Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 19:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:30 • Sest 08:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:03 • Síðdegis: 12:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:52 • sest 19:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:30 • Sest 08:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:03 • Síðdegis: 12:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig hefur beygingarkerfi íslenskrar tungu þróast frá forníslensku til nútímamáls?

Eiríkur Rögnvaldsson

Flest vita að íslenska er meira beygingamál en þau mál sem henni eru skyldust, og litlar breytingar á beygingakerfinu er það sem einna helst greinir íslensku frá öðrum norðurlandamálum. Það er þó ekki þar með sagt að engar beygingarbreytingar hafi orðið í íslensku frá því að landið byggðist. Þær eru töluverðar; en þær felast fyrst og fremst í því að einstakar beygingarendingar breytast, eða ákveðin orð skipta um endingar, en ekki í því að beygingarformdeildum fækki. Hér er eingöngu fjallað um breytingar á kerfinu sjálfu, þ.e. beygingarformdeildum og beygingarflokkum (beygingarreglum) en ekki um breytingar á einstökum orðum.

1. Breytingar á formdeildum

Reyndar hefur ein formdeild horfið úr íslensku síðan í fornu máli. Það er tvítalan, sem var að vísu mjög takmörkuð; aðeins í persónufornöfnum og eignarfornöfnum. Í indóevrópsku beygðust sagnir líka í tvítölu, en það var liðin tíð löngu fyrir upphaf íslensks máls. Þegar tvítalan var og hét, beygðust fornöfn fyrstu og annarrar persónu svona (ekki tekið tillit til hljóðbreytinga):

ég við vér   þú þið þér
mig okkur oss   þig ykkur yður
mér okkur oss   þér ykkur yður
mín okkar vor   þín ykkar yðar

Þegar talað var um tvo, voru notuð formin við og þið (og beygingarmyndir þeirra), en vér og þér voru aðeins notuð um þrjá eða fleiri. (Reyndar voru fleirtöluformin líka notuð um einn eða tvo í hátíðleikaskyni, eins og tíðkast enn í dag.)

Ein formdeild hefur horfið úr íslensku síðan í fornu máli. Það er tvítalan. Þegar talað var um tvo, voru notuð formin við og þið (og beygingarmyndir þeirra), en vér og þér voru aðeins notuð um þrjá eða fleiri. Myndin er úr Heynesbók Jónsbókar, handriti frá 16. öld.

Á 14. eða 15. öld fer tvítalan að veiklast sem formdeild, þannig að farið er að nota fleirtölumyndirnar þótt aðeins sé átt við tvo, og tvítölumyndirnar einnig um þrjá eða fleiri. Það er samt ekki fyrr en á 17. öld sem hratt undanhald tvítölunnar hefst, og á 18. öld hverfur hún alveg. En eins og við sjáum hafði hvarf tvítölunnar sem sérstakrar formdeildar ekki í för með sér hvarf tvítöluorðanna sjálfra; þvert á móti voru þau tekin upp fyrir tvo eða fleiri, og ruddu þar með gömlu fleirtöluformunum burt.

Eins og áður sagði höfðu gömlu fleirtöluformin vér, þér o.s.frv. lengi áður verið notuð í hátíðlegu máli fyrir bæði fyrstu og aðra persónu. Líklegt er að þetta hafi stuðlað að því að þegar tvítalan hvarf sem formdeild voru tvítöluformin tekin upp sem almenn fleirtala. vér og þér gat staðið fyrir hvaða persónu sem var, og því var hentugt að fá form sem gátu aðeins táknað fleirtölu. Eftir að tvítöluformdeildin var horfin gátu gömlu tvítöluformin gert það.

