Í ljósi svars við spurningu sem birt var á Vísindavefnum fyrir einhverju síðan (Eru verðbætur vextir og þar með fjármagnstekjur?) velti ég fyrir mér þeirri staðreynd, sem birtist á reikningum allra húsnæðiseigenda á Íslandi en það er liðurinn “verðbætur á vexti”! Upprunaleg húsnæðisskuld er „verðtryggð“ - þökk sé fv. formanni Framsóknarflokksins Ólafi heitnum Jóhannessyni (það fíaskó er efni í heila doktorsritgerð með hliðsjón af verðtryggingu launa á sama tíma sem stuttu síðar var afnumin og gat af sér Sigtúnshópinn svokallaða, sem hvarf m.a. inn í stjórnkerfið), en hvernig stendur á þessari “verðtryggingu (-bætur) vaxta”? Höfuðstóllinn er verðtryggður - vextir eru reiknaðir á milli mánaða ofan á verðtryggðan höfuðstól. Hvar liggur heimild til “verðtryggingar vaxta”?Það liggur í hlutarins eðli að ef lán eða innstæða er verðtryggð þá hlýtur verðtryggingin að þurfa að ná bæði til afborgana og vaxtagreiðslna ef hún á að ná tilgangi sínum, það er að tryggja að kaupmáttur greiðslna fylgi verðlagsþróun og hvorki lántaki né lánveitandi hagnist á verðbólgunni. Í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 er þannig talað um að greiðslur séu verðtryggðar, það er bæði greiðslur af höfuðstól og vöxtum. Verðtrygging vaxtagreiðslna gerist raunar sjálfkrafa af því að vextir eru reiknaðir í hlutfalli við höfuðstól láns eða innstæðu og þegar höfuðstóllinn er verðtryggður hækka vaxtagreiðslurnar í samræmi við verðlag um leið og höfuðstóllinn. Þess má geta að til er skemmtilegt sögulegt dæmi um annað fyrirkomulag. Á áttunda áratug síðustu aldar gaf ríkissjóður út skuldabréf sem voru verðtryggð en vaxtalaus en í stað vaxta kom happdrætti. Þannig að spariskírteinin voru í raun eins konar happdrættismiðar. Það var löng hefð fyrir slíkri útgáfu, sú fyrsta árið 1948, en framan af voru skuldabréfin ekki verðtryggð. Vinningarnir á áttunda áratugnum voru veglegir þegar skuldabréfin voru gefin út en upphæð þeirra var óverðtryggð þannig að í óðaverðbólgu þess tíma urðu vinningarnir smám saman ansi lítilfjörlegir. Þegar slík skuldabréf voru gefin út árið 1972 var upphæð vinninga í upphafi 7% af höfuðstól og samsvaraði þannig 7% vöxtum. Vinningarnir voru hins vegar föst krónutala, óháð verðlagsþróun, og urðu því smám saman sífellt lægra hlutfall af verðtryggðum höfuðstól vegna hárrar verðbólgu og lægstu vinningarnir svo litlir að það tók því varla að sækja þá. Svona skuldabréf voru meðal annars nýtt til að fjármagna síðasta áfangann í hringveginum, sem lokið var við árið 1974. Mynd:
- Yfirlitsmynd: Excavator | We came across an excavator working at the side … | Flickr. (Sótt 10.10.2024). Myndina tók Richard Gould og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-NonCommercial-ShareAlike 2.0 Generic - Creative Commons.
- Mynd í svari: Vísir - 62. Tölublað (14.03.1972) - Tímarit.is. (Sótt 11.10.2024).