Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða fæðutegundir eru tengdar við latexofnæmi og hvers vegna? Eða: Hvað má ég helst ekki borða ef ég er með latexofnæmi og hvers vegna?
Stundum skjóta ný heilbrigðisvandamál upp kollinum án þess að ástæður liggi í augum uppi. Eitt slíkt vandamál er ofnæmi fyrir latex. Því var fyrst lýst 1927 en vakti þá litla athygli. Hálf öld leið og 1979 birtist aftur grein um latexofnæmi og skriða var farin á stað. Ef flett er upp á leitarsíðunni Pub Med um þetta efni koma upp 2550 greinar, þær voru í hámarki 2002 þegar 153 greinar eru skráðar á Pub Med, en árið 2023 voru þær 42.
Hvað er latex?
Latex er trjákvoðumjólk sem kemur úr safa gúmmítrésins, Hevea brasiliensis. Safanum er safnað með því að rista raufar í börk trésins sem safinn seytlar eftir niður í safnker. Um leið og safanum er safnað er bætt í hann ammoníaki til að hindra kekkjun og sýklagróður.
Aðalefnin í latexi eru kolvetnasambönd. Við framleiðslu á gúmmíi er latex blandað með brennisteini og myndar hann bindinga milli kolefnisjóna. Blandan ákvarðar eiginleika gúmmís svo sem teygjanleika og þol. Í framleiðsluferlið eru notaðir efnahvatar. Það flýtir fyrir framleiðslunni og hefur áhrif á eiginleika gúmmísins. Einnig eru notuð efni sem auka þol og endingu. Á lokastigum framleiðslunnar er svo bætt við litarefnum eftir smekk og gúmmíið mótað í samræmi við notkun þess.
Latex er trjákvoðumjólk sem kemur úr safa gúmmítrésins, Hevea brasiliensis. Safanum er safnað með því að rista raufar í börk trésins sem safinn seytlar eftir niður í safnker.
Gúmmítréð er upprunnið í Suður-Ameríku og gúmmí var þekkt í samfélögum frumbyggja í Ameríku áður en Evrópubúar komu þangað. Meðan Gísli Súrsson og félagar gengu til leika með tréknetti á Seftjörn í Haukadal voru indíánar í Suður-Ameríku með knetti úr gúmmíi. Evrópubúar, sem komu til Ameríku, veittu þessu efni fljótt athygli og á nítjándu öld fór að kveða að notkun þess í iðnaði. Gúmmítréð var svo flutt til ræktunar í Suðaustur-Asíu á seinni hluta nítjándu aldar þar sem mest er ræktað af því í dag. Notkun latex hefur síðan aukist hröðum skrefum á síðustu áratugum. Svíi að nafni Halstead varð fyrstur til að búa til gúmmíhanska 1889, en þeir hafa lengi verið ómissandi á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Auk þess er gúmmí notað á fjölmörgum öðrum sviðum innan heilbrigðisgeirans og ekki má gleyma notkun þess í heimahúsum og í miklum fjölda iðngreina.
Latexofnæmi
Fljótlega kom í ljós að gúmmíhanskar gátu orsakað húðskaða. Annars vegar var um að ræða ertandi áhrif á húðina við notkun hanska og hins vegar exem vegna snertiofnæmis. Hanskarnir erta húðina vegna þess að hún soðnar undan þeim og vegna þess að fituleysanleg efni í hreinlætisvörum lokast inni í hönskunum og eyða fituvörn húðarinnar. Algengast er að óþægindi samfara notkun hanska sé af þessum toga.
Snertiofnæmi myndast einnig fyrir efnum sem notuð eru við gúmmíframleiðslu en mjög sjaldan eða ekki fyrir latexinu sjálfu. Þetta eru meðal annars efnahvatar (e. thiurams), rotvarnarefni (e. thiazoles) og litarefni (e. phenylenediamine). Ofnæmi fyrir þessum efnum er kannað með plástraprófum (epicutan-prófum) og einkennin eru snertiexsem, sem kemur fram eftir tvo til þrjá sólahringa.
Prótínsameindir í latexi geta vakið upp mótefnasvörun af IgE-gerð sem veldur bráðum ofnæmisviðbrögðum, og eru einar 35 slíkar sameindir nefndar, en miklu færri hafa þó verið rannsakaðar með tilliti til fæðuofnæmis. Þessar sameindir eru mismunandi að samsetningu og sumar finnast einnig í matvörum sem eiga uppruna sinn í jurtaríkinu. Talið er að latex valdi bráðaofnæmi hjá innan við 1% fólks og rúmur helmingur þeirra sé einnig með ofnæmi fyrir fæðu úr jurtaríkinu. Að jafnaði eru þau einkenni vægari en af latexi.
Þær fæðutegundir sem oftast valda krossnæmi við latex eru avókadó, bananar, kastaníuhnetur og kíví. Þær fæðutegundir sem koma þar næst eru epli, gulrætur, seljurót, melóna, papaja, kartöflur og tómatar. Ýmsar aðrar fæðutegundir hafa verið nefndar þótt slíkt ofnæmi sé sjaldgæft.
Þær fæðutegundir sem oftast valda krossnæmi við latex eru avókadó, bananar, kastaníuhnetur og kíví. Þær fæðutegundir sem koma þar næst eru epli, gulrætur, seljurót, melóna, papaja, kartöflur og tómatar.
Ekki koma þó sömu prótínsameindir í latexi fyrir í öllum þessum fæðutegundum og auk þess er það sjaldgæft að sami einstaklingurinn myndi ofnæmi fyrir öllum þeim sameindunum sem geta valdið ofnæmi. Þess vegna getur einn einstaklingur fengið einkenni af því að borða banana eða kívi og annar af því að borða avókadó og svo framvegis.
Bráðaofnæmi fyrir latexi er mun alvarlegri sjúkdómur en snertiofnæmið sem minnst var á í sambandi við gúmmíhanska og getur raunar verið lífshættulegt. Á fyrstu 20 árunum frá því latexofnæminu var lýst öðru sinni, jókst tíðni þess með ótrúlegum hraða. Fyrir því voru taldar nokkrar orsakir. Notkun gúmmís hafði farið ört vaxandi, sérstaklega meðal heilbrigðisstétta. Þær voru hvattar til að nota gúmmíhanska af ótta við lifrarbólgur og eyðni. Sem dæmi um það má nefna, að í Bandaríkjunum voru notaðir 1,4 billjón hanskar 1986 en 8 billjón hanskar árið 1993. Af sömu ástæðu var lögð aukin áhersla á notkun smokksins við kynmök. Vegna aukinnar eftirspurnar eftir gúmmíi var talið að breyting hefði orðið á framleiðsluferli þess þannig að meira hafi verið um ofnæmissameindir í framleiðsluvörum úr latex.
Kornsterkja sem oft var í hönskunum, til þess að auðveldara væri að fara í þá, tók upp ofnæmisvakana og þeir dreifðust um umhverfið þegar fólk klæddi sig í hanskana. Þetta leiddi til gífurlegrar aukningar á bráðaofnæmi fyrir latexi hjá efnameiri þjóðum. Aukin þekking og betri rannsóknaraðferðir hafa leitt til auðveldari greiningar á latexofnæminu. Þó hefur dregið mikið úr útbreiðslu latexofnæmis síðustu tvo áratugi, væntanlega vegna betri framleiðslu á þeim vörum sem notaðar eru innan heilbrigðiskerfisins.
Ákveðnum hópum í samfélaginu hættir fremur til að fá latexofnæmi en öðrum. Einkum eru þrír hópar undir smásjánni: Í fyrsta hópnum eru sjúklingar, sem á unga aldri þurfa oft að gangast undir aðgerðir eða vera með umbúðir sem innihalda latex. Þetta eru sérstaklega börn sem eru fædd með klofin hrygg (spina bifida) eða galla á þvagfærum. Latexofnæmi hefur fundist hjá 28-67% þessara barna. Í öðrum hópnum eru heilbrigðisstarfsmenn. Í þeim hópi er starfsfólk á skurðstofum í mestri hættu. Í sumum rannsóknum hafa allt að 10% þessara starfsmanna fengið latexofnæmi. Í þriðja hópnum eru þeir sem vinna við framleiðslu á vörum úr latex.
Líkurnar á að fá latexofnæmi eru mestar ef fólk hefur bráðaofnæmi af öðrum toga og er í einhverjum þeirra áhættuhópa sem nefndir hafa verið. Þeim er sérstaklega hætt sem eru með barnaexsem.
Heilbrigðisstarfsfólk er einn þeirra hópa sem hættir fremur til að fá latexofnæmi en öðrum.
Einkennin af latexofnæmi eru háð því hversu sterkt ofnæmið er og frá hvaða líffæri einkennin eru. Algengust eru einkenni frá húð. Það er kláði, roði og bjúgur, sem koma við beina snertingu við hanska, plástra, gúmmíblöðrur, smokka og svo framvegis. Hnerrar, nefrennsli, nefstíflur, eða kláði, roði og bjúgur í augum eru einnig algeng einkenni. Sjaldgæfari en þeim mun alvarlegri eru einkenni frá munni, endaþarmi, leggöngum, sem og astmi, ofsakláði, ofsabjúgur, uppköst, niðurgangur og ofnæmislost.
