Ég er að gera skólaverkefni um eldgos á Reykjanesi en mér finnst ofboðslega erfitt að finna heimildir um hve mörg gos hafa verið frá 2021. Er einhver séns að þið gætuð veitt mér upplýsingar um efnið? Best finnst mér að fá heimildir frá Vísindavefnum því ég veit hversu traustar þær eru og fannst mér um að gera að gá hvort eitthvað sé hægt að gera til að hjálpa mér.Eldgos sem hófst í eldstöðvakerfi Fagradalsfjalls 19. mars 2021 markaði nýtt gosskeið á Reykjanesskaganum eftir tæplega 800 ára hlé. Fyrsta gosið stóð yfir í hálft ár og þó að hraunflæðið hafi aldrei verið mikið er þetta gos bæði það lengsta og rúmmálsmesta, að minnsta kosti enn sem komið er. Síðan fylgdu tvö önnur gos í sama eldstöðvakerfi, nánar tiltekið í Meradölum og við Litla-Hrút. Að þeim loknum færði eldvirknin sig yfir í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi og Eldvörp. Þar hefur nú gosið sex sinnum, öll gosin í svonefndri Sundhnúksgígaröð. Gosin á Sundhúksgígaröðinni eru ólík gosinu í Fagradalsfjalli 2021 að því leyti að þau eru mjög öflug fyrstu klukkutímana en síðan dregur mikið úr hraunrennslinu. Nánari upplýsingar um öll gosin er að finna í töflunni hér fyrir neðan.[1]
eldgos | dags. | lengd (dagar) | flatarmál (km2) |
rúmmál (millj. m3) |
---|---|---|---|---|
Fagradalsfjall | 19.3.-18.9. 2021 | 183 | 4,8 | 150 |
Meradalir | 3.8.-21.8. 2022 | 18 | 1,3 | 11 |
Litli-Hrútur | 10.7.-5.8. 2023 | 26 | 1,5 | 15 |
Sundhnúksgígaröð | 18.12.-21.12. 2023 | 2,5 | 3,4 | 12 |
Sundhnúksgígaröð | 14.1.-16.1. 2024 | 2 | 0,7 | 2 |
Sundhnúksgígaröð | 8.2.-9.2. 2024 | 1 | 4,0 | 13 |
Sundhnúksgígaröð | 16.3.-8.5. 2024 | 53 | 6,2 | 35 |
Sundhnúksgígaröð | 29.5.-22.6. 2024 | 24 | 9,3 | 45 |
Sundhnúksgígaröð | 22.8.-5.9. 2024 | 14 | 15,8 | 61 |
- ^ Allar tölur eru fengnar úr grein sem bíður birtingar í tímaritinu Náttúrufræðingurinn og send var inn í október 2024.
- Gro B. M. Pedersen, Joaquin M. C. Belart, Birgir Vilhelm Óskarsson, Magnús Tumi Gudmundsson, Nils Gies, Thórdís Högnadóttir, Ásta Rut Hjartardóttir, Virginie Pinel, Etienne Berthier, Tobias Dürig, Hannah Iona Reynolds, Christopher W. Hamilton, Guðmundur Valsson, Páll Einarsson, Daniel Ben-Yehosua, Andri Gunnarsson og Björn Oddsson. 2022. Volume, Effusion Rate, and Lava Transport During the 2021 Fagradalsfjall Eruption: Results From Near Real-Time Photogrammetric Monitoring. Geophysical Research Letters, 49, e2021GL097125. https://doi.org/10.1029/2021GL097125. (Sótt 8.10.2024).
- Íslensk eldfjallavefsjá. (Sótt 7.10.2024).
- Mánuður liðinn frá upphafi fjórða eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni - Veðurstofa Íslands. (Sótt 4.10.2024).
- Meradalir: Rúmmál hraunsins svipað og 200 Reykjavíkurtjarnir - RÚV.is. (Sótt 6.10.2024).
- Litli-Hrútur: Eldgos við Litla-Hrút, lokatölur um stærð gossins í júlí - ágúst 2023 - Jarðvísindastofnun HÍ. (Sótt 6.10.2024).
- Sundhnúksgígaröð: Eldgos við Sundhnúk - útbreiðsla og rúmmál hrauns - samantekt til og með 8. maí 2024 - Jarðvísindastofnun HÍ. (Sótt 6.10.2024).
- Sunhnúksgígaröð: Jarðhræringar Grindavík : jún - júl 2024 - Veðurstofa Íslands. (Sótt 6.10.2024).
- Sundhnúksgígaröð: Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi - Veðurstofa Íslands. (Sótt 6.10.2024).
- Yfirlitsmynd: Upphaf eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni í mars 2024. © Simon Matthews.
- Mynd í svarstexta: Drónamynd af hraunflæði á Sundhnúksgígaröðinni. © Alberto Caracciolo.