Stutta svarið
Í fornritum miðalda er lítið minnst á fugla og fýls er þar aðeins getið tvisvar sinnum. Brot úr eggjaskurn frá 10. og 12. öld hafa fundist í Mývatnssveit og talið er líklegt að þau séu úr fýlsvarpi. Ekki er þó vitað hvort varp hafi verið samfellt hér á landi frá þeim tíma. Miðað við ritheimildir 17. aldar hefur fýlabyggð einskorðast við nyrstu eyjar landsins, Grímsey og Kolbeinsey. Fýla er getið sunnar á landinu, meðal annars í Vestmannaeyjum um miðja 18. öld og í Mýrdal snemma á 19. öld. Lengi var talið að fýll hafi ekki tekið að verpa í fjöllum í Mýrdal fyrr en um 1820 en það gerðist engu að síður fyrr. Bestu heimildirnar um það eru dagbækur Sveins Pálssonar.Lengra svar
Í viðtali við Guðmund Daníelsson í janúar 1958 lýsti Ólafur Jakobsson bóndi í Fagradal í Mýrdal nýtingu á fýlsungum sem voru teknir síðla sumars í björgum þar nærri: „Kjötið var notað til matar, fitan höfð í bræðing saman við tólg, en fiðrið í sængur.“ Verkunin fór fram með þessum hætti: „Byrjað var á því að hnýta spotta um hálsinn á fýlnum til þess að lýsið rynni ekki fram úr honum, síðan var hann reyttur, þar næst var farið innan í hann, svo var hann kvistaður, það er að segja höggnir af honum vængir og fætur og hausinn, og loks saltaður ofan í tunnur.“ Ekki var óalgengt á heimilum að fýlakjötið entist allt árið: „Þeim sem vöndust því þótti það herramannsmatur.“ Þegar þetta var talað var hálf önnur öld frá því fuglategundin sem á latínu gegnir nafninu Fulmarus glacialis eða fýll á íslensku nú til dags hóf að verpa í Mýrdal eða öllu heldur frá því að ritheimildir greina frá því fyrst. Þá hafði hann orpið í Vestmannaeyjum í nokkra áratugi og enn lengur fyrir norðan land, einkum í Grímsey. Verður nú greint frá því sem vitað er um þá þróun.
Í Mýrdal voru fýlsungar teknir í björgum síðla sumar og kjötið notað til matar. Fuglinn var þá verkaður og síðan saltaður ofan í tunnur. Ekki var óalgengt á heimilum að fýlakjötið entist allt árið.
Þrammar, svá sem svimmi,Með öðrum orðum þrammar örlátur maður til hvílu svo sem syndi sílafullur fúlmár[2] á sjó, með öðrum orðum heldur þunglamalega og þar af leiðandi lítt kynþokkafullur. Heitið fúlmár útskýrir Ásgeir Blöndal Magnússon svo: „Leitt af fúll og már eða máfur, eiginlega 'máfurinn daunilli'.“ Á sama hátt vísar heitið fýlingi, sem kemur fyrir í fuglatali frá um 1300, til lyktarinnar:[3]
sílafullr, til hvílu,
fúrskerðandi fjarðar,
fúlmár á tröð böru.
Langvé, lundi, lóa, fjolmóði
fýling, lóþræll, friggjarelda,
rindilþvari, líri, rjúpa, fjallrota,
jarpi, ertla ok jaðrakárn.

Latneskt heiti fýlsins er Fulmarus glacialis en hann var í fyrstu nefndur Procellaria glacialis. Á íslensku hafa nokkur heiti verið notuð um fuglinn: fýll, fúlmár, fýlingur, fýlungi, malarmúkki og múkki.
