Deila rottur og mýs umráðasvæði? Lifa þær til dæmis saman í holræsum?Mýs og rottur lifa í nokkuð líku umhverfi í náttúrunni. Þessi dýr finnast því stundum á sama svæði en slíkt kemur þó sjaldan fyrir. Til þess að tryggja sér lífsviðurværi og skjól helga bæði mýs og rottur sér yfirráðasvæði sem þær verja eftir kostum. Ef plássið er nægt, þannig að yfirráðasvæði skarast ekki og gott framboð er af fæðu, vatni og skjóli, þurfa tegundirnar ekki að keppa um aðstæður eða aðföng til lífsviðurværis. Í þeim tilvikum er mögulegt að þær geti deilt heimkynnum að einhverju leyti. Ef umhverfisþættir og fæðuframboð eru hins vegar takmörkuð auðlind þannig að þrengja fer að, má búast við árekstrum. Oftast er það músunum í óhag. Rannsóknir á samspili músa og rotta á Nýja-Sjálandi hafa sýnt að á svæðum þar sem mýs og rottur deila heimkynnum fer minna fyrir músum, þeim fækkar og þær hafa sig minna í frammi. Stærsti áhrifaþátturinn í þessu er talinn vera minna framboð af fæðu fyrir mýsnar, en að einhverju leyti er líka um afrán að ræða þar sem rottur éta mýs ef svo ber undir. Þótt mýs og rottur kjósi oft svipaðar aðstæður til búsetu þá sitja rotturnar einar að holræsunum, mýs kunna ekki við slík heimynni. Heimildir og mynd:
- Bridgman, L., Innes, J., Gillies, C., Fitzgerald, N., Rohan, M., & King, C. (2018). Interactions between ship rats and house mice at Pureora Forest Park. New Zealand Journal of Zoology, 45(3), 238–256. https://doi.org/10.1080/03014223.2018.1464477
- Bridgman, L., Innes, J., Gillies, C. Fitzgerald, N., Miller, S. & King, C. (2013). Do ship rats display predatory behaviour towards house mice? Animal Behaviour, 86(2), 257-268. https://doi.org/10.1016/j.anbehav.2013.05.013
- Can Rats and Mice Live Together? A Comprehensive Guide. Critter Stop. https://critterstop.com/post/can-rats-and-mice-live-together-a-comprehensive-guide/
- Brown rat. Animalia. https://animalia.bio/brown-rat