Telst eftirfarandi setning rétt samkvæmt íslenskri málfræði? Hvernig er hægt að orða þetta svo það falli að íslenskri málfræði? Setning: Fyrirtækið er með skrifstofur í 19 löndum, yfir 1000 starfsfólk í 19 löndum.Orðið fólk er í hópi svokallaðra safnheita, en með því er átt við orð sem vísa til fjölda eða hóps af einhverju þótt þau standi í eintölu. Þarna er því í raun árekstur milli málfræðilegrar eintölu og merkingarlegrar fleirtölu. Innan setningar stjórnar málfræðilega eintalan því að orðið tekur með sér sögn og lýsingarorð í eintölu – fólkið er margt en ekki *fólkið eru mörg. Yfirleitt er líka vísað til orðsins með fornafni í eintölu, a.m.k. innan málsgreinar: Fólkinu var misboðið og það lét því í sér heyra. Þegar vísað er milli málsgreina er þó stundum notuð fleirtala í óformlegu máli: Ég þekki þetta fólk vel. Þau eru mjög skemmtileg. Þarna er notuð merkingarleg vísun í stað málfræðilegrar – ekki vísað beinlínis í eintöluorðið fólk, heldur í þann hóp sem um er rætt. Á seinustu árum hefur borið á tilhneigingu til að draga úr notkun orðsins maður og samsetninga af því vegna þess að mörgum finnst orðið tengjast karlmönnum um of, enda er það oft notað sem andstæða við kona. Notkun samsetninga með seinni liðinn -fólk í stað -maður hefur því aukist töluvert – í sumum tilvikum er þar um að ræða orð sem eru gömul í málinu eins og starfsfólk og verkafólk, en einnig hafa verið mynduð ýmis ný orð sem enda á -fólk eins og stjórnmálafólk og blaðafólk. Þetta eru rétt mynduð orð og frá málfræðilegu sjónarmiði er ekkert athugavert við þetta þótt vitanlega taki alltaf einhvern tíma að venjast nýjum orðum. En ef um ótilgreindan fjölda er að ræða er eins hægt að tala um margt starfsfólk og marga starfsmenn.

Vegna þess að fólk er safnheiti getur það hvorki vísað til eins einstaklings né tilgreinds fjölda og því er ekki hægt að nota töluorð með orðinu.
- the last cult of England - Staff of Programmes Ltd, London, … - Flickr. (Sótt 21.11.2024). Myndin er eftir Francistoms og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic - Creative Commons.