Heyrandi fólk hefur það gjarnan til siðs að ávarpa hvert annað með nafni (meðan heyrnarlausir gera það ekki) - hvers vegna?Tungumál eru forvitnilegt fyrirbæri og erfitt að alhæfa um margt í þeirra samhengi. Aðstæður, samhengið, menningin sem málið heyrir til og margt annað geta haft áhrif á það hvað við segjum og hvernig við segjum hlutina. Táknmál og raddmál eru eins hvað þetta varðar. Félagsmálfræðingar telja tungumálið einmitt vera félagslegt fyrirbæri sem getur breyst eftir félagslegum þáttum eða aðstæðum hverju sinni. Þannig getur mál eða málnotkun verið ólík eftir því hvaða félagslegi hópur á í hlut en einnig getur munurinn verið einstaklingsbundinn. Hver og einn einstaklingur hefur vald á mörgum málsniðum en hann getur einnig haft sína eigin mállýsku ef svo má segja, svokallaða „idiolect“ eða einstaklingsmállýsku. Það þýðir einfaldlega að ákveðin málnotkun tilheyrir einum einstaklingi en ekki hópi eins og þegar um mállýsku (félags- eða landfræðilega) er að ræða. Þegar fjallað er um orðræðu skiptir líka máli hvort um er að ræða ritaðan eða talaðan texta, ritmál eða talmál. Talmál hefur almennt mun óformlegra málsnið, þar gerir fólk villur, leiðréttir sig, myndar hálfar setningar og notar orðræðuagnir og hikorð. Einnig má tala um undirbúið mál og óundirbúið og svarar hið síðara þá til dæmigerðs talmáls. Táknmál hafa ekki ritmál og því ber að skoða alla málnotkun þar sem talmál, þó það geti verið bæði formlegt og óformlegt. Táknmál heimsins skipta tugum ef ekki hundruðum og er rétt að gæta þess að reglur bæði hvað varðar málfræði og málnotkun geta verið ólíkar frá einu táknmáli til annars. Íslenskt táknmál, ÍTM, hefur þróast í innan við 100 ár og enn er margt ókannað í því. Samræðureglur, eins og sú hvort nöfn fólks séu notuð í samræðum, hafa ekki verið rannsakaðar og reyndar finna höfundar engar rannsóknir á því sviði um önnur táknmál.

Vegna þess hve táknmál eru sjónræn og að samtöl krefjast þess að fólk sjái hvert annað þá eru nafnatákn oft talin óþörf í samtali eða sem ávarp - augnsambandið er forsenda þess að hefja samtalið en ekki nafnið.
- ^ „Döff“ er aðkomuorð í íslensku sem er leitt af tákninu DÖFF með samsvarandi merkingu. Að vera döff þýðir að vera hluti af táknmálssamfélagi, líta á táknmál sem sitt fyrsta mál og samsama sig menningu táknmálssamfélags. Döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.
- Baker, Anne, Beppie van den Bogaerde, Roland Pfau og Trude Schermer (ritstj.). 2016. The Linguistics of Sign Languages. An Introduction. Amsterdam/Philadelphia: John Benjamins Publishing Company.
- Elísa G. Brynjólfsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir. 2012. Málfræði íslenska táknmálsins. Íslenskt mál og almenn málfræði 34: 9-52.
- Crystal, David. 1995. The Cambridge Encyclopedia of the English Language. Cambridge: Cambridge University Press.
- Labov, William. 1972. Sociolinguistic Patterns. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.
- Mesthrie, Rajend, Joan Swann, Ana Deumert og William L. Leap. 2009. Introducing Sociolinguistics. Edinburgh: Edinburgh University Press.
- Valgerður Stefánsdóttir. 2023. Án táknmáls er ekkert líf. Upp með hendur! Ritgerð til doktorsgráðu í mannfræði, Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
- Þórunn Blöndal. 2005. Lifandi mál. Inngangur að orðræðu- og samtalsgreiningu. Reykjavík: Rannsóknastofnun Kennaraháskóla Íslands.
- Learning sign language, 2010 (01).jpg. Flickr. Höfundur myndar: daveynin. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 11.6.2024).