Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Einkenni lungnakrabbameina eru margvísleg, en algengust eru einkenni frá brjóstholi. Lungnakrabbamein getur þó einnig greinst fyrir tilviljun við myndatöku vegna annarra sjúkdóma, til dæmis hjarta- og æðasjúkdóma eða eftir áverka.[1][2] Algengustu einkenni lungnakrabbameins eru eftirfarandi:
hósti
brjóstverkur
blóðhósti
andnauð
öng og soghljóð
hæsi
þyngdartap
lystarleysi
slappleiki
þreyta
holæðarheilkenni (e. superior vena cava syndrome)
pancoast-heilkenni
Algengustu einkennin má rekja til frumæxlis í lunganu (verkir, blóðhósti), dreifingar innan brjósthols (fleiðruvökvi, eitlastækkanir) og ekki síst fjarmeinvarpa (höfuð og beinverkir). Loks eru svokölluð hjáeinkenni (e. paraneoplastic syndromes) ekki óalgeng, sérstaklega hjá sjúklingum með útbreiddan sjúkdóm og eru slappleiki, þyngdartap og þreyta algengust þeirra. Flestir sjúklinganna hafa fleiri en eitt einkenni samtímis, oft bæði frá öndunarvegum og almenn einkenni.
Einkenni sem tengjast staðsetningu æxlis í brjóstholi
Hósti er algengasta einkenni lungnakrabbameins og kemur fyrir hjá um helmingi sjúklinga.[3][4] Þar á eftir fylgja brjóstverkur, mæði og blóðhósti, sem þó er oftast vægur.[5] Allt að helmingur sjúklinga kvartar um brjóstverk sem stundum er takverkur sem versnar við innöndun,[6] en getur líka verið þyngslaverkur þeim megin sem æxlið situr.
Mæði er algengt einkenni lungnakrabbameins og kemur fyrir hjá allt að 45% sjúklinga.[7] Önghljóð heyrast í útöndun þegar æxli þrengja að meginberkjum og soghljóð (stridor) getur heyrst við innöndun við sömu aðstæður. Hæsi stafar hins vegar yfirleitt af æxlisvexti miðlægt í vinstra lunga, en þeim megin er taug (e. recurrent laryngeal nerve) sem teygir sig áleiðis að lungnaporti (hilus), og ef æxlið þrengir að henni kemur fram hæsi.
Svonefnt pancoast-heilkenni kemur fram þegar lungnakrabbamein er staðsett í efsta hluta lungans og vex með ífarandi hætti í rif og nálægar taugar. Horners-heilkenni getur fylgt pancoastæxlum og stafar af ífarandi vexti í taugahnoð (stellate ganglion). Sést þá sigið augnlok, þröngt sjáaldur (miosis) og minnkuð svitamyndun sömu megin í andliti.
Holæðarheilkenni (e. superior vena cava syndrome) sést við æxli sem þrýsta á efri holæð og kemur það fram sem þrýstingstilfinning í höfði og andnauð. Holæðarheilkenni sést oftast hjá sjúklingum með smáfrumukrabbamein.[8]
Svonefnt pancoast-heilkenni kemur fram þegar lungnakrabbamein er staðsett í efsta hluta lungans og vex með ífarandi hætti í rif og nálægar taugar. Þeim fylgja taugaverkir í öxl eða baki sem stundum leiðir út í handlegg. Horners-heilkenni getur fylgt pancoastæxlum og stafar af ífarandi vexti í taugahnoð (stellate ganglion). Sést þá sigið augnlok, þröngt sjáaldur (miosis) og minnkuð svitamyndun sömu megin í andliti.
Tilvísanir:
^ Beckles MA, Spiro SG, Colice GL, Rudd RM. Initial evaluation of the patient with lung cancer: symptoms, signs, laboratory tests, and paraneoplastic syndromes. Chest. 2003;123(1 Suppl):97S-104S.
^ Spiro SG, Gould MK, Colice GL, American College of Chest P. Initial evaluation of the patient with lung cancer: symptoms, signs, laboratory tests, and paraneoplastic syndromes: ACCP evidenced-based clinical practice guidelines (2nd edition). Chest. 2007;132(3 Suppl):149S- -160S.
^ Pretreatment evaluation of non-small-cell lung cancer. The American Thoracic Society and The European Respiratory Society. Am J Respir Crit Care Med. 1997;156(1):320-332.
^ Koyi H, Hillerdal G, Branden E. A prospective study of a total material of lung cancer from a county in Sweden 1997-1999: gender, symptoms, type, stage, and smoking habits. Lung Cancer. 2002;36(1):9-14.
^ Buccheri G, Ferrigno D. Lung cancer: clinical presentation and specialist referral time. Eur Respir J. 2004;24(6):898-904.
^ Kocher F, Hilbe W, Seeber A, Pircher A, Schmid T, Greil R, et al. Longitudinal analysis of 2293 NSCLC patients: a comprehensive study from the TYROL registry. Lung Cancer. 2015;87(2):193-200.
Þetta svar er fengið úr bókinni Lungnakrabbamein: Fræðslurit fyrir heilbrigðisstarfsfólk og almenning (ritstjóri Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024. Myndin kemur úr sama riti. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra bókarinnar.
Sigríður Ólína Haraldsdóttir og Tómas Guðbjartsson. „Hver eru algengustu einkenni lungnakrabbameins?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2024, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86307.
Sigríður Ólína Haraldsdóttir og Tómas Guðbjartsson. (2024, 22. mars). Hver eru algengustu einkenni lungnakrabbameins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86307
Sigríður Ólína Haraldsdóttir og Tómas Guðbjartsson. „Hver eru algengustu einkenni lungnakrabbameins?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2024. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86307>.