Sólin Sólin Rís 06:48 • sest 20:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:32 • Sest 25:17 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:31 • Síðdegis: 19:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:48 • sest 20:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:32 • Sest 25:17 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:31 • Síðdegis: 19:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru til margar tegundir af dvergstjörnum í geimnum?

Páll Jakobsson

Þrjár tegundir svonefndra dvergstjarna eru til. Þær nefnast hvítir dvergar, rauðir dvergar og brúnir dvergar.[1]

Hvítir dvergar eru kulnaðar sólstjörnur, lokastig þróunar flestra sólstjarna í alheimi. Þeir eru daufir og þéttir hnettir á stærð við jörðina en álíka massamiklir og sólin. Eftir um 5 milljarða ára þegar sólin rennur sitt skeið á enda, mun hún ryðja ytri efnislögum sínum út í geiminn sem svo mynda um hana skammlífa hringþoku. Í miðju þokunnar situr eftir kjarni hinnar útbrunnu sólar, hvítur dvergur. Fjölmarga hvíta dverga er að finna í nágrenni sólarinnar en allir eru þeir of daufir til að sjást með berum augum. Sá nálægasti er Síríus B, fylgistjarna Síríusar, í rúmlega átta ljósára fjarlægð.

Rauðir dvergar eru algengasta gerð sólstjarna í Vetrarbrautinni, og telja allt að 75% þeirra. Þetta eru massaminnstu og köldustu stjörnurnar á svonefndri meginröð. Þær eru mjög daufar og sjást ekki með berum augum frá jörðinni. Sá rauði dvergur sem næstur er jörðu er Proxima Centauri, í ríflega fjögurra ljósára fjarlægð. Massaminnstu rauðu dvergarnir geta skinið í allt að þúsund milljarða ára áður en þeir enda sem hvítir dvergar. Þegar líftími rauðra dverga er borinn saman við aldur alheimsins er ljóst að enginn slíkur er nálægt því að nálgast ævilok sín.

Svonefnt Hertzsprung-Russell línurit sem sýnir hvar hinar ýmsu tegundir stjarna raðast eftir litrófsflokkum og raunbirtu. Litrófsflokkar stjarna eru á x-ásnum og raunbirta á y-ásnum. Hitastig eykst til vinstri og ljósafl stjarnanna eykst þeim mun ofar sem dregur eftir y-ásnum.

Brúnir dvergar eru enn massaminni en hinir rauðu, oft er talað um þá sem mislukkaðar stjörnur. Þeir eru ekki nægilega massamiklir til að þyngdarsamdráttur nái að kveikja þau kjarnahvörf sem valda því að stjörnur skína. Jafnvel mætti líta á þessa hnetti sem nokkurs konar millistig stjörnu og reikistjörnu. Ef massi hnattarins er minni en um það bil 1% af massa sólar (um 13 Júpítermassar), er talað um hann sem reikistjörnu (gasrisa).

Hafa ber í huga að þó svo að massaminnstu brúnu dvergarnir og massamestu reikistjörnurnar hafi áþekkan massa myndast fyrirbærin á gerólíkan hátt. Brúnir dvergar verða til á svipaðan hátt og sólstjörnur, það er í geimþokum þar sem massinn er nægilegur til að þéttasti hluti þokunnar dregst saman og hitnar. Vegna snúnings, dregst allt efnið þó ekki saman að miðjunni heldur myndar skífu umhverfis frumstjörnuna. Í þessari skífu myndast svo reikistjörnur þegar efnisagnir hennar hnoðast saman í sífelldum árekstrum.

Tilvísun:
  1. ^ Fjórða tegundin er svonefndur svartur dvergur. Hún hefur hins vegar aldrei fundist og er aðeins til sem fræðileg hugmynd. Líklega er alheimurinn ekki nógu gamall til að svartur dvergur, sem er í raun útkulnaður hvítur dvergur, hafi náð að myndast.

Myndir:

Texti þessa svars birtist fyrst í Almanaki Háskóla Íslands 2025 en var endurskoðaður fyrir Vísindavefinn.

Höfundur

Páll Jakobsson

prófessor í stjarneðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

17.3.2025

Spyrjandi

Alfreð Ragnarsson

Tilvísun

Páll Jakobsson. „Hvað eru til margar tegundir af dvergstjörnum í geimnum?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2025, sótt 31. mars 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87538.

Páll Jakobsson. (2025, 17. mars). Hvað eru til margar tegundir af dvergstjörnum í geimnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87538

Páll Jakobsson. „Hvað eru til margar tegundir af dvergstjörnum í geimnum?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2025. Vefsíða. 31. mar. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87538>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru til margar tegundir af dvergstjörnum í geimnum?
Þrjár tegundir svonefndra dvergstjarna eru til. Þær nefnast hvítir dvergar, rauðir dvergar og brúnir dvergar.[1]

Hvítir dvergar eru kulnaðar sólstjörnur, lokastig þróunar flestra sólstjarna í alheimi. Þeir eru daufir og þéttir hnettir á stærð við jörðina en álíka massamiklir og sólin. Eftir um 5 milljarða ára þegar sólin rennur sitt skeið á enda, mun hún ryðja ytri efnislögum sínum út í geiminn sem svo mynda um hana skammlífa hringþoku. Í miðju þokunnar situr eftir kjarni hinnar útbrunnu sólar, hvítur dvergur. Fjölmarga hvíta dverga er að finna í nágrenni sólarinnar en allir eru þeir of daufir til að sjást með berum augum. Sá nálægasti er Síríus B, fylgistjarna Síríusar, í rúmlega átta ljósára fjarlægð.

Rauðir dvergar eru algengasta gerð sólstjarna í Vetrarbrautinni, og telja allt að 75% þeirra. Þetta eru massaminnstu og köldustu stjörnurnar á svonefndri meginröð. Þær eru mjög daufar og sjást ekki með berum augum frá jörðinni. Sá rauði dvergur sem næstur er jörðu er Proxima Centauri, í ríflega fjögurra ljósára fjarlægð. Massaminnstu rauðu dvergarnir geta skinið í allt að þúsund milljarða ára áður en þeir enda sem hvítir dvergar. Þegar líftími rauðra dverga er borinn saman við aldur alheimsins er ljóst að enginn slíkur er nálægt því að nálgast ævilok sín.

Svonefnt Hertzsprung-Russell línurit sem sýnir hvar hinar ýmsu tegundir stjarna raðast eftir litrófsflokkum og raunbirtu. Litrófsflokkar stjarna eru á x-ásnum og raunbirta á y-ásnum. Hitastig eykst til vinstri og ljósafl stjarnanna eykst þeim mun ofar sem dregur eftir y-ásnum.

Brúnir dvergar eru enn massaminni en hinir rauðu, oft er talað um þá sem mislukkaðar stjörnur. Þeir eru ekki nægilega massamiklir til að þyngdarsamdráttur nái að kveikja þau kjarnahvörf sem valda því að stjörnur skína. Jafnvel mætti líta á þessa hnetti sem nokkurs konar millistig stjörnu og reikistjörnu. Ef massi hnattarins er minni en um það bil 1% af massa sólar (um 13 Júpítermassar), er talað um hann sem reikistjörnu (gasrisa).

Hafa ber í huga að þó svo að massaminnstu brúnu dvergarnir og massamestu reikistjörnurnar hafi áþekkan massa myndast fyrirbærin á gerólíkan hátt. Brúnir dvergar verða til á svipaðan hátt og sólstjörnur, það er í geimþokum þar sem massinn er nægilegur til að þéttasti hluti þokunnar dregst saman og hitnar. Vegna snúnings, dregst allt efnið þó ekki saman að miðjunni heldur myndar skífu umhverfis frumstjörnuna. Í þessari skífu myndast svo reikistjörnur þegar efnisagnir hennar hnoðast saman í sífelldum árekstrum.

Tilvísun:
  1. ^ Fjórða tegundin er svonefndur svartur dvergur. Hún hefur hins vegar aldrei fundist og er aðeins til sem fræðileg hugmynd. Líklega er alheimurinn ekki nógu gamall til að svartur dvergur, sem er í raun útkulnaður hvítur dvergur, hafi náð að myndast.

Myndir:

Texti þessa svars birtist fyrst í Almanaki Háskóla Íslands 2025 en var endurskoðaður fyrir Vísindavefinn. ...