Tvítalan var ekki bara í persónufornöfnum; eins og áður kom fram var hún líka í eignarfornöfnum. En þar hvarf ekki bara tvítalan, heldur ýmis fleirtöluform líka. Sérstök eignarfornöfn í nútímamáli eru fjögur; minn, þinn, sinn og vor. Merkingarlega og sögulega er vor fleirtala af minn, þótt orðið sé nú bundið við hátíðlegt mál og eignarfall persónufornafnsins við, okkar, notað þess í stað. Í annarri persónu er aftur á móti engin hátíðleg hliðstæða við vor til í nútímamáli, heldur eingöngu eignarfallið ykkar. Ef nota þarf hátíðlegt orð er hægt að grípa til yðar, sem er eignarfall eins og okkar og ykkar, en ekki sérstakt eignarfornafn eins og vor. En í fornu máli var ekki einasta til önnur persóna fleirtölu, yðvarr, hliðstæð við vor, heldur voru líka til sérstök tvítöluform, okkarr og ykkarr. Skoðum nú beygingu tveggja þessara orða:

kk kvk hk   kk kvk hk
okkarr okkur okkart   yðvarr yður yðvart
okkarn okkra okkart   yðvarn yðra yðvart
okkrum okkarri okkru   yðrum yðvarri yðru
okkars okkarrar okkars   yðvars yðvarrar yðvars
okkrir okkrar okkur   yðrir yðrar yður
okkra okkrar okkur   yðra yðrar yður
okkrum okkrum okkrum   yðrum yðrum yðrum
okkarra okkarra okkarra   yðvarra yðvarra yðvarra

2. Breytingar á beygingarflokkum

Það er eiginlega ekki nema einn beygingarflokkur – eða ein beygingarregla – í íslensku fornmáli sem telja má horfinn úr nútímamáli. Þar er um að ræða svonefnda u-stofna í karlkyni, en til þeirra töldust flest sterk karlkynsorð sem hafa ö eða í stofni; köttur, mögur, skjöldur, fjörður o.s.frv. Til forna beygðust þessi orð á þennan hátt:

köttur kettir   fjörður firðir
kött köttu   fjörð fjörðu
ketti köttum   firði fjörðum
kattar katta   fjarðar fjarða

Það sem hefur breyst er þolfall fleirtölu; í stað þess að vera -u er það nú alltaf -i í venjulegu máli (þótt myndir með -u komi fyrir í hátíðlegu máli eða föstum orðasamböndum, eins og ganga fram fyrir skjöldu). Það er ekki óeðlilegt að þetta skuli hafa breyst. Bæði eru þetta einu nafnorðin þar sem -u-ending var í þolfalli fleirtölu; og eins gildir sú almenna regla í karlkynsnafnorðum, að þolfall fleirtölu er eins og nefnifallið að frádregnu -r. Þegar það bætist við að -u-stofna orðin voru alltaf fá, en orð sem enduðu á -ar í eignarfalli eintölu, -ir í nefnifalli fleirtölu og -i í þolfalli fleirtölu hafa alltaf verið mörg, er ekki að undra að síðarnefndi flokkurinn hafi dregið þann fyrri til sín.

Það er eiginlega ekki nema einn beygingarflokkur – eða ein beygingarregla – í íslensku fornmáli sem telja má horfinn úr nútímamáli. Þar er um að ræða svonefnda u-stofna í karlkyni, en til þeirra töldust flest sterk karlkynsorð sem hafa ö eða í stofni. Orðið fjörður er þeirra á meðal. Myndin sýnir fjörð í Noregi eftir norska málarann Adelsteen Normann (1848-1918).

3. Nafnorðabeyging

Vissulega hafa fjölmargar aðrar breytingar orðið á nafnorðabeygingunni, en þær varða annaðhvort hljóðbeygingarreglur, eða þá einstök orð sem flust hafa milli beygingarflokka. Lítum fyrst á hljóðbeygingarreglurnar. Það sem þar skiptir helst máli er reglan um brottfall v úr enda stofns. Berum saman beygingu þriggja orða í fornmáli og nútímamáli:

Fornt Nútími   Fornt Nútími   Fornt Nútími
söngr söngur   ör ör   högg högg
söng söng   ör ör   högg högg
söngvi söng   ör ör   höggvi höggi
söngs söngs   örvar örvar   höggs höggs
söngvar söngvar   örvar örvar   högg högg
söngva söngva   örvar örvar   högg högg
söngum söngvum   örum örvum   höggum höggum
söngva söngva   örva örva   höggva högga

