Í Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary frá 1983 (Merriam-Webster) er skýringin út frá 'all correct' ein borin á borð. Elstu heimildir um þessa orðnotkun í ensku eru þar taldar vera frá árinu 1839. Bókin Webster’s Third New International Dictionary, Unabridged frá 1961 er feiknastór, gefin út hjá G. Bell í London og í tengslum við Merriam-Webster. Þar er O.K. alfarið rakið til félagsskaparins "O.K. Club" sem stuðningsmenn Martin Van Burens Bandaríkjaforseta í New York stofnuðu til að vinna að endurkjöri hans árið 1840. Skammstöfunin vísaði til "Old Kinderhook" í New York-fylki, sem var fæðingarstaður forsetans, en demókratar tóku hana upp sem eins konar vígorð á landsvísu í kosningabaráttunni. Kosningabaráttan varð þó ekki alveg "O.K." því að forsetinn náði ekki endurkjöri. Við höfum líka flett þessu upp í Webster’s Encyclopedic Unabridged Dictionary frá 1989 en hún er byggð á fyrstu útgáfu The Random House Dictionary. Þar er farið bil beggja, skýringin sem byggist á forsetakosningunum talin líkleg en einnig vísað í máltækið all correct sem rakið er til Boston. Vel er hugsanlegt að báðar skýringarnar eigi nokkurn rétt á sér. Til dæmis kynni orðið að hafa orðið til í fyrrnefndri kosningabaráttu en síðan fengið líf og útbreiðslu vegna þess að menn hafi tengt það við ‘all correct’ á síðara stigi þróunarinnar, þó að þau tengsl kunni svo seinna að hafa gleymst mikið til.
Mynd: HB