Utan við Þórarinshraun og Brenniklett eru þessi býli: Sjólyst, Birkihlíð, Hammersminni, gamalt býli nafnið danskt, Garðar, Hátún, Bjarg, Holt, Dagsbrún. En nær Bóndaklettinum eru: Björk, Barnaskólinn, Bjarki, Ásbyrgi. Utan við voginn eru: Höfði, Tríton, Sólvangur, Framtíðin (verzlun), Neisti (samkomuhús).[4]Sögu Sjólystar á Eyrum er hins vegar vel lýst í örnefnalýsingu frá 1977 sem Sigurður Magnússon tók saman[5] enda er þessi örnefnalýsing í heild sinni sérstaklega vönduð og ítarleg, um 150 blaðsíður og yfir 500 örnefni. Verbúðarhúsið Sjólyst var:
löngum íbúðarhús, ásamt að vera skólahús í 5 vetur, skóverkstæði og smíðahús ... það kom tilhöggvið frá Noregi á árunum um 1880 ... var byggt úr plönkum, sem voru 3ja þumlunga þykkir og 8 þumlungar á breidd, allir geirnegldir, og tréseymd víðast hvar húsgrindin. Sjólyst var einnar hæðar með portbyggðu risi, án kjallara. Á rishæð voru svefnstofur íbúanna, en á aðalhæð var matsalur, eldhús og búr. Auk þess, sem áður var getið um afnot Sjólystar, var hún varðstöð brezka hernámsliðsins á stríðsárunum, meðan brezki herinn var á Seyðisfirði. En þegar Bandaríkjamenn tóku við af Bretum, byggðu þeir sína eigin herstöð í landi Þórarinsstaða ... Sjólyst var sumarverbúð frá Þórarinsstöðum. Þar voru til húsa aðkomusjómenn. Þar var ráðskona, sem sá um matargerð, tiltektir og annað húshald. Hún bjó í litlu herbergi í austurenda rishæðar, en karlar á framlofti. Ekki komust allir þeir aðkomumenn fyrir í Sjólyst, sem störfuðu við útgerðina, og sváfu þeir þá heima á Þórarinsstöðum. Það var oft margt í mat í Sjólyst, bæði karlar og konur, sem unnu við útgerðina, þetta 15 til 20 manns. Suma vetur var einnig búið í Sjólyst. Endalok Sjólystar hér á Þórarinsstöðum urðu þau, að húsið var selt á árunum 1965–70 og flutt upp að Skipalæk í Fellum ...[6]Þess má geta að húsaþorpið allt í kring var kennt við húsið og kallað Sjólystarhúsin eða Sjólystarskúrarnir.[7] Hvað nöfn á verbúðum varðar, er góð lýsing á einkennum þeirra í bók Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir, 2. bindi. Hann skrifar:
Heiti á verbúðum voru margvísleg. Víða voru þær kenndar við bæina, sem bátarnir voru frá. Í Þorlákshöfn var Hjallabúð, í Herdísarvík Krísuvíkurbúð, í Bolungarvík Ármúlabúð, Garðsstaðabúð, Ögurbúð o.s.frv. – Þá voru búðir kenndar við formennina, t.d. Gíslabúð og Bjarnabúð í Herdísarvík og í Bolungarvík Jóns Ebbabúð, Hálfdánsbúð o.s.frv. Stundum báru þær sama heiti og bátarnir, sem reru frá þeim. Bátur hét Kös í Oddbjarnarskeri og búðin Kasarbúð, á Hjallasandi var Teinahringsbúð og í Bolungarvík voru: Hringsbúð, Skeiðarbúð, Breiðsbúð o.s.frv. Stöku sinnum fólst stærðareinkenni í búðarheitinu: Folald á Akranesi og Langhryggja í Kálfadal og Sandvík. Búðarheiti áttu einnig rætur að rekja í einhvers konar kerskni. Kunnugt er um heitið Meinþröng í þrem verstöðvum: Bolungarvík, Gjögri og á Stöpum, Vatnsnesi. Í Bolungarvík hétu verbúðir einnig: Dopla, Jerikó og Ölborg; á Gjögri var Vesöld og á Stöpum: Örbirgð og Ergelsi. Í Oddbjarnarskeri héldust lengi sömu heiti á einstöku búðum. Um 1880 eru þar búðirnar Hrafnastallur og Norðurseta, en það hétu þær einnig að minnsta kosti tveim öldum fyrr.[8]Nafnið Sjólyst passar best inn í svonefndan „kerskni"-flokk búðarheita, þar sem það miðlar ekki upplýsingum um bæ, formann né bát en snýst frekar um hugtök tengd útgerð á frekar ljóðrænan (og einnig ef til vill hagkvæman) hátt. Tilvísanir:
- ^ Einnig er a.m.k. eitt dæmi þekkt um Sjólyst sem nafn á báti, sjá hér: Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987.
- ^ Örnefnagrunnur Landmælinga Íslands.
- ^ Sarpur: Menningarsögulegt gagnasafn.
- ^ Örnefnaskrá fyrir Djúpavog og Búlandsnes.
- ^ Örnefnaskrá yfir Þórarinsstaði.
- ^ Örnefnaskrá yfir Þórarinsstaði, bls. 24-26.
- ^ Örnefnaskrá yfir Þórarinsstaði, bls. 24, sjá einnig Hjörleifur Guttormsson 2005, bls. 198–99.
- ^ Lúðvík Kristjánsson 1982, bls. 443.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók.
- Danmarks Stednavne.
- Hjörleifur Guttormsson 2005. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Ferðafélag Íslands árbók 2005. Reykjavík, Ferðafélag Íslands.
- Lúðvík Kristjánsson 1982. Íslenzkir sjávarhættir, 2. bindi. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
- Nafnið.is. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Norske stadnamn // Norske Stedsnavn.
- Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn.
- Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987.
- Örnefnagrunnur Landmælinga Íslands.
- Örnefnaskrá fyrir Djúpavog og Búlandsnes. Eiríkur Sigurðsson skráði (án ártals). Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Örnefnaskrá yfir Þórarinsstaði. Sigurður Magnússon skráði. (1977). Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Una's house that will be turned into a museum.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar Unaigardi. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi.