Góðan dag. Í ljósi þess að við fáum upplýsingar um landris við Svartshengi 14-16 milljón rúmmetra, sem er ekki að segja mér um magnið. Mér finnst vanta myndræna samlíkingu, t.d., hvað er Keilir á Reykjanesi í rúmmáli eða Þorbjörn?Þegar rúmmálið kvikunnar sem hefur safnast saman undir Svartsengissvæðinu er sett í samhengi við til dæmis fjöll, þá er talan 14-16 milljónir m3 ekki sérlega mikil. Einfalt er að setja stærðina í samhengi við fjallið Keili á Reykjanesskaga. Keilir er nánast hringlaga og rís 200 m yfir umhverfið. Þvermál Keilis er um 800-900 m og radíus fjallsins um það bil 420 m. Hægt er að finna rúmmál fullkominnar keilu með eftirfarandi formúlu: $$V = \frac{1}{3} \pi r^2 h$$ Það er ⅓ margfaldað með tölunni pí (π), sinnum radíus í öðru veldi, margfaldað með hæð keilunnar. Þá sést að rúmmál Keilis er um 40 milljón m3 og því er kvikan sem hefur safnast saman undir Svartsengissvæðinu aðeins um ⅓ hluti af fjallinu Keili, sem er þó mjög lítið fjall. Úlfarsfell í landi Reykjavíkur og Mosfellsbæjar er til að mynda um það bil 20 sinnum rúmmálsmeira fjall en Keilir.
- Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug | Fréttir | Veðurstofa Íslands. (Sótt 23.05.2024).
- Keilir (fjall) - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 05.07.2015).