Hvort er rétt: bollalenging eða bollalegging, og hvaðan kemur orðið?Nafnorðið er bollalegging, oftast notað í fleirtölu bollaleggingar ‘getgáta, heilaspuni; lausleg ráðagerð, vangaveltur’ og er myndað með viðskeyti af sögninni bollaleggja ‘íhuga, hugleiða, velta fyrir sér’. Bæði orðin eru vel þekkt samkvæmt dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá því snemma á 19. öld. Orðin koma ekki fram í eldri orðabókum en í Íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 (I:94) er orðið bollafleipur í merkingunni ‘þvaður, vitleysishjal’. Bollalegging(ar) er fletta í orðabók Jóns Þorkelssonar sem kom út undir lok 19. aldar. Þar er einnig flettan bollalagnaður í merkingunni ‘heilaspuni’.
- Björn Halldórsson. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Biørn Haldorsens islandske lexikon. 1814. Vol. I. Havniæ [Kaupmannahöfn].
- Jón Þorkelsson. 1890–1894. Supplement til islandske orbøger. Tredje samling. Første Del. Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 17. apríl 2024).
- WIDER Development Conference on Human Capital and Growth - Flickr. Birt undir CC BY-NC 2.0 DEED leyfi. (Sótt 24.4.2024).