Er hægt að segja að allt hafi þegar verið gert með einhverri vissu, gefið að ekki sé verið að velta fyrir sér öllum mögulegum útfærslum hverrar "aðgerðar" (með aðgerð á ég við til dæmis listsköpun, iðnað og svo framvegis)?Nei, vitaskuld er það ekki hægt. Hver einstakur atburður er nýr. Þegar ég sit hér og rita þessi orð á tölvu hefur enginn eins og ég áður setið hér og ritað þessi sömu orð á tölvu. Þetta vill spyrjandi að við leiðum hjá okkur en það er hægara sagt en gert. Mennirnir eru ung tegund á jörðinni. Menn gera ýmislegt sem ekki er sýnt að nokkur önnur skepna sé fær um, tala margslungin tungumál, umbreyta af ásetningi veröldinni sem þeir búa í svo að hún hefur allt aðra ásjónu eina öldina en þá næstu, og ræða sín á milli leyndardóma veraldarinnar. Engin bygging var til eins og Hallgrímskirkja fyrr en hún var reist. Engin málverk voru til eins og málverk Kjarvals fyrr en hann málaði. Enginn orti kvæði Hallgríms Helgasonar fyrr en hann gerði það sjálfur. Internetið hefur aldrei verið til fyrr en nú, enginn maður stundaði millilandaflug fyrr en um aldamótin 1900 og geirfuglinum hafði aldrei verið gjöreytt fyrr en honum var gjöreytt. Ef síðasti pandabjörninn verður drepinn á næstu árum má segja: „Dýrategund hefur nú verið útrýmt áður." Ef við náum sambandi við líf á öðrum hnöttum verður hægt að segja: „Samband við aðra menningarheima höfum við áður myndað." Og ef stórkostlegt nýtt þinghús verður einhvern daginn reist á Íslandi má segja: „Tja, við höfum áður reist glæstar byggingar." En ef tungumálinu er svona háttað, að ekki verði þörf fyrir ný orð til að lýsa þeim athöfnum mannanna sem enn hafa ekki litið dagsins ljós, þá er það tilfallandi eiginleiki tungumálsins en ekki fólgið í eðli athafnanna. Það er að segja að það vill þá bara þannig til að sama orðið má nota yfir tvo atburði, en sá seinni getur samt sem áður verið nýr, upprunalegur. Og því nákvæmar sem atburðunum tveimur er lýst því frekar kemur í ljós munurinn á þeim, óhjákvæmilega. Athugið einnig að vísindin líta ekki á manninn sem kórónu sköpunarverks heldur hlekk í keðju, og gera frekar ráð fyrir en ekki að eftir hans dag líti nýjar tegundir dagsins ljós, sem við höfum ekki hugmynd um hvað muni gera af sér. Svo er ekki að sjá sem lát þurfi að vera á nýjum athöfnum.
Er hægt að segja að allt hafi þegar verið gert með einhverri vissu?
Útgáfudagur
12.9.2000
Spyrjandi
Þorgils Völundarson
Tilvísun
Haukur Már Helgason. „Er hægt að segja að allt hafi þegar verið gert með einhverri vissu?“ Vísindavefurinn, 12. september 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=893.
Haukur Már Helgason. (2000, 12. september). Er hægt að segja að allt hafi þegar verið gert með einhverri vissu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=893
Haukur Már Helgason. „Er hægt að segja að allt hafi þegar verið gert með einhverri vissu?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=893>.