Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heyrandi fólk hefur það gjarnan til siðs að ávarpa hvert annað með nafni (meðan heyrnarlausir gera það ekki) - hvers vegna?
Tungumál eru forvitnilegt fyrirbæri og erfitt að alhæfa um margt í þeirra samhengi. Aðstæður, samhengið, menningin sem málið heyrir til og margt annað geta haft áhrif á það hvað við segjum og hvernig við segjum hlutina. Táknmál og raddmál eru eins hvað þetta varðar. Félagsmálfræðingar telja tungumálið einmitt vera félagslegt fyrirbæri sem getur breyst eftir félagslegum þáttum eða aðstæðum hverju sinni. Þannig getur mál eða málnotkun verið ólík eftir því hvaða félagslegi hópur á í hlut en einnig getur munurinn verið einstaklingsbundinn. Hver og einn einstaklingur hefur vald á mörgum málsniðum en hann getur einnig haft sína eigin mállýsku ef svo má segja, svokallaða „idiolect“ eða einstaklingsmállýsku. Það þýðir einfaldlega að ákveðin málnotkun tilheyrir einum einstaklingi en ekki hópi eins og þegar um mállýsku (félags- eða landfræðilega) er að ræða.
Þegar fjallað er um orðræðu skiptir líka máli hvort um er að ræða ritaðan eða talaðan texta, ritmál eða talmál. Talmál hefur almennt mun óformlegra málsnið, þar gerir fólk villur, leiðréttir sig, myndar hálfar setningar og notar orðræðuagnir og hikorð. Einnig má tala um undirbúið mál og óundirbúið og svarar hið síðara þá til dæmigerðs talmáls. Táknmál hafa ekki ritmál og því ber að skoða alla málnotkun þar sem talmál, þó það geti verið bæði formlegt og óformlegt. Táknmál heimsins skipta tugum ef ekki hundruðum og er rétt að gæta þess að reglur bæði hvað varðar málfræði og málnotkun geta verið ólíkar frá einu táknmáli til annars. Íslenskt táknmál, ÍTM, hefur þróast í innan við 100 ár og enn er margt ókannað í því. Samræðureglur, eins og sú hvort nöfn fólks séu notuð í samræðum, hafa ekki verið rannsakaðar og reyndar finna höfundar engar rannsóknir á því sviði um önnur táknmál.
Vegna þess hve táknmál eru sjónræn og að samtöl krefjast þess að fólk sjái hvert annað þá eru nafnatákn oft talin óþörf í samtali eða sem ávarp - augnsambandið er forsenda þess að hefja samtalið en ekki nafnið.
Þó táknmál og raddmál séu í grundvallaratriðum byggð upp á sama hátt þá er miðlunarháttur þeirra annar og það getur haft áhrif á málnotkun. Táknmál nota þrívítt rými, svokallað táknrými og ef það sem verið er að tala um (hvort sem það er fólk, dýr, hlutir eða annað) er ekki á staðnum þá er því gefin ákveðin staðsetning, kallað hólf, í rýminu. Hægt er að vísa til þessarar persónu (eða dýrs/hlutar) með því að benda í gefið hólf. Táknmál nota líka það sem kallað eru látbrigði (e. nonmanuals) í miklum mæli, bæði geta þau komið í stað tákna en oftast fela þau í sér mikla málfræði. Dæmi um algeng látbrigði er augnsamband eða það hvert horft er en það getur skipt máli í málfræðilegu samhengi.
Þar sem engar rannsóknir eða óformlegar kannanir hafa verið gerðar á því hvort nöfn fólks séu minna notuð í samræðum á íslensku táknmáli eða íslensku byggjum við svarið hér á máltilfinningu og reynslu höfundar sem hefur ÍTM að móðurmáli. Verið getur að aðrir málhafar hafi aðra skoðun eða nánari rannsókn leiði eitthvað nýtt í ljós en það bíður þá síðari tíma kannanna.
