Hver var hann þessi Hafliði sem þótti svo dýr (allur) og hvað kostaði hann eiginlega? Hver er merkingin í orðasambandinu 'dýr mundi Hafliði allur' og hvaðan kemur það?Af Hafliða segir í Þorgils sögu og Hafliða sem er einn kaflinn í Sturlungu. Hafliði var Másson og bjó á Breiðabólsstað í Vesturhópi. Hann var höfðingi mikill. Hann lenti upp á kant við Þorgils Oddason og meiddist Hafliði á hendi. Úr urðu málaferli á þingi. Í sögunni segir:
Hinn þriðja dag fyrir þinglausnir gengu menn til með fjölmenni hvorirtveggju er sættin skyldi vera upp sögð. Hafliði gerði fyrir áverka átta tigu hundraða þriggja álna aura vöruvirt fé, lönd í Norðlendingafjórðungi, gull ok silfur, austrænan varning, járnsmíði; ríflegir gripir þeir er eigi tækju minna en kúgildi, geldir hestar, því at einu graður hestur ef mer fylgdi, ekki hross eldra en tólf vetra og eigi yngra en þrevett. Gjalddagi á fénu fyrir búðardurum Hafliða eða færa honum heim en hann sjálfur virða allt féið. Þá er Hafliði sagði upp vöxt fjárins þá svaraði Skafti Þórarinsson: „Dýr mundi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur.“ (1988:45)Orð Skafta lifa enn sem orðatiltæki sem notað er ef eitthvað þykir keyra fram úr hófi, til dæmis fjárkröfur eða kostnaður af einhverju sem reynist mun meiri en reiknað var með. Heimild og mynd:
- Sturlunga saga. I. 1988. Svart á hvítu, Reykjavík (Þorgils saga og Hafliða er á bls. 7–46).
- File:Viking attire and jewellery - VIKING exhibition at the National Museum of Denmark - Photo The National Museum of Denmark (9066249362).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 20.01.2025). Myndina tók Nationalmuseet og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-ShareAlike 2.0 Generic - Creative Commons.