Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stundum veltir fólk því fyrir sér hvað fyrri liðurinn skot- í orðinu skotsilfur sé. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skotsilfur skýrt ‘lausir peningar, peningar til að eyða, reiðufé’ og í Íslenskri orðabók er skýringin ‘vasapeningar, eyðslueyrir, reiðufé’ en þar kemur líka fram að skot eitt og sér geti m.a. merkt ‘framlag eins einstaks til samskota’. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skotsilfur skýrt ‘Lommepenge; Rejsepenge’, þ.e. ‘vasapeningar; ferðafé’ og undir skot sem er skýrt á sama hátt og í Íslenskri orðabók er vísað á dæmi úr Riti þess íslenzka Lærdómslistafélags frá 1781: „skot (og skot-penningr) heitir, þá er hverr gefr sinn hluta til einhvers.“ Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að skot geti m.a. merkt ‘framlag (í peningum)’.
Skotsilfur er nær eingöngu notað í merkingunni ‘eyðslueyrir’ og áður fyrr langoftast um fé til að greiða útgjöld á ferðalagi, önnur en beinan ferðakostnað.
Í fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over Det Gamle Norske Sprog, er vísað úr skotsilfur á skotpeningur sem hefur tvær merkingar: Annars vegar ‘Penge som tilfalder en’, þ.e. ‘fé sem fellur einhverjum í hlut’ og hins vegar ‘Tærepenge, Penge som man erlægger for sig i Betaling for sin Underholdning, Beværtning’, þ.e. ‘dagpeningar, fé sem greitt er fyrir uppihald’. Við seinni merkinguna er vísað til samanburðar í écot á frönsku og scot, scotum í miðaldalatínu. Í seinni tíð (a.m.k. frá því á 19. öld) virðist fyrri merkingin ekki koma fyrir í skotsilfur þótt hún haldist í orðinu samskot – skotsilfur er eingöngu notað í merkingunni ‘eyðslueyrir’ og áður fyrr langoftast um fé til að greiða útgjöld á ferðalagi – önnur en beinan ferðakostnað.
Þannig segir t.d. í Ísafold 1875: „Prinsinn af Wales hafði 1 milj. kr. eða freklega það í farareyri í Indlandsför sína, og undir það annað eins í skotsilfur.“ Í Heimskringlu 1886 segir: „kom þeim ásamt um, að verðið skyldi vera $67 (sextíu og sjö dollars!), eða með öðrum orðum farbrjef til Liverpool, sem kostar $55 og um 12 doll. í skotsilfri, til þess að svalla í leiðinni.“ Hér er gerður skýr munur á beinum ferðakostnaði og öðrum útgjöldum í ferðinni – skotsilfur er eyðslufé, notað til að greiða ýmislegt sem er ekki endilega allt bráðnauðsynlegt. En þetta gildir þó ekki eingöngu um ferðalög – í Skírni 1886 segir t.d.: „Drottning keisarans hefir í skotsilfur 600,000 rúflna, og heldur því fje, ef hún verður ekkja auk peninga til viðurværis og hirðkostnaðar.“
Mynd:
Unsplash.com. Höfundur myndar: Benjamin White. (Sótt 9.4.2024).
Þetta svar birtist upprunalega á heimasíðu höfundar en var endurskoðað fyrir birtingu á Vísindavefnum.