Hve mikið segja tölur um „útflutningsverðmæti“ um þann ábata sem verður af starfsemi - einar og sér?Útflutningsverðmæti er ágætlega gagnsætt orð og lýsir vel því sem það fjallar um, það er verðmæti útfluttrar vöru eða þjónustu, mælt í krónum eða öðrum gjaldmiðli. Þótt það sé að öðru jöfnu ágætt að hafa miklar tekjur af útflutningi þá verður þó helst að skoða fleira til að leggja mat á þann þjóðhagslega ávinning sem útflutningurinn skilar. Eitt af því sem skiptir máli er hve mikið af verðmæti útflutningsins verður til innanlands. Sé mikið notað af innfluttum vörum eða þjónustu til að framleiða útflutningsafurð þá getur innlendur virðisauki verið lítill. Sem dæmi mætti nefna vél sem er sett saman úr innfluttum íhlutum og innlenda framlagið því fyrst og fremst samsetningin. Þrjár stærstu útflutningsgreinar Íslendinga nota allar talsvert af innfluttum vörum eða þjónustu. Sjávarútvegurinn flytur inn olíu, skip, veiðarfæri og fleira. Álverin flytja hráefnið allt inn og nýta erlent fjármagn en nýta innlenda orku og vinnuafl. Ferðaþjónustan notar alls konar innfluttan varning, matvæli, drykkjarföng, bílaleigubíla og hópferðabíla, flugvélar, olíu og margt fleira. Til að flækja málið enn frekar er nauðsynlegt að taka tillit til umhverfisáhrifa við mat á ábata sem ákveðin starfsemi skilar. Mjög mengandi starfsemi skilar ekki endilega miklum ávinningi þótt innlendur virðisauki kunni að mælast mikill. Mynd:
- ISAL - Aerial View. (Sótt 18.06.2024). Myndina tók Haukur Albertsson og hún er birt undir leyfinu CC BY-NC-SA 2.0 Deed.