Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kolgrafafjörður er norðanmegin á Snæfellsnesi, milli Grundarfjarðar að vestan og Hraunsfjarðar að austan. Nafnið Kolgrafafjörður er nú notað um fjörðinn allan, allt frá botni (Hlöðuvogi) og út undir Akureyjar. Að fornu var nafnið eingöngu notað um innri hluta fjarðarins, frá botni og fram undir þrengingarnar við Hjarðarbólsodda og Berserkseyrarodda, á svipuðum stað og brúin er nú. Kolgrafafjarðarnafnið er dregið af bænum Kolgröfum sem stendur við austanverðan innfjörðinn framarlega sem áreiðanlega hefur fengið nafn sitt af kolagröfum.
Að fornu hét ytri hluti þess sem nú heitir Kolgrafafjörður Urthvalafjörður. Í Eyrbyggjasögu segir: „Vestar hét maður, sonr Þórólfs blöðruskalla. Hann kom til Íslands með föður sinn afgamlan og nam land fyrir utan Urthvalafjörð og bjó á Öndverðareyri.“
Í handritinu AM 415 4to er varðveitt svokallað Fjarðatal. Það hefur að geyma lista nafna yfir alla firði á Íslandi, eða svo hefur líklega verið í öndverðu – nú er listinn sundurskorinn í handritinu og talsvert vantar upp á. Þar má þó sjá að bæði Urthvalafjörður og Kolgrafafjörður hafa verið nefndir á nafn. Að vísu vantar fyrsta stafinn framan af fyrra nafninu en enginn vafi leikur á að þarna hefur staðið Urthvalafjörður, síðari heimildir styðja það.
Óvíst er hversu lengi nafnið Urthvalafjörður hefur lifað. Í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups í Skálholti (Fornbréfasafn XII, bls. 11) frá um 1200 er Urthvalafjörður nefndur á nafn en rithátturinn er þar brenglaður –þar er ritað Urthólafjörður eða Úthvalafjörður (rithátturinn er úr síðari alda eftirritum).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar er Urthvalafjörður ekki nefndur á nafn. Á síðari hluta 19. aldar er fjarðarins getið í sýslu- og sóknalýsingum Bókmenntafélagsins en undir öðrum nöfnum. „Kolgrafafjörður (eftir því sem nú er almennt kallað) byrjar við línu þá, sem stefnir frá Akureyjum (austnorðan fjarðarmynnið) suður til Eyrarodda eða Eyrarfjalls (Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags, bls. 255).“ Síðar í sama riti er talað um Hvalafjörð (bls. 281, 304) en Urthvalafjörður nefndur sem gamalt heiti (bls. 310). Á síðari tímum hefur gamli Urthvalafjörður líka gengið undir nafninu Fjörður (bls. 255, nmgr.). Nafnið Kolgrafafjörður er nú eins og áður segir notað um allan fjörðinn en gamla heitið er alveg horfið úr málinu.
Urthvalur er að öllum líkindum ʻhvalkýrʼ eða ʻkvenhvalurʼ en orðið kemur lítt eða ekki fyrir nema í þessu nafni. Orðið er skylt orðinu urta sem merkir ʻkæpaʼ eða ʻkvenselurʼ. Uppruni þessara orða er ekki augljós en ekki er ótrúlegt að orðin séu dregin af sögninni verpa og sú sögn þá upphaflega verið notuð um að fæða af sér bæði egg og lifandi unga.
Mynd:
Þessi texti hefur einnig birst á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi. Textinn hefur lítillega verið aðlagaður Vísindavefnum.
Hallgrímur J. Ámundason. „Af hverju heitir Kolgrafafjörður þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=9741.
Hallgrímur J. Ámundason. (2013, 25. nóvember). Af hverju heitir Kolgrafafjörður þessu nafni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=9741
Hallgrímur J. Ámundason. „Af hverju heitir Kolgrafafjörður þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=9741>.