Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er einhver viss tími á Íslandi sem sólin hefur engin áhrif á húðina og óþarfi að vera með sólarvörn?
Sá hluti sólarljóssins sem skaðar húðina kallast útfjólublá geislun. Þessi geislun er einnig til staðar þegar farið er í ljósabekki og getur valdið margvíslegum áhrifum, meðal annars aukinni áhættu á húðkrabbameini. Í þessu svari er einungis litið til þess konar skaðlegra áhrifa en ekki til dæmis ljósöldrunar.[1]
Svonefndur UV-stuðull er alþjóðlegur mælikvarði á styrk útfjólublárrar geislunar frá sólinni á tilteknum stað á tilteknum tíma. Fjallað er nánar um hann í svari við spurningunni Hvar er daglegur ÚF-stuðull eða UV-stuðull birtur? UV-stuðullinn nær frá einum upp í 11+.
Öll útfjólublá geislun eykur áhættu á húðkrabbameini. Samkvæmt ráðleggingum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO)[2] er þessi áhætta þó í lágmarki, og því almennt ekki þörf á að verja sig gegn sólargeislun, þegar UV-stuðullinn er 1 eða 2. Þegar UV-stuðullinn er 3 eða hærri þarf hins vegar að verja sig gegn geisluninni.
Geislavarnir ríkisins mæla UV-stuðulinn í Reykjavík og birta á vefsíðu sinni.[3] Þá er einnig hægt að nota til dæmis alþjóðlega UV-smáforritið SunSmart[4] til að fylgjast með því hvenær þörf er á að nota sólarvarnir. Í SunSmart-smáforritinu er hægt að sjá spágildi UV-stuðuls hvar sem er í heiminum.
Línuritið hér fyrir neðan kemur frá Geislavörnum ríkisins og sýnir dagleg mæld hámarksgildi UV-stuðulsins í Reykjavík á árs tímabili.
Mæld hámarskgildi UV-stuðuls í Reykjavík yfir eins árs tímabil (1. apríl 2024 – 31. mars 2025).
Á línuritinu sést að frá um miðjum september til loka marsmánaðar er UV-stuðullinn í Reykjavík alltaf 2 eða lægri samkvæmt mælingum Geislavarna. Þetta getur þó verið breytilegt á milli ára og því þarf að fylgjast með UV-stuðlinum hverju sinni.
Hafa ber í huga að mælingar Geislavarna eru gerðar á láglendi en UV-stuðullinn hækkar með aukinni hæð yfir sjávarmáli. Endurkast útfjólublárrar geislunar, til dæmis af snæviþakinni jörð og vatni, er einnig skaðlegt og getur valdið hækkun á UV-stuðlinum umfram mæld gildi.
Mælingar á útfjólublárri geislun í Reykjavík benda því til þess að frá miðjum september til loka marsmánaðar þurfi ekki að nota sólarvarnir á Íslandi til að verjast útfjólublárri geislun frá sólinni, undir venjulegum kringumstæðum. Fólk í áhættuhópum fyrir húðkrabbameini og börn eru þó viðkvæmari fyrir þessari geislun en aðrir.[5] Fólk á öllum aldri ætti alltaf að forðast húðbruna til að takmarka áhættuna á skaðlegum áhrifum útfjólublárrar geislunar.
Tilvísanir:
Eyjólfur Guðmundsson og Edda Lína Gunnarsdóttir. „Er einhver árstími á Íslandi þar sem sólin hefur engin áhrif á húðina og óþarfi að nota sólarvörn?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2025, sótt 24. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87435.
Eyjólfur Guðmundsson og Edda Lína Gunnarsdóttir. (2025, 23. apríl). Er einhver árstími á Íslandi þar sem sólin hefur engin áhrif á húðina og óþarfi að nota sólarvörn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87435
Eyjólfur Guðmundsson og Edda Lína Gunnarsdóttir. „Er einhver árstími á Íslandi þar sem sólin hefur engin áhrif á húðina og óþarfi að nota sólarvörn?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2025. Vefsíða. 24. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87435>.