Flest sér þar um foldu kynna,Framar í kvæðinu kemur fram að þegar þeir bræður nálguðust eyna sást þar „efstur balinn, alhvítur af bjargfýling, augun fengu hann ekki talinn, eins að sjá og fífubing.“ Þetta mun hafa verið fyrir miðjan júní þegar varp stóð yfir og ungar ekki komnir úr eggjum. Nokkru sunnar en Kolbeinsey liggur Grímsey og þaðan er nákvæm heimild um varp fýls í skýrslu til jarðabókarnefndar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 7. apríl 1713, þar sem segir um bjargræðisvegi íbúa: „Fuglveiðum er svo varið, að þeir á áliðnu sumri síga aftur í bjargið eftir fýlingsunganum, þegar hann er kominn undir flug, hverjum feng þeir skipta eins og eggveiðinni.“ Hvergi annars staðar á landinu er fýlavarps getið berum orðum í jarðabókinni, en víða talað um bjargnytjar og til dæmis í Vestmannaeyjum vorið 1704 getið súlnaveiði í Brandi og Geldingaskeri. Syðstu byggðir fýls sem vitað er um á þeim árum voru á eynni St. Kilda norður af Skotlandi og þar var hann kallaður fulmar, sem bendir til fornra áhrifa úr norðri. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um Fljótin að Siglufirði í september 1755. Jarðskjálfti varð á Norðurlandi 11. september og þeir fréttu að fuglabjörg hefðu hrunið í Grímsey. Þeir fóru ekki á staðinn en spurðu kunnuga og í ferðabók þeirra árið 1772 er nytjum á fýl lýst ítarlega, hér í þýðingu Steindórs Steindórssonar með dönsk heiti úr frumútgáfunni:
fimmslags grjót um bjargið breitt,
langvíuna veiða og vinna,
vænan geirfugl höndla greitt,
eggjamagran fýling finna,
fást því ekki við hann neitt.
Þar eru allar fjórar tegundir bjargfugls, rytsa [rytsen], sem verpir út af fyrir sig, og einkum þó fýlingur [filingen], eða hin stóra Procellaria-tegund sem Norðmenn kalla Havhest. Hann er svo feitur að hann spýr lýsi ef hann reiðist eða hreyfir sig snögglega. Þegar Grímseyingar drepa fýling binda þeir fyrir hann með snæri bæði að framan og aftan, svo að lýsið renni ekki út honum. Hann er síðan reyktur og geymdur til vetrarforða og etinn með harðfiski í smjers stað eða ef það skortir. Fiðrið af kviðnum, sem mjög er lýsisborið, er haft í eldinn ásamt öðru eldsneyti, en mjög vond lykt hlýtur að vera af þess háttar eldivið.Á öðrum stað í ferðabókinni er vitnisburður um útbreiðsluna annars, því tekið er fram að fýl og ritu telji sumir til bjargfugla „af því að þau verpa ætíð í háum sjávarhömrum, eru í Vestmannaeyjum og eyjunum undan Reykjanesi.“ Ólafur Ólavíus fór um Norðurland sumarið 1777 og lýsir nytjum á fýl í Grímsey – en kom þangað ekki sjálfur. Hann nefnir sérstaklega að menn hafi áður sigið í „bjarg það hið mikla sem er á austurströnd eyjarinnar eftir svartfugla- og fýlingseggjum og ungum“ og bætir við um aðferðir: „Grímseyingar telja það þjófnað, ef annaðhvort sigmaður eða einhver annar rænir fýlingseggi, því að meiri hagnaður er að veiða ungana, sem leyft er að vaxa þangað til komið er fram í ágúst, en þá eru þeir mjög feitir. Hausinn af fuglinum er ekki etinn vegna þess, að ef eitthvað af lýsi því er hann spýtir kemur á bert hörundið hleypur upp bóla, og telja menn það sönnun þess að hausinn sé eitraður.“ Þremur árum síðar var færeyski náttúrufræðingurinn Nicolas Mohr á ferðinni og þegar skipið varð að liggja þrjá daga undir Langanesi „i stille Veir“ var þar krökkt af fýl. Hann nýtti tækifærið og gómaði einn þeirra með því að setja þorsklifur á öngul og stoppaði hann út þá þegar. Hann getur þess að í Noregi og Færeyjum kallist fuglinn Havhest en Malmukke af sjómönnum. Á Íslandi haldi hann einungis til í Grímsey og sjáist ekki sunnar en 67° norður. Í umfjöllun um fugla í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1785 nefnir Skúli Magnússon landfógeti ekki fýl og 13. október 1793 kom Sveinn Pálsson náttúrufræðingur að Vík í Mýrdal: „Bæði hér og í Hjörleifshöfða stunduðu fyrri tíma menn álitlega fuglatekju, því að sjórinn hefur girt þessar bjargtungur á báða vegi. Nú, síðan allar víkur og firðir á þessum slóðum fylltust af jökulaur og eldfjallaösku, hefur hins vegar þessi bjargræðisvegur horfið með öllu.“ Þar vísar hann í eldgos úr Kötlu árið 1755. Þýðendur taka fram í skýringargrein að fýll hafi ekki tekið að verpa í fjöllum við Mýrdal fyrr en um 1820 og er það víðast haft fyrir satt. Það gerðist engu að síður nokkru fyrr og verður að endingu vikið að því.