Karlkyns og hvorugkynsorðin töldust til svonefndra wa-stofna, kvenkynsorðin til wo-stofna. Í öllum hvorugkynsorðum af þessum flokki hefur það gerst að v hefur horfið úr allri beygingunni. Til forna beygðust orðin bygg, böl, fjör, kjöt, lyng, mjöl, smjör, öl o.fl. á þennan hátt, en þau eru nú öll án v. Í karlkyns- og kvenkynsorðunum hefur v hins vegar haldist, en reglur um dreifingu þess hafa breyst. Áður féll það brott í enda orðs, á undan samhljóði (í nefnifalli eintölu karlkyni) og á undan u (í þágufalli fleirtölu), en nú helst það á undan u.

Væntanlega stendur sá munur í sambandi við það að v er nú annars konar hljóð en það var í fornu máli; þá var það svokallað hálfsérhljóð, og stóð miklu nær u að hljóðgildi en það gerir nú, og því eðlilegt að tvö svo lík hljóð stæðu ekki saman. En nú er v orðið hreint önghljóð, og þar sem hljóðgildi u hefur einnig breyst, eru líkindin ekki svo mikil. Aftur á móti kemur það ekki inn á undan u í nefnifalli eintölu karlkyni, en það er vegna þess að það u er annars eðlis en í þágufalli fleirtölu, þ.e. innskotshljóð.

Karlkynsorð sem beygðust svona voru alltaf fá, og nú eru nær engin eftir nema söngur; önnur hafa annaðhvort misst v úr allri beygingunni (Sigtryggur, hör) eða eru ekkert notuð (fjörvar, hjör). Kvenkynsorðin voru síst fleiri, og í nútímamáli er það varla nema stöð sem beygist eins og ör; önnur eru fallin úr notkun (böð) eða hafa misst v algerlega (dögg).

Þá má nefna beygingu orða eins og læknir. Í upphafi endar stofn þeirra á -i-, og þau fá síðan venjulegar endingar, en -i- fellur brott í enda stofns þegar endingin byrjar á sérhljóði; læknar (< lækni+ar), lækna (lækni+a), læknum (lækni+um). Snemma kemur þó fram tilhneiging til að líta á endinguna -r í nf.et. sem stofnlæga, og láta hana halda sér í öllum föllum; beygja orðin sem sé eins og akur og hamar. Sú beyging er útbreidd enn í dag, en hefur þó aldrei verið viðurkennd.

4. Lýsingarorðabeyging

Lýsingarorð hafa ekki breytt um beygingu að neinu marki. Þó er þess að geta að til forna hafði bæði veik beyging frumstigs og efsta stigs, svo og miðstig, hina almennu endingu -(u)m í þágufalli fleirtölu, eins og nær öll önnur fallorð. Sagt var: frá hinum ríkum / ríkurum / ríkustum mönnum í stað frá hinum ríku / ríkari / ríkustu mönnum, eins og nú er. Þessi breyting hefur það í för með sér að öll föll ft. verða eins í þessum formdeildum, og er aðdráttarafl hinna fallanna auðvitað ástæða þessarar breytingar. Þar að auki hefur orðið breyting á karlkynsbeygingu miðstigs; áður enduðu aukaföllin þar á -a, en nú enda þau yfirleitt á -i eins og nefnifallið.

Í lýsingarorðum hefur líka orðið breyting á v-brottfalli, eins og í nafnorðum. Orð eins og fölur, dökkur, röskur, snöggur, styggur, tryggur, ör o.fl. höfðu v í stofni eftir sömu reglum og nafnorðin (þ.e. á undan a og i, en ekki í enda orðs eða á undan samhljóði og u). Öll þessi orð hafa nú misst þetta v.

