Ég datt um orðið pilsfaldakapítalismi um daginn og velti því fyrir mér hver er uppruni þess?Með pilsfaldi er átt við neðri jaðar á pilsi. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elst dæmi frá síðari hluta 19. aldar um að leita skjóls undir pilsfaldi en þá gengu konur í síðum pilsum daglega:
Þar til hann flúði til mömmu sinnar og smaug upp undir pilsfaldinn hennar. Það var meiri háttar kona.Orðið pilsfaldakapítalismi er fremur nýtt í málinu. Elsta dæmi á Tímarit.is virðist vera úr Þjóðviljanum 19. desember 1972:
Nú er það svo, að i auðvaldsþjóðfélagi og ekki síður í svona þjóðfélagi eins og okkar, sem kenna má við pilsfaldakapítalisma, er ákaflega erfitt að tryggja fulla atvinnu án verðbólgu.Annað dæmi er úr Dagblaðinu 22. apríl 1977:
Þetta fyrirkomulag hefur ágætlega verið kallað pilsfaldakapítalismi; það er svo sem tímanna tákn.Orðið er þá þegar greinilega í umferð en er væntanlega ekki miklu eldra. Á Wikipediu er greinargóð skýring:
Pilsfaldakapítalismi er sá kapítalismi nefndur í hálfkæringi sem starfar alfarið undir merkjum markaðarins þegar vel árar, og er að mestu á móti öllum ríkisútgjöldum, en vill svo skyndilega að ríkið komi hlaupandi og hjálpi þegar illa árar. Slíkur kapítalismi er ekki samkvæmur sjálfum sér, samkvæmt þeim sem taka sér hugtakið í munn. Pilsfaldakapítalisminn er kenndur við pilsfaldinn vegna þess að börn leita oft í skjól móður sinnar þegar eitthvað kemur upp á, og þannig er eins og þeir kapítalistar sæki í skjól ríkisins þegar það hentar þeim.Orðið virðist nú talsvert notað miðað við færslur á Tímarit.is. Heimildir:
- Þjóðviljinn - 289. tölublað (19.12.1972) - Tímarit.is. (Sótt 18.01.2025).
- Dagblaðið - 90. tölublað (22.04.1977) - Tímarit.is. (Sótt 18.01.2025).
- Pilsfaldakapítalismi. Wikipedia. (Sótt 24.10.2024).