Allstórt eða stórt tætigos varð í Kötlu árið 1755. Um 50 býli fóru í eyði um tíma og jökulhlaupið var það stærsta síðan sögur hófust. Eftir gosið lagðist fuglatekja af í Mýrdal og Hjörleifshöfða. Fýll hóf ekki að verpa þar fyrr en nokkrum áratugum síðar en þó allnokkru fyrir árið 1820. Myndin er af gosi í Kötlu árið 1918.

Skrá Sveins Pálssonar yfir karla sem fóru á fýlaveiðar 19. ágúst 1831. Á síðunni stendur: Einar í Fjósum, Andrés í ditto, Guðmundur Neðradal, Þorleifur í Nesi, Þórður í Nesi, Jón á Kaldrananesi, Þorsteinn í Steig, Jón Þorsteinsson Hólunum, Jón Ólafsson Dyrhólum, Sigurður Giljum, Klemens í Hvammi, Loftur í Hvammi, Oddur í Holtinu, Jón í Hellnum, Loftur á Heiði, Runki Norðurvík, Brynki junior Götum, Jón frá Suðurfossi, Jón yngri frá Engigarði. Summa 19. Þar af tíu í Hvannstóðið. Allt flutt hingað, skipt okkur í landhlut hvör sjötti = fecit sjö, og mér bandahlut í Hvannstóðið hálfur 20, heill 40.
- ^ Latneskt heiti fýlsins var í fyrstu Procellaria glacialis en er nú Fulmarus glacialis.
- ^ Fúlmár er fornt heiti yfir fýlinn og latneska heitið er dregið af því, þ.e. Fulmarus.
- ^ Sjá https://skaldic.org/m.php?p=verse&i=1233.
- ^ Sjá ritmalssafn.arnastofnun.is/daemi/142998.
- ^ Sjá mynd af handritinu hér (efstu línur bl. 30r): JS 84 8vo - Handrit.is.
- ^ Í riti Thienemanns segir: „Auf ihnen hatte sich ganz neuerlich eine grosse Kolonie der Eissturmvögel angesiedelt, welche sonst nur auf Grims-ey, den Vestmanna-Inseln und einigen freistehenden Klippen brütend angetroffen werden.“
- ÍB 5 fol. Veðurdagbók Sveins Pálssonar 1798–1811.
- ÍB 3 a 8vo. Dagbók Sveins Pálssonar 1806–1812.
- ÍB 3 b 8vo. Dagbók Sveins Pálssonar 1814–1820.
- ÍB 3 c 8vo. Dagbók Sveins Pálssonar 1821–1825.
- ÍB 4 b 8vo. Dagbók Sveins Pálssonar 1826–1830.
- ÍB 4 c 8vo. Dagbók Sveins Pálssonar 1831–1840.