5. Sagnbeyging

Í sagnbeygingunni hafa ýmsar breytingar orðið, en helstar eru breytingar á endingum í viðtengingarhætti. Lítum á beygingu sagnarinnar kalla í viðtengingarhætti nútíðar og þátíðar að fornu og nýju:

Fornt Nútími   Fornt Nútími
kalla kalli   kallaða kallaði
kallir kallir   kallaðir kallaðir
kalli kalli   kallaði kallaði
kallim köllum   kallaðim kölluðum
kallið kallið   kallaðið kölluðuð
kalli kalli   kallaði kölluðu

Það sem hefur gerst er að i hefur komið í stað a í fyrstu persónu eintölu, en u í stað i á nokkrum stöðum í fleirtölu. Reyndar hefur a líka breyst ýmist í u eða ö í fleirtölunni, en óþarft er að gera sérstaka grein fyrir þeirri breytingu, því að hún er sjálfkrafa afleiðing þess að u kemur fram í endingunni (u-hljóðvarp).

Allar þessar breytingar nema breytingin kalla > kalli í fyrstu persónu eintölu nútíð valda því að form viðtengingarháttar verður hið sama og framsöguháttar. Breytingin í fyrstu persónu eintölu nútíð hefur hins vegar þveröfug áhrif, því að til forna voru framsöguháttur og viðtengingarháttur þar eins, en nú mismunandi. Þetta passar hins vegar vel við það sem er vel þekkt, að aðgreining er yfirleitt meiri í ómörkuðum formdeildum en mörkuðum.

Ending annarrar persónu eintölu í nútíð hefur breyst í þeim sterkum sögnum þar sem stofninn endar á -r-. Áður höfðu þessar sagnir hina reglulegu endingu þessarar myndar, þ.e. -r (kallar, dæmir, brýt(u)r), og voru því t.d. ferr, af fara. Nú fá þær þess í stað ; ferð. Ef stofninn endar á þöndu sérhljóði (breiðu sérhljóði eða tvíhljóði) fá sagnir -rð (slærð). Sama gildir líka um veikar sagnir sem beygjast eins og telja (berð, af berja, knýrð, af knýja). Í sterkum sögnum með stofn sem endar á -s- verður endingin -t í annarri persónu eintölu nútíð (lest).

Myndir:

Höfundur

Eiríkur Rögnvaldsson

prófessor emeritus í íslenskri málfræði

Útgáfudagur

3.3.2025

Spyrjandi

Arnar Elvarsson

Tilvísun

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvernig hefur beygingarkerfi íslenskrar tungu þróast frá forníslensku til nútímamáls?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2025, sótt 13. mars 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87553.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2025, 3. mars). Hvernig hefur beygingarkerfi íslenskrar tungu þróast frá forníslensku til nútímamáls? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87553

Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvernig hefur beygingarkerfi íslenskrar tungu þróast frá forníslensku til nútímamáls?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2025. Vefsíða. 13. mar. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87553>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig hefur beygingarkerfi íslenskrar tungu þróast frá forníslensku til nútímamáls?
Flest vita að íslenska er meira beygingamál en þau mál sem henni eru skyldust, og litlar breytingar á beygingakerfinu er það sem einna helst greinir íslensku frá öðrum norðurlandamálum. Það er þó ekki þar með sagt að engar beygingarbreytingar hafi orðið í íslensku frá því að landið byggðist. Þær eru töluverðar; en þær felast fyrst og fremst í því að einstakar beygingarendingar breytast, eða ákveðin orð skipta um endingar, en ekki í því að beygingarformdeildum fækki. Hér er eingöngu fjallað um breytingar á kerfinu sjálfu, þ.e. beygingarformdeildum og beygingarflokkum (beygingarreglum) en ekki um breytingar á einstökum orðum.

1. Breytingar á formdeildum

Reyndar hefur ein formdeild horfið úr íslensku síðan í fornu máli. Það er tvítalan, sem var að vísu mjög takmörkuð; aðeins í persónufornöfnum og eignarfornöfnum. Í indóevrópsku beygðust sagnir líka í tvítölu, en það var liðin tíð löngu fyrir upphaf íslensks máls. Þegar tvítalan var og hét, beygðust fornöfn fyrstu og annarrar persónu svona (ekki tekið tillit til hljóðbreytinga):

ég við vér   þú þið þér
mig okkur oss   þig ykkur yður
mér okkur oss   þér ykkur yður
mín okkar vor   þín ykkar yðar

Þegar talað var um tvo, voru notuð formin við og þið (og beygingarmyndir þeirra), en vér og þér voru aðeins notuð um þrjá eða fleiri. (Reyndar voru fleirtöluformin líka notuð um einn eða tvo í hátíðleikaskyni, eins og tíðkast enn í dag.)

