Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sprengistjörnur blossa upp í vetrarbrautinni okkar að jafnaði á fimmtíu til hundrað ára fresti. Þær geta orðið svo bjartar að þær sjáist vel berum augum og jafnvel að degi til. Síðast sást svo björt sprengistjarna árið 1604 og er hún kennd við Jóhannes Kepler (1571-1630) sem fylgdist kerfisbundið með henni. Leifar hennar fundust árið 1941 og benda þær til að þar hafi hvítur dvergur í tvístirni sprungið. Fjarlægðin til þessa atburðar reyndist tæplega 20.000 ljósár.
Annars konar sprengistjörnur, algengari og oftast mun öflugri, myndast þegar risastórar sólstjörnur, gjarna um 20 sinnum stærri en sólin eða stærri, hafa gjörnýtt eldsneyti sitt til kjarnasamruna. Þá fellur þrýstingurinn skyndilega í miðjunni og innsti hluti stjörnunnar hrynur saman og myndar nifteindastjörnu eða svarthol. Í þeim hamförum losnar svo mikil orka að stjarnan springur í tætlur og birtist sem kröftug sprengistjarna. Hlutfallslegur fjöldi svo stórra stjarna er ekki mjög mikill, en endalok þeirra þeim mun tilkomumeiri.
Rauða risastjarnan Betelgás er venjulega sú tíunda bjartasta á himinhvelfingunni og næstbjartasta stjarnan í Veiðimanninum (Óríon), á eftir Rígel. Betelgás er í um 640 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Massi hennar er tæplega tuttugufaldur massi sólar og þvermálið nærri sjöhundruðfalt meira. Hún flokkast því sem reginrisi og með allra stærstu stjörnum.
Birta Betelgásar er lítið eitt breytileg og telst hún hálfregluleg breytistjarna. Breytingin er þó sjaldan mikil, um eða innan við hálft birtustig, og hefur um 400 daga lotu, en einnig má greina hálfs árs lotu.
Á síðari hluta árs 2019 tók birta Betelgásar að dofna mikið og hafði snemma árs 2020 minnkað þrefalt. Nú er talið að dofnunin stafi af því að stórt gasský byrgði sýn til stjörnunnar. Gasskýið er talið hafa verið hluti yfirborðslaga stjörnunnar sem hún hefur þeytt út í geiminn.
Á síðari hluta árs 2019 tók birta Betelgásar að dofna mikið og hafði snemma árs 2020 minnkað þrefalt. Birtan jókst þá aftur og hafði á fyrri hluta árs 2023 aukist um 50% frá fyrri jafnaðarbirtu. Var stjarnan þá orðin sú sjöunda bjartasta á hvelfingunni. Þessar breytingar eru mun meiri en venjulega mælast hjá Betelgás. Því hefur verið haldið fram að þær gætu verið fyrirboði endaloka stjörnunnar sem vegna stærðar sinnar myndi þá enda sem sprengistjarna, sú allra nálægasta við jörðina nokkru sinni. Vegna nálægðarinnar yrði hún geysibjört, að minnsta kosti jafnbjört tunglinu, jafnvel bjartari. Hún sæist því vel að degi til.
Ítarlegar mælingar benda hins vegar til að heildarútgeislun stjörnunnar hafi lítið eða ekkert breyst síðustu 50 árin. Nú er talið að dofnunin stafi af því að stórt gasský byrgði sýn til stjörnunnar. Gasskýið er talið hafa verið hluti yfirborðslaga stjörnunnar sem hún hefur þeytt út í geiminn. Slík hegðun er oft til merkis um að stjarna sé að verða óstöðug. Það gerist þegar eldsneyti hennar er nærri á þrotum, en þá er jafnan skammt að bíða endalokanna.
Nokkur hundruð þúsund ár er mjög skammur tími í stjarnvísindum. Jafnvel þó Betelgás sé nú að ná lokaskeiði sínu er ólíklegt að jarðarbúar verði vitni að tilkomumiklum endalokum hennar næstu hundrað þúsund árin. Vel er þó fylgst með henni því að bæði er hún nálægt okkur í geimnum og eins er tækjabúnaður til muna öflugri en var á dögum Keplers.
Myndir:
Gunnlaugur Björnsson. „Er eitthvað til í því að reginrisinn Betelgás verði brátt sprengistjarna?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2025, sótt 8. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87630.
Gunnlaugur Björnsson. (2025, 7. apríl). Er eitthvað til í því að reginrisinn Betelgás verði brátt sprengistjarna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87630
Gunnlaugur Björnsson. „Er eitthvað til í því að reginrisinn Betelgás verði brátt sprengistjarna?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2025. Vefsíða. 8. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87630>.