Ofnæmisviðbrögð af latex teljast með alvarlegustu ofnæmisviðbrögðum og eru þar í flokki með vissu lyfjaofnæmi, skordýraofnæmi og sumu fæðuofnæmi. Þegar sjúklingar með latexofnæmi þurfa að fara í aðgerðir er mikilvægt að þær séu gerðar í latexfríu umhverfi. Því ætti að merkja alla sjúklinga með latexofnæmi með Medic Alert-merkjum.
Hvernig er latexofnæmi greint?
Oft er auðvelt að tengja latexofnæmi við einkennin, til dæmis þegar snerting við gúmmíhanska veldur útbrotum. Tengsl annarra einkenna við latex geta hins vegar vafist fyrir fólki.
Kláði í augum og nefi er eitt helsta einkenni bráðaofnæmis. Nuddi menn nefið eða augnlokin með gúmmíhanska á hendi getur það kallað fram gríðarlegan bjúg í húð og slímhúðum. Ef ofsabjúgur kemur í varir og munn eftir tannviðgerðir, eða bjúgur á kynfæri og í endaþarmi eftir skoðanir hjá kvensjúkdómalækni, vekur það strax grun um latexofnæmi. Óvænt áföll við svæfingu og aðgerðir, til dæmis ofsabjúgur, astmi eða blóðþrýstingsfall geta einnig stafað af latexofnæmi.
Þegar grunur er um latexofnæmi er gert húðpróf með sérstökum ofnæmisvökum. Ef prófið er neikvætt þrátt fyrir sterkan grun má gera þolpróf með þeim hlut sem talinn er valda einkennunum. Einnig er hægt að mæla IgE-mótefni fyrir latexi í blóði. Blóðprófin hafa þó ekki verið talin eins næm og húðprófin. Fölsk jákvæð húð- og blóðpróf koma fyrir og því þarf ætíð að skoða niðurstöðurnar úr ofnæmisrannsóknum í samhengi við einkenni viðkomandi einstaklings. Þegar prófað er fyrir latexofnæmi án tillits til einkenna kemur í ljós að aðeins um helmingur þeirra sem hafa jákvæð latex próf hafa einhver einkenni um latexofnæmi. Sömu aðferð má nota við að greina fæðuofnæmi þegar grunur er um krossofnæmi við latex.
Húðprófin, og sérstaklega þolprófin, geta verið varasöm. Því ættu eingöngu læknar með reynslu á þessu sviði að gera prófin.
Latexofnæmi á Íslandi
Í grein sem við Unnur Steina Björnsdóttir skrifuðum um latexofnæmi í Læknablaðið er minnst á einkenni af latexofnæmi á Íslandi. Þá höfðum við greint um 30 einstaklinga með þetta ofnæmi. Af þeim voru 80% konur. Um 70% þessara einstaklinga voru með annað bráðaofnæmi. Þrír sjúklingar voru með ofnæmi fyrir banönum og aðrir þrír fyrir kívi. Þetta eru þeir ávextir sem helst tengjast latexofnæmi hér á landi. Hér á landi tengja menn einkenni sín fyrst og fremst notkun gúmmíhanska, nokkrir hafa þó farið í fjölda aðgerða vegna fæðingargalla og einn vann í sjóklæðagerð. Tveir hjúkrunarfræðingar og einn skurðlæknir voru með latexofnæmi. Nokkrir hafa fyrst orðið fyrir einkennum af latexi í heimsókn hjá tannlækni og hafa þá bólgnað í munni undan gúmmídúkum. Einhverjir fengu sína fyrstu reynslu af latexofnæmi við að blása í blöðru á þjóðhátíðadaginn og aðrir við notkun smokksins.
Tíðni latexofnæmis er afar mismunandi eftir löndum en það hefur ekki verið kannað hér á landi. Þó spurðum við um latexofnæmi meðal 100 læknanema, sem teljast í áhættuhópi hvað latexofnæmi varðar. Enginn þeirra kannaðist við einkenni um latexofnæmi. Þetta og reynsla ofnæmislækna bendir til þess að latexofnæmi komi sjaldnar fyrir á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.
Heimildir og myndir:
Davíð Gíslason. „Hvað er latexofnæmi og hvaða fæðutegundir eru tengdar við það?“ Vísindavefurinn, 8. október 2024, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85959.
Davíð Gíslason. (2024, 8. október). Hvað er latexofnæmi og hvaða fæðutegundir eru tengdar við það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85959
Davíð Gíslason. „Hvað er latexofnæmi og hvaða fæðutegundir eru tengdar við það?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2024. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85959>.