Hvernig er vísitölufjölskylda samsett og á hvaða aldri er fólkið? Hvar má finna reglugerð um samsetningu slíkrar fjölskyldu sem og reglur fyrir hvað skal vera innihald í neyslu slíkrar fjölskyldu?Vísitölufjölskyldan er hugtak sem er notað til að lýsa dæmigerðri íslenskri fjölskyldu sem horft er til þegar vísitala neysluverðs er reiknuð út. Hagstofa Íslands fylgist með útgjöldum heimila sem lenda í úrtaki stofnunarinnar og spyr meðal annars um öll útgjöld til kaupa á vörum og þjónustu. Úrtakið á að endurspegla sem best allar íslenskar fjölskyldur og í því eru því misstórar fjölskyldur með fólki af öllum aldri sem búsettar eru alls staðar á landinu. Árlega eru 1.222 fjölskyldur í úrtakinu. Út frá þessari könnun er reiknuð út neyslukarfa sem endurspeglar neyslu dæmigerðrar fjölskyldu, það er vísitölufjölskyldunnar. Síðan er reiknað út í hverjum mánuði hvað þessi karfa kostar. Breytingar á þeim kostnaði eru síðan notaðar til að uppfæra vísitölu neysluverðs, sem meðal annars er notuð við verðtryggingu lána og innstæðna. Vísitalan hækkar um sama hlutfall á milli mánaða og áætlaður kostnaður við kaup á körfunni. Þetta fyrirkomulag er byggt á sérstökum lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995. Sjá einnig Spurt og svarað og Rannsókn á útgjöldum heimilanna á vef Hagstofunnar. Mynd:
- File:Hundred thousand people (6029844615).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24.01.2024). Myndina tók Helgi Halldórsson og hún er birt undir leyfinu CC BY-SA 2.0 Deed | Attribution-ShareAlike 2.0 Generic | Creative Commons