Orðið lífstykki er undarlegt orð, og ekki mjög lýsandi fyrir hvað þetta er. Hvaðan kemur eiginlega þetta orð, og hvað á það að þýða?Orðið lífsstykki var til í málinu að minnsta kosti þegar á fyrri hluta 17. aldar. Í bók um Tyrkjaránið 1627 segir:
eg þá ekki hafði eptir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt.Dæmið er úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Lífstykki er tökuorð úr gamalli dönsku. Í sögulegu dönsku orðabókinni, Ordbog over det danske Sprog, er skýringin:
(del af) klædningsstykke, der dækker (og slutter tæt om) overkroppen (ell. taillen)þ.e. ‘hluti af klæðisplaggi sem hylur (og liggur þétt um) efri hluta líkamans (eða mittið)’. Líf í merkingunni ‘mitti’ er tökuorð úr dönsku liv sem aftur tók það úr þýsku Leib. Heimildir:
- Ordbog over det danske Sprog; sjá ordnet.dk
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 15.10.2024).