Flestir eru sammála því að maðurinn hafi svokallaða vitund og að hann hugsi. Er hægt að sanna það vísindalega (með mælitækjum til dæmis)? Ef svo er þá hvernig, ef ekki þá hvers vegna?Það er sjaldgæft að vísindamenn taki sér fyrir hendur að sanna að það sem blasir við sé til í raun og veru og hætt er við að það setti flest vísindi í mát ef þau væru krafin um sannanir fyrir því að grjótið á götunni eða sólin og stjörnurnar eigi sér raunverulega tilvist. Ef einhver efast um að fólk hafi meðvitund og hugsi þá duga engin þekkt vísindaleg rök til að telja honum hughvarf. Varla getur nokkur hugsandi maður þó efast um að hann sjálfur hugsi og efasemdir um að aðrir hafi meðvitund eru af svipuðu sauðahúsi og önnur heimspekileg efahyggja. Hún verður ekki hrakin með neinum pottþéttum rökum. En hún sannar heldur ekki að menn vaði í villu og svíma.
Enn sem komið er veit enginn hvernig mannsheili virkar. Það er ekki til nein vísindaleg skýring á þeirri staðreynd að fólk hefur meðvitund. Raunar er ekki einu sinni vitað með neinni vissu hve stór hluti dýraríkisins hefur meðvitund. Til dæmis veit enginn maður hvort fiskar hafa tilfinningar og vitund af einhverju tagi. Þetta gefur okkur þó hvorki neitt tilefni til að vefengja að fólk hugsi og hafi vitund né til að efast um að læknisfræðileg próf skeri rétt úr um hvort maður sé meðvitundarlaus eða ekki. Vísindamenn og heimspekingar sem fjalla um vitundina hafa ekki komist að neinu samkomulagi um hvers vegna svo illa gengur að skilja hvernig mannshugurinn verkar. Sumir álíta að auknar rannsóknir og nýjar kenningar muni einhvern tíma svara spurningum okkar um hvernig sú flækja af um það bil hundraðþúsundmilljón taugafrumum, sem einn mannsheili samanstendur af, gerir okkur mögulegt að hugsa og finna til. Aðrir telja vitundina óskiljanlegan leyndardóm. Sumir þeirra hugsa sem svo að væri mannsheili nógu einfaldur til að verur á borð við okkur gætu skilið hann þá væru menn of miklir einfeldningar til að skilja nokkurn skapaðan hlut.