Hvað er bilbugur og hvaðan kemur orðið, það er þegar sagt er að láta ekki bilbug á sér finna?Orðið bilbugur kemur þegar fyrir í fornu máli, oftast í sambandinu að láta engan/ekki bilbug á sér finna/sjá. Í Grettis sögu, 48. kafla, bls. 154, segir t.d.:
Þá mælti Þorbjörn: „Þetta er mikill maður, og eigi kann eg mann á velli að sjá ef það er eigi Grettir Ásmundarson, og mun hann þykjast eiga ærnar sakir við oss; og verðum við rösklega og látum engan bilbug á okkur sjá.“ (Stafsetningu breytt).Orðið merkir ‘undanlátssemi, hugleysi, hik, ótti’ en einnig ‘sveigja á (herfylkingu), undanhald’. Í fornu máli gat bil merkt ‘veikleiki, illa varinn staður’ (Fritzner, I:137) og bugur merkir ‘beygja, hlykkur, vík inn í eitthvað’ (Íslensk orðsifjabók, 90). Jón G. Friðjónsson (2006: 63) telur að af dæmum úr fornu máli um bilbugur megi sjá að það merki sama og bugur og nefnir nokkur dæmi. Síðan segir hann:
Bugur vísar hér til ‘sveigju á herfylkingu (þar sem hún bognar/svignar fyrir)’ og er þá skammt í yfirfærða merkingu ‘ótti (í bardaga) (er á hallar, óvinir vinna svig á fylkingunni))’.Orðið bilbugur er þá samsett úr bil og bugur í fyrrgreindum merkingum og láta engan/ekki bilbug á sér finna/sjá merkir þá ‘að sýna engin merki um uppgjöf eða ótta’. Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðsifjabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir Málið.is.
- Fritzner, Johan. 1886. Ordbog over det gamle norske Sprog. Første Bind, A–Hj. Bls. 137. Den norske Forlagsforening, Kristiania.
- Grettis saga. 1936. Íslenzk fornrit. VII. bindi. Guðni Jónsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga, notkun. Mál og menning. Reykjavík.
- View of the Grand Army of the Republic'. Wikimedia Commons. Olíumálverk frá 1865 eftir James Alexander Walker (1831–1898).