Hvenær kom orðið gervigreind fyrst fram í íslensku og hvenær varð fræðigreinin til?Elsta dæmi sem höfundar þessa svars hafa fundið um íslenska orðið gervigreind er í þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Noams Chomsky Mál og mannshugur, sem kom út á íslensku 1973.[1] Rithöfundurinn Einar Kárason notar svo lýsingarorðið gervigreindur í skáldsögunni Þetta eru asnar Guðjón frá 1981[2] og má þá reikna með að nafnorðið hafi verið orðið nokkuð þekkt. Talsverðan fjölda notkunardæma frá níunda áratugnum má finna á Tímarit.is en þá var ýmist talað um gervigreind/gerfigreind, tölvugreind eða tölvuvit þegar talað var um það sem er kallað artificial intelligence á ensku. Oddur Benediktsson, frumkvöðull í tölvunarfræði á Íslandi, talaði til dæmis um tölvuvit í fyrirlestri vorið 1984 þar sem hann fjallaði um greiningu talaðs máls, vélmenni og leikjaforrit á borð við skákforrit sem þá þóttu vera orðin það fullkomin að þau virtust gæða tölvurnar viti. Í nágrannamálunum ber hugtakið yfirleitt meiri keim af ensku en hjá okkur. Danir og Norðmenn tala um kunstig intelligens, Þjóðverjar um künstliche Intelligenz og Svíar um artificiell intelligens. Færeyingar skera sig þó úr því þeir tala um vitlíki, sem færeyska ríkisútvarpið, Kringvarp Føroya, valdi einmitt orð ársins 2023.[3]

Undanfarin ár hefur ný gervigreindartækni sem byggist á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með t.d. myndir eða texta. Þau eru þá greind í eindir sem hægt er að staðsetja í netinu með vigurreikningi. Mest áberandi eru svokölluð myndandi gervigreindarlíkön en þá er átt við að líkönunum sé fyrst og fremst ætlað að framkalla eða mynda eitthvað tiltekið efni, yfirleitt texta eða myndefni.
- ^ Noam Chomsky. 1973. Mál og mannshugur. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
- ^ Einar Kárason. 1981. Þetta eru asnar Guðjón. Reykjavík: Mál og menning.
- ^ http://malrad.fo/news_article.php?NewsArticleId=295
- ^ Computing Machinery and Intelligence. Mind 49: 433-460.
- (PDF) Unveiling the Thematic Landscape of Generative Pre-trained Transformer (GPT) Through Bibliometric Analysis. (Sótt 9.01.2024). Myndin er birt undir leyfinu CC BY 4.0 Deed - Attribution 4.0 International - Creative Commons.