Í táknmálum gegna nafnatákn sams konar hlutverki og mannanöfn. Fólk sem tilheyrir eða tengist íslenska táknmálssamfélaginu fær sitt eigið nafnatákn sem myndað er af öðrum döff-einstaklingum[1] eftir að þeir hafa kynnst viðkomandi. Vegna þess hve táknmál eru sjónræn og að samtöl krefjast þess að fólk sjái hvert annað þá eru nafnatákn oft talin óþörf í samtali eða sem ávarp. Nóg er að veifa til að ná athygli viðkomandi eða ná augnsambandi og oft fylgir bending sem gegnir hlutverki persónufornafns, það gefur betri raun en að nota nafnatáknið. Samtalið getur ekki hafist fyrr en sá sem er ávarpaður, sér þann sem hefur samtalið og því er augnsambandið forsendan en ekki nafnið.
En eins og áður sagði þá fer málnotkun mikið eftir aðstæðum og getur það hversu formlegar aðstæður eru haft áhrif á það hvort nafnatákn er notað eða ekki. Þannig eru nafnatákn minna notuð í hversdagslegum (óformlegum) samskiptum en meira í formlegum eins og til dæmis ef viðkomandi er gefið orðið á formlegum fundi. Í upphafi formlegra aðstæðna eru nöfn oft stöfuð og svo fylgir nafnatákn í kjölfarið. Þá hefur það hversu vel þátttakendur í samtali þekkjast einnig haft áhrif. Málsamfélag ÍTM er lítið og þekkjast flestir innan þess. Í þannig aðstæðum er sjaldnar ástæða til að nota nafnatákn til að ávarpa fólk heldur er augnsambandið notað eins og getið er um hér að framan.
Málvenjan er þá að nota síður nafnatákn en annað gildir í stærri málsamfélögum þar sem fólk er ókunnugt. Ef döff sem þekkjast ekki hittast í fyrsta sinn er algengt að kynna sig með nafnatákni en þegar döff sem þekkjast vel hittast er nafnatáknið sjaldnast notað, fólk faðmast frekar en að ávarpa hvort annað með nafni.
Í stuttu máli þá eru nafnatákn (nöfn) fólks sjaldnar notuð til að ávarpa fólk á ÍTM en á íslensku en taka verður tillit til aðstæðna, félagslegra þátta, menningar og stærð samfélags. Þá er rétt að ítreka að táknmál og táknmálssamfélög eru ólík og ekki víst að sömu reglur, málvenjur eða samræðureglur gildi fyrir öll táknmál.
Tilvísun:
^ „Döff“ er aðkomuorð í íslensku sem er leitt af tákninu DÖFF með samsvarandi merkingu. Að vera döff þýðir að vera hluti af táknmálssamfélagi, líta á táknmál sem sitt fyrsta mál og samsama sig menningu táknmálssamfélags. Döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.
Heimildir og mynd:
Baker, Anne, Beppie van den Bogaerde, Roland Pfau og Trude Schermer (ritstj.). 2016. The Linguistics of Sign Languages. An Introduction. Amsterdam/Philadelphia: John Benjamins Publishing Company.
Elísa G. Brynjólfsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir. 2012. Málfræði íslenska táknmálsins. Íslenskt mál og almenn málfræði 34: 9-52.
Crystal, David. 1995. The Cambridge Encyclopedia of the English Language. Cambridge: Cambridge University Press.
Labov, William. 1972. Sociolinguistic Patterns. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.
Mesthrie, Rajend, Joan Swann, Ana Deumert og William L. Leap. 2009. Introducing Sociolinguistics. Edinburgh: Edinburgh University Press.
Valgerður Stefánsdóttir. 2023. Án táknmáls er ekkert líf. Upp með hendur! Ritgerð til doktorsgráðu í mannfræði, Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Þórunn Blöndal. 2005. Lifandi mál. Inngangur að orðræðu- og samtalsgreiningu. Reykjavík: Rannsóknastofnun Kennaraháskóla Íslands.
Rannveig Sverrisdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir. „Nota þeir sem hafa táknmál að móðurmáli ekki nöfn fólks í samræðum?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2024, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86231.
Rannveig Sverrisdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir. (2024, 13. júní). Nota þeir sem hafa táknmál að móðurmáli ekki nöfn fólks í samræðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86231
Rannveig Sverrisdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir. „Nota þeir sem hafa táknmál að móðurmáli ekki nöfn fólks í samræðum?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2024. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86231>.