Ein formdeild hefur horfið úr íslensku síðan í fornu máli. Það er tvítalan. Þegar talað var um tvo, voru notuð formin við og þið (og beygingarmyndir þeirra), en vér og þér voru aðeins notuð um þrjá eða fleiri. Myndin er úr Heynesbók Jónsbókar, handriti frá 16. öld.

Á 14. eða 15. öld fer tvítalan að veiklast sem formdeild, þannig að farið er að nota fleirtölumyndirnar þótt aðeins sé átt við tvo, og tvítölumyndirnar einnig um þrjá eða fleiri. Það er samt ekki fyrr en á 17. öld sem hratt undanhald tvítölunnar hefst, og á 18. öld hverfur hún alveg. En eins og við sjáum hafði hvarf tvítölunnar sem sérstakrar formdeildar ekki í för með sér hvarf tvítöluorðanna sjálfra; þvert á móti voru þau tekin upp fyrir tvo eða fleiri, og ruddu þar með gömlu fleirtöluformunum burt.

Eins og áður sagði höfðu gömlu fleirtöluformin vér, þér o.s.frv. lengi áður verið notuð í hátíðlegu máli fyrir bæði fyrstu og aðra persónu. Líklegt er að þetta hafi stuðlað að því að þegar tvítalan hvarf sem formdeild voru tvítöluformin tekin upp sem almenn fleirtala. vér og þér gat staðið fyrir hvaða persónu sem var, og því var hentugt að fá form sem gátu aðeins táknað fleirtölu. Eftir að tvítöluformdeildin var horfin gátu gömlu tvítöluformin gert það.

Tvítalan var ekki bara í persónufornöfnum; eins og áður kom fram var hún líka í eignarfornöfnum. En þar hvarf ekki bara tvítalan, heldur ýmis fleirtöluform líka. Sérstök eignarfornöfn í nútímamáli eru fjögur; minn, þinn, sinn og vor. Merkingarlega og sögulega er vor fleirtala af minn, þótt orðið sé nú bundið við hátíðlegt mál og eignarfall persónufornafnsins við, okkar, notað þess í stað. Í annarri persónu er aftur á móti engin hátíðleg hliðstæða við vor til í nútímamáli, heldur eingöngu eignarfallið ykkar. Ef nota þarf hátíðlegt orð er hægt að grípa til yðar, sem er eignarfall eins og okkar og ykkar, en ekki sérstakt eignarfornafn eins og vor. En í fornu máli var ekki einasta til önnur persóna fleirtölu, yðvarr, hliðstæð við vor, heldur voru líka til sérstök tvítöluform, okkarr og ykkarr. Skoðum nú beygingu tveggja þessara orða:

kk kvk hk   kk kvk hk
okkarr okkur okkart   yðvarr yður yðvart
okkarn okkra okkart   yðvarn yðra yðvart
okkrum okkarri okkru   yðrum yðvarri yðru
okkars okkarrar okkars   yðvars yðvarrar yðvars
okkrir okkrar okkur   yðrir yðrar yður
okkra okkrar okkur   yðra yðrar yður
okkrum okkrum okkrum   yðrum yðrum yðrum
okkarra okkarra okkarra   yðvarra yðvarra yðvarra

2. Breytingar á beygingarflokkum

Það er eiginlega ekki nema einn beygingarflokkur – eða ein beygingarregla – í íslensku fornmáli sem telja má horfinn úr nútímamáli. Þar er um að ræða svonefnda u-stofna í karlkyni, en til þeirra töldust flest sterk karlkynsorð sem hafa ö eða í stofni; köttur, mögur, skjöldur, fjörður o.s.frv. Til forna beygðust þessi orð á þennan hátt:

köttur kettir   fjörður firðir
kött köttu   fjörð fjörðu
ketti köttum   firði fjörðum
kattar katta   fjarðar fjarða

