Við höfum 'voldugur' af orðinu vald og 'saurugur' af orðinu saur - en hvað er þetta slótt í orðinu slóttugur?Lýsingarorðið slóttugur þekkist þegar í fornu máli í merkingunni ‘slægur, kænn’ en dæmin virðast ekki mörg. Fornmálsorðabækur nefna orðið, bæði Johan Fritzner og Eiríkur Jónsson. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr þýðingu Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1632 á þýskri postillu eftir Andreas Pangratius:
huørsu sa slottugur og slægur Ande / kannn ad frammsetia Ritningena.Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til að lýsingarorðið sé dregið af nafnorðinu *slóttr þótt dæmi finnist ekki um það (* merkir að myndin er endurgerð). Það ætti þá að merkja ‘slægð’ eða ‘kænska’. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðsifjabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir Málið.is.
- Eiríkur Jónsson. 1863. Oldnordisk Ordbog. Det kongelige nordiske Oldskrift-Selskab, Kjöbenhavn.
- Fritzner, Johan. 1896. Ordbog over det gamle norske Sprog. Tredie Bind, R–Ö. Bls. 435. Den norske Forlagsforening, Kristiania.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 18.8.2024).
- Ódysseifur og sírenurnar: Herbert James Draper - Ulysses and the Sirens (1910) - PICRYL - Public Domain Media Search Engine Public Domain Image. (Sótt 7.10.2024). Ódysseifur var iðulega talinn vera kænn og jafnvel slóttugur.