Er D-vítamín í ávöxtum? Ég er of há, með of mikið D-vítamín í blóðinu.Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega nei. D-vítamín finnst ekki í ávöxtum. Upplýsingar um innihald næringarefna í matvælum eru víða aðgengilegar, meðal annars í næringarefnatöflum sem Matís tekur saman. Þar sést greinilega, í töflu yfir ávexti, ber, hnetur og fræ, að D-vítamín er ekki að finna í þessum fæðutegundum. Helsta uppspretta D-vítamíns í fæðu er feitur fiskur, eins og silungur, lax, makríll og síld. Í lýsi er einnig D-vítamín og sama má segja um eggjarauður. Sum matvæli eru einnig bætt með D-vítamíni, meðal annars ýmsar mjólkurvörur. Líkaminn myndar D-vítamín í húðinni með aðstoð sólarljóss. Þegar útfjólublátt ljós frá sólinni skín á okkur getur hæfilegur dagskammtur D-vítamíns myndast á um 10 til 15 mínútum. Framleiðslan minnkar um leið og dagskammti er náð og stöðvast síðan skömmu síðar þannig að ekki er hægt að fá D-vítamíneitrun með því að vera of lengi í sólarljósi. Útfjólublá geislun frá sólinni er hins vegar ein helsta orsök flöguþekjukrabbameina í húð og þess vegna ber að varast að vera of lengi óvarinn í sólarljósi. Á svæðum sem eru nokkuð fyrir norðan eða sunnan miðbaug er sól hins vegar það lágt á lofti stóran hluta ársins að líkaminn nær ekki að mynda D-vítamín á þennan hátt. Íslendingum er þess vegna ráðlagt að taka D-vítamín sem bætiefni, sérstaklega yfir vetrartímann. Um þetta má lesa meira í fróðlegu svari við spurningunni Hversu mikið D-vítamín ættu Íslendingar að taka? Heimildir:
- Ávextir - næring. (Sótt 3.4.2024).
- Estimation of exposure durations for vitamin D production and sunburn risk in Switzerland - PubMed. (Sótt 24.4.2024).
- Vitamin D - Health Professional Fact Sheet. (Sótt 24.4.2024).
- Fresh fruits | Fresh fruits sold on the street in Hurghada, … | Flickr. Michael Caven tók myndina sem er birt undir leyfinu CC BY 2.0 Deed | Attribution 2.0 Generic | Creative Commons.