Það sem hefur breyst er þolfall fleirtölu; í stað þess að vera -u er það nú alltaf -i í venjulegu máli (þótt myndir með -u komi fyrir í hátíðlegu máli eða föstum orðasamböndum, eins og ganga fram fyrir skjöldu). Það er ekki óeðlilegt að þetta skuli hafa breyst. Bæði eru þetta einu nafnorðin þar sem -u-ending var í þolfalli fleirtölu; og eins gildir sú almenna regla í karlkynsnafnorðum, að þolfall fleirtölu er eins og nefnifallið að frádregnu -r. Þegar það bætist við að -u-stofna orðin voru alltaf fá, en orð sem enduðu á -ar í eignarfalli eintölu, -ir í nefnifalli fleirtölu og -i í þolfalli fleirtölu hafa alltaf verið mörg, er ekki að undra að síðarnefndi flokkurinn hafi dregið þann fyrri til sín.

Það er eiginlega ekki nema einn beygingarflokkur – eða ein beygingarregla – í íslensku fornmáli sem telja má horfinn úr nútímamáli. Þar er um að ræða svonefnda u-stofna í karlkyni, en til þeirra töldust flest sterk karlkynsorð sem hafa ö eða í stofni. Orðið fjörður er þeirra á meðal. Myndin sýnir fjörð í Noregi eftir norska málarann Adelsteen Normann (1848-1918).

3. Nafnorðabeyging

Vissulega hafa fjölmargar aðrar breytingar orðið á nafnorðabeygingunni, en þær varða annaðhvort hljóðbeygingarreglur, eða þá einstök orð sem flust hafa milli beygingarflokka. Lítum fyrst á hljóðbeygingarreglurnar. Það sem þar skiptir helst máli er reglan um brottfall v úr enda stofns. Berum saman beygingu þriggja orða í fornmáli og nútímamáli:

Fornt Nútími   Fornt Nútími   Fornt Nútími
söngr söngur   ör ör   högg högg
söng söng   ör ör   högg högg
söngvi söng   ör ör   höggvi höggi
söngs söngs   örvar örvar   höggs höggs
söngvar söngvar   örvar örvar   högg högg
söngva söngva   örvar örvar   högg högg
söngum söngvum   örum örvum   höggum höggum
söngva söngva   örva örva   höggva högga

Karlkyns og hvorugkynsorðin töldust til svonefndra wa-stofna, kvenkynsorðin til wo-stofna. Í öllum hvorugkynsorðum af þessum flokki hefur það gerst að v hefur horfið úr allri beygingunni. Til forna beygðust orðin bygg, böl, fjör, kjöt, lyng, mjöl, smjör, öl o.fl. á þennan hátt, en þau eru nú öll án v. Í karlkyns- og kvenkynsorðunum hefur v hins vegar haldist, en reglur um dreifingu þess hafa breyst. Áður féll það brott í enda orðs, á undan samhljóði (í nefnifalli eintölu karlkyni) og á undan u (í þágufalli fleirtölu), en nú helst það á undan u.

Væntanlega stendur sá munur í sambandi við það að v er nú annars konar hljóð en það var í fornu máli; þá var það svokallað hálfsérhljóð, og stóð miklu nær u að hljóðgildi en það gerir nú, og því eðlilegt að tvö svo lík hljóð stæðu ekki saman. En nú er v orðið hreint önghljóð, og þar sem hljóðgildi u hefur einnig breyst, eru líkindin ekki svo mikil. Aftur á móti kemur það ekki inn á undan u í nefnifalli eintölu karlkyni, en það er vegna þess að það u er annars eðlis en í þágufalli fleirtölu, þ.e. innskotshljóð.

Karlkynsorð sem beygðust svona voru alltaf fá, og nú eru nær engin eftir nema söngur; önnur hafa annaðhvort misst v úr allri beygingunni (Sigtryggur, hör) eða eru ekkert notuð (fjörvar, hjör). Kvenkynsorðin voru síst fleiri, og í nútímamáli er það varla nema stöð sem beygist eins og ör; önnur eru fallin úr notkun (böð) eða hafa misst v algerlega (dögg).

