins og „jafna við jörðu“ og „sprengja aftur á steinöld“ eru aldrei siðferðilega réttlætanleg markmið. Í raun eru þau óafsakanleg markmið og munu augljóslega ekki bæta heiminn fyrir nokkurn mann.
Mynd:
Henry Alexander Henrysson. „Er það góð aðferð til að bæta heiminn að reka hið illa út með ofbeldi?“ Vísindavefurinn, 27. desember 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=9811.
Henry Alexander Henrysson. (2012, 27. desember). Er það góð aðferð til að bæta heiminn að reka hið illa út með ofbeldi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=9811
Henry Alexander Henrysson. „Er það góð aðferð til að bæta heiminn að reka hið illa út með ofbeldi?“ Vísindavefurinn. 27. des. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=9811>.