Hvers vegna er enn þjóðkirkja á Íslandi, (að því er virðist) í andstöðu við bæði lög og hugsjón um algert og algilt trúfrelsi? (Svar við fyrri hluta spurningarinnar er að finna hér.)Kveðið er á um trúfrelsi í 63. og 64. gr. í Stjórnarskrá lýðveldisins og eru þær að mestu óbreyttar efnislega séð frá 1915 (þá nr. 46 og 47 ).[1] Samkvæmt þessum ákvæðum ríkir hér bæði trúarlegt félagafrelsi og einstaklingsfrelsi. Þá nær trúfrelsið bæði til iðkunar trúar af hvaða tagi sem er sem og að vera með öllu óháður trúariðkun. Í því felst meðal annars frelsi undan því að greiða nokkur bein gjöld til trúfélaga sem maður tilheyrir ekki sjálfur. Einu áberandi takmörkin á trúfrelsinu eru „[…] að ekki má kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“[2] Ekki má heldur skorast undan „almennri þegnskyldu“ af trúarástæðum.[3] Hvað undir þessar takmarkanir fellur er ekki fullljóst að öðru leyti en því að gera verður ráð fyrir að um sé að ræða brot gegn lögum. Það heyrir því undir dómstóla að skera úr um hvort brot gegn ákvæðunum kunni að liggja fyrir.

Ásatrúarfólk á Þingvöllum. Samkvæmt ákvæðum í stjórnarskránni ríkir bæði trúarlegt félagafrelsi og einstaklingsfrelsi á Íslandi.
Er þjóðkirkja andstæð hugsjónum um „algert og algilt“ trúfrelsi?
Trúfrelsi taldist lengi til mikilvægustu mannréttinda fólks þótt það hafi ef til vill vikið um set fyrir öðrum réttindum á hinum sekúlaríseruðu (veraldlegu) Vesturlöndum. Með „algeru og algildu“ trúfrelsi á fyrirspyrjandi væntanlega við fullt eða óskorað trúfrelsi. Í því sambandi má geta þess að frelsi er aldrei algert. Því fylgja alltaf einhverjar skyldur og jafnvel takmarkanir (sjá til dæmis hér framar). Spurt er hvort þjóðkirkjuskipan sé andstæð hugsjónum um „algert og algilt“ trúfrelsi. Þeirri spurningu er torsvarað þar sem hugsjónir eru næsta einstaklingsbundar og oft settar fram á óljósan hátt. Þó má benda á að í alþjóðlegri umræðu á sviði trúarbragðaréttar hefur það sjónarmið verið ríkjandi að þjóðkirkjuskipulagið sem slíkt sé ekki andstætt trúfrelsi. Í ljósi þess má segja að íslenska leiðin, það er þjóðkirkja sem starfar í skjóli ríkisvaldsins, brjóti ekki í bága við viðtekin trúfrelsissjónarmið. Þar skiptir aftur á móti höfuðmáli hvernig fyrirkomulagið er útfært eða „framkvæmt“. Í því sambandi ber að spyrja nokkurra gagnrýninna spurninga og ríður þar mest á þessum: Hve mikilla forréttinda nýtur Þjóðkirkjan umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög? Eru þau forréttindi réttlætanleg út frá sjónarmiðum sem ekki taka tillit til guðfræði eða trúar? Leiða forréttindin til mismununar gagnvart öðrum trúfélögum og/eða einstaklingum sem ekki tilheyra Þjóðkirkjunni eða játa lútherska trú? Miklu skiptir sem sé að mögulegt sé að rökstyðja sérstöðu Þjóðkirkjunnar með gildum, veraldlegum rökum. Virðast þar einkum koma til álita lýðfræðileg og söguleg/menningarleg rök. Er þar átt við hvort staða Þjóðkirkjunnar sem meirihlutakirkju réttlæti þá sérstöðu sem henni er veitt hverju sinni sem og hvort sameiginleg saga lútherskrar kirkju og gagnkvæm menningarleg mótun nægi sem réttlæting. Með þessu er í stuttu máli átt við að meðan lúthersk trú í þeirri mynd sem Þjóðkirkjan heldur á lofti er hluti af sjálfsmynd þorra þjóðarinnar og hann óskar nærveru kirkjunnar á áföngum mannsævinnar frá skírn til greftrunar virðist hófstillt þjóðkirkjufyrirkomulag ekki þurfa að brjóta í bága við viðtekin trúfrelsissjónarmið. — Þessu kann róttækt hugsjónafólk um trúfrelsi að vera ósammála. Hér er sem sé um matsatriði að ræða. Tilvísanir:- ^ Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands uppfærð með öllum breytingum til og með 1915, Stjornarradid.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
- ^ Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, Althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
- ^ Sama.
- ^ Sama, 64. gr.
- ^ Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, Althingi.is. (Sótt 2. febrúar 2024).
- ^ Sama.
- ^ Um þetta er fjallað í öðru svari á Vísindvefnum, sjá hér: Væri hægt að einkavæða þjóðkirkjuna? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=77065.
- Þingblót 2009.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Lenka Kovářová. Birt undir CC BY-SA 3.0 DEED leyfi. (Sótt 2.2.2024).