Ég er að velta fyrir mér til hvers er verið að vísa í orðinu hlaðvarp. Er verið að vísa í hlað líkt og bæjarstæði eða er verið að vísa í hleðslu líkt og hlaðinn vegg og garð í kringum hús?Íslenska orðið hlaðvarp er myndað sem samsvörun við enska orðið podcast. Fyrri hlutinn hlað- er stytting úr orðinu tónhlaða sem var nýyrði sem kom fram í kringum 2005 fyrir svokallaða mp3 spilara sem voru algengir á þeim tíma. Fyrri hlutinn hlað- vísar bæði til þess að hlaða getur þýtt geymsla og að efni er hlaðið inn á spilarann. Seinni hlutinn -varp er stytting úr orðinu útvarp. Samsetningin er sambærileg við enska orðið podcast sem er búið til úr orðunum pod (úr iPod) og cast (úr broadcast ‘útsending’). Hlaðvarp vísar þannig til útvarpsefnis sem hægt er að hlaða niður og hlusta á hvenær sem er. Til fróðleiks fylgja með myndir af tíðni orðanna hlaðvarp, podcast, tónhlaða og ipod, síðustu 20 árin. Myndirnar eru unnar úr gögnum frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Yfirlitsmynd: Patrick Breitenbach. (2008). My Podcast Set I. Flickr. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 3.1.2025).
- Orðtíðnimyndir: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.