Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jón Karl Helgason er prófessor í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars rannsakað viðtökusögu íslenskra fornbókmennta, menningarlega þjóðardýrlinga í Evrópu, sjálfsögur, og ýmsar forvitnilegar hliðar á íslenskri menningarsögu tuttugustu aldar. Á síðustu árum hefur hann lagt áherslu á þverfaglegar rannsóknir, meðal annars á sviði bókmennta og laga og stílmælinga.
Jón Karl stundaði nám í bókmenntafræði og íslensku við Háskóla Íslands og lauk síðar doktorsprófi í samanburðarbókmenntum frá The University of Massachusetts í Amherst í Bandaríkjunum. Doktorsritgerð hans, sem kom út á bók undir titlinum The Rewriting of Njáls Saga (1999), er rannsókn á sex ólíkum þýðingum og endurritunum á Njálu. Í tengslum við sömu rannsókn sendi hann frá sér ritin Hetjan og höfundurinn (1998), sem fjallar um viðtökur Íslendingasagna hérlendis á 19. og 20. öld, og Höfundar Njálu (2001), þar sem sjónum er einkum beint að framhaldslífi sögunnar erlendis.
Að auki hefur Jón Karl ritstýrt með öðrum greinasöfnunum Egil: The Viking Poet (2015) og From Iceland to the Americas (2020). Fjórða frumsamda bók hans á þessu rannsóknarsviði er Echoes of Valhalla (2017) sem fjallar um framhaldslíf norrænna goðsagna og fornsagna í myndasögum, leikritum, ferðabókum, tónlist og kvikmyndum.
Jón Karl Helgason hefur meðal annars rannsakað viðtökusögu íslenskra fornbókmennta, menningarlega þjóðardýrlinga í Evrópu, sjálfsögur, og ýmsar forvitnilegar hliðar á íslenskri menningarsögu tuttugustu aldar.
Á tíunda áratug liðinnar aldar starfaði Jón Karl sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, Rás 1, og gerði þar meðal annars heimildaþátt um flutning á meintum líkamsleifum skáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Danmörku til Íslands 1946. Þátturinn varð kveikja skáldfræðiritsins Ferðaloka (2003) og seinna samanburðarannsókna hans og fleiri fræðimanna á framhaldslífi Jónasar og slóvenska þjóðskáldsins France Prešeren. Í því sambandi var hugtakið menningarlegur þjóðardýrlingur (e. cultural saint) þróað, en það hefur verið tekið upp af fjölda annarra fræðimanna sem stunda rannsóknir á þjóðerni, menningarlegu minni og bókmenntasögu. Meðal ávaxta þessara rannsókna er greinasafn Jóns Karls Ódáinsakur (2013) og rit Marijans Dović og Jóns National Poets, Cultural Saints (2017).
Samhliða rannsóknum sínum á þjóðardýrlingum á fyrsta og öðrum áratugnum hóf Jón Karl að birta stakar greinar um íslenskar sjálfsögur en það er hugtak sem hefur unnið sé sess sem þýðing á metafiction og lýsir skáldverkum sem afhjúpa með áberandi hætti sína eigin fagurfræði. Í greinasafninu Sögusagnir (2020) gerir Jón Karl meðal annars grein fyrir fyrir fleiri erlendum hugtökum sem lýsa svipuðum fagurfræðilegum einkennum. Íslenskar þýðingar Jóns Karls á sumum þessara hugtaka hafa náð fótfestu í fræðilegri umræðu hérlendis, til að mynda frásagnarspegill sem þýðing á mise en abyme.
Umfjöllun Jóns Karls um umdeilda fornritaútgáfu Halldórs Laxness í doktorsritgerðinni og um beinaflutninga Jónasar Hallgrímssonar í Ferðalokum beindu áhuga hans í vaxandi mæli að þeim miklu átökum sem urðu á sviði menningarlífsins hérlendis um miðja síðustu öld. Meðal virkra þátttakenda í þeim átökum var Ragnar Jónsson, annar eigandi smjörlíkisgerðarinnar Smára. Hann var líka forleggjari bókaútgáfunnar Helgafells, formaður Tónlistarfélagsins og stórtækur málverkasafnari. Jón Karl varpar ljósi á þennan merka bakjarl menningarlífsins í ritinu Mynd af Ragnari í Smára (2009) en Ragnar kemur einnig mikið við sögu í kaflanum „Burðarvirki íslenskrar nútímamenningar“ sem birtist í Sögu Íslands XI (2016).
Jón Karl var bókmenntaritstjóri Rásar 1 á árunum 1994-1999, hann var annar af ritstjórum Skírnis á árunum 1995-1999 og einn af þremur ritstjórum Smásagna heimsins sem út komu í fimm bindum á árunum 2016 til 2020. Hann hefur einnig þýtt um tug skáldverka, þar á meðal eftir Paul Auster, Hanif Kureishi og Julian Barnes.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Jón Karl Helgason stundað?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2024, sótt 22. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=87330.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2024, 18. desember). Hvaða rannsóknir hefur Jón Karl Helgason stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87330
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Jón Karl Helgason stundað?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2024. Vefsíða. 22. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87330>.