- Arnþór Garðarsson, Kristján Lilliendahl og Guðmundur A. Guðmundsson, „Fýlabyggðir fyrr og nú“, Bliki 31 (2011), bls. 1–10.
- – „Fýlabyggðir á Íslandi 2013–2015“, Bliki 33 (2019), bls. 1–14.
- Árni Hjartarson, „Ferð Hvanndalabræðra til Kolbeinseyjar“, Náttúrufræðingurinn 73 (2005), bls. 31–37.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989, bls. 216.
- Bernström, John, „Stormfåglar“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 17. Kaupmannahöfn 1982, d. 239.
- Bjarni Sæmundsson, Fuglarnir. Aves Islandiæ. Reykjavík 1936, bls. 481–487.
- Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, Reise igiennem Island. Tvö bindi. Sórey 1772, bls. 624, 983.
- Faber, Friedrich, Prodromus der isländischen Ornithologie oder Geschichte der Vögel Islands. Kaupmannahöfn 1822.
- Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Steindór Steindórsson þýddi. Tvö bindi. Reykjavík 1974; II, bls. 6, 229.
- Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Tvö bindi. Steindór Steindórsson, Jón Eyþórsson og Pálmi Hannesson þýddu. Reykjavík 1983, bls. 318, 760.
- Fisher, James, The fulmar. Lundúnum 1952.
- Guðmundur Daníelsson, Í húsi náungans. Samtöl. Reykjavík 1959, bls. 129–130.
- Íslendingasögur I. Reykjavík 2018, bls. 257.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns I. Kaupmannahöfn 1913–1917, bls. 3, 7, 17.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns X. Kaupmannahöfn 1943, bls. 317.
- „Kolbeinseyjarvísur“, Jón Þorkelsson gaf út. Blanda I (1918–1920), bls. 149–162 [154, 158].
- Martinet, Jan Flor, Eðlisútmálun manneskjunnar. Þýðandi Sveinn Pálsson. Leirárgörðum 1798.
- McGovern, Thomas H., Sophia Perdikaris, Árni Einarsson og Jane Sidell, „Coastal connections, local fishing, and sustainable egg harvesting: patterns of Viking Age inland wild resource use in Mývatn district, Northern Iceland“, Environmental Archaeology 11:2 (2006), bls. 187–205 [193].
- Mohr, Nicolai, Forsög til en Islandsk Naturhistorie. Kaupmannahöfn 1786, bls. 29–31.
- Ólafur Ólavíus, Ferðabók. Steindór Steindórsson þýddi. Tvö bindi. Reykjavík 1965; II, bls. 33–34.
- Skúli Magnússon, Beskrivelse af Gullbringu og Kjósar sýslur (1785). Jón Helgason bjó til prentunar. Bibliotheca Arnamagnæana IV. Kaupmannahöfn 1984, bls. 71.
- Thienemann, Friedrich August Ludwig, Reise im Norden Europa's, vorzüglich in Island, in den Jahren 1820 bis 1821 angestellt. Þrjú bindi. Leipzig 1824–1827; II, bls. 327–328.
- Orðabók Háskóla Íslands, málið.is. (Sótt 15.10.2024).
- Bókavefur Landsbókasafns-Háskólabókasafns, bækur.is. (Sótt 15.10.2024).
- Handritavefur Landsbókasafns-Háskólabókasafns, handrit.is. (Sótt 15.10.2024).
- „Fýll (Fulmarus glacialis)“, Náttúrufræðistofnun Íslands, www.ni.is/is/biota/animalia/chordata/aves/ciconiiformes/fyll-fulmarus-glacialis. (Sótt 15.10.2024).
- The Skaldic Project, skaldic.org. (Sótt 15.10.2024).
- Fýlaveisla. (Sótt 15.10.2024).
- Northern Fulmar - Facts, Diet, Habitat & Pictures on Animalia.bio. (Sótt 15.10.2024). ÍB 4 c 8vo | Handrit.is. (Sótt 15.10.2024).
- Íslensk eldfjallavefsjá. (Sótt 15.10.2024).