Þá má nefna beygingu orða eins og læknir. Í upphafi endar stofn þeirra á -i-, og þau fá síðan venjulegar endingar, en -i- fellur brott í enda stofns þegar endingin byrjar á sérhljóði; læknar (< lækni+ar), lækna (lækni+a), læknum (lækni+um). Snemma kemur þó fram tilhneiging til að líta á endinguna -r í nf.et. sem stofnlæga, og láta hana halda sér í öllum föllum; beygja orðin sem sé eins og akur og hamar. Sú beyging er útbreidd enn í dag, en hefur þó aldrei verið viðurkennd.

4. Lýsingarorðabeyging

Lýsingarorð hafa ekki breytt um beygingu að neinu marki. Þó er þess að geta að til forna hafði bæði veik beyging frumstigs og efsta stigs, svo og miðstig, hina almennu endingu -(u)m í þágufalli fleirtölu, eins og nær öll önnur fallorð. Sagt var: frá hinum ríkum / ríkurum / ríkustum mönnum í stað frá hinum ríku / ríkari / ríkustu mönnum, eins og nú er. Þessi breyting hefur það í för með sér að öll föll ft. verða eins í þessum formdeildum, og er aðdráttarafl hinna fallanna auðvitað ástæða þessarar breytingar. Þar að auki hefur orðið breyting á karlkynsbeygingu miðstigs; áður enduðu aukaföllin þar á -a, en nú enda þau yfirleitt á -i eins og nefnifallið.

Í lýsingarorðum hefur líka orðið breyting á v-brottfalli, eins og í nafnorðum. Orð eins og fölur, dökkur, röskur, snöggur, styggur, tryggur, ör o.fl. höfðu v í stofni eftir sömu reglum og nafnorðin (þ.e. á undan a og i, en ekki í enda orðs eða á undan samhljóði og u). Öll þessi orð hafa nú misst þetta v.

5. Sagnbeyging

Í sagnbeygingunni hafa ýmsar breytingar orðið, en helstar eru breytingar á endingum í viðtengingarhætti. Lítum á beygingu sagnarinnar kalla í viðtengingarhætti nútíðar og þátíðar að fornu og nýju:

Fornt Nútími   Fornt Nútími
kalla kalli   kallaða kallaði
kallir kallir   kallaðir kallaðir
kalli kalli   kallaði kallaði
kallim köllum   kallaðim kölluðum
kallið kallið   kallaðið kölluðuð
kalli kalli   kallaði kölluðu

Það sem hefur gerst er að i hefur komið í stað a í fyrstu persónu eintölu, en u í stað i á nokkrum stöðum í fleirtölu. Reyndar hefur a líka breyst ýmist í u eða ö í fleirtölunni, en óþarft er að gera sérstaka grein fyrir þeirri breytingu, því að hún er sjálfkrafa afleiðing þess að u kemur fram í endingunni (u-hljóðvarp).

Allar þessar breytingar nema breytingin kalla > kalli í fyrstu persónu eintölu nútíð valda því að form viðtengingarháttar verður hið sama og framsöguháttar. Breytingin í fyrstu persónu eintölu nútíð hefur hins vegar þveröfug áhrif, því að til forna voru framsöguháttur og viðtengingarháttur þar eins, en nú mismunandi. Þetta passar hins vegar vel við það sem er vel þekkt, að aðgreining er yfirleitt meiri í ómörkuðum formdeildum en mörkuðum.

Ending annarrar persónu eintölu í nútíð hefur breyst í þeim sterkum sögnum þar sem stofninn endar á -r-. Áður höfðu þessar sagnir hina reglulegu endingu þessarar myndar, þ.e. -r (kallar, dæmir, brýt(u)r), og voru því t.d. ferr, af fara. Nú fá þær þess í stað ; ferð. Ef stofninn endar á þöndu sérhljóði (breiðu sérhljóði eða tvíhljóði) fá sagnir -rð (slærð). Sama gildir líka um veikar sagnir sem beygjast eins og telja (berð, af berja, knýrð, af knýja). Í sterkum sögnum með stofn sem endar á -s- verður endingin -t í annarri persónu eintölu nútíð (lest).

Myndir:...