Hvaða fæðutegundir eru tengdar við latexofnæmi og hvers vegna? Eða: Hvað má ég helst ekki borða ef ég er með latexofnæmi og hvers vegna?Stundum skjóta ný heilbrigðisvandamál upp kollinum án þess að ástæður liggi í augum uppi. Eitt slíkt vandamál er ofnæmi fyrir latex. Því var fyrst lýst 1927 en vakti þá litla athygli. Hálf öld leið og 1979 birtist aftur grein um latexofnæmi og skriða var farin á stað. Ef flett er upp á leitarsíðunni Pub Med um þetta efni koma upp 2550 greinar, þær voru í hámarki 2002 þegar 153 greinar eru skráðar á Pub Med, en árið 2023 voru þær 42.
Hvað er latex?
Latex er trjákvoðumjólk sem kemur úr safa gúmmítrésins, Hevea brasiliensis. Safanum er safnað með því að rista raufar í börk trésins sem safinn seytlar eftir niður í safnker. Um leið og safanum er safnað er bætt í hann ammoníaki til að hindra kekkjun og sýklagróður. Aðalefnin í latexi eru kolvetnasambönd. Við framleiðslu á gúmmíi er latex blandað með brennisteini og myndar hann bindinga milli kolefnisjóna. Blandan ákvarðar eiginleika gúmmís svo sem teygjanleika og þol. Í framleiðsluferlið eru notaðir efnahvatar. Það flýtir fyrir framleiðslunni og hefur áhrif á eiginleika gúmmísins. Einnig eru notuð efni sem auka þol og endingu. Á lokastigum framleiðslunnar er svo bætt við litarefnum eftir smekk og gúmmíið mótað í samræmi við notkun þess.
Latex er trjákvoðumjólk sem kemur úr safa gúmmítrésins, Hevea brasiliensis. Safanum er safnað með því að rista raufar í börk trésins sem safinn seytlar eftir niður í safnker.
Latexofnæmi
Fljótlega kom í ljós að gúmmíhanskar gátu orsakað húðskaða. Annars vegar var um að ræða ertandi áhrif á húðina við notkun hanska og hins vegar exem vegna snertiofnæmis. Hanskarnir erta húðina vegna þess að hún soðnar undan þeim og vegna þess að fituleysanleg efni í hreinlætisvörum lokast inni í hönskunum og eyða fituvörn húðarinnar. Algengast er að óþægindi samfara notkun hanska sé af þessum toga. Snertiofnæmi myndast einnig fyrir efnum sem notuð eru við gúmmíframleiðslu en mjög sjaldan eða ekki fyrir latexinu sjálfu. Þetta eru meðal annars efnahvatar (e. thiurams), rotvarnarefni (e. thiazoles) og litarefni (e. phenylenediamine). Ofnæmi fyrir þessum efnum er kannað með plástraprófum (epicutan-prófum) og einkennin eru snertiexsem, sem kemur fram eftir tvo til þrjá sólahringa. Prótínsameindir í latexi geta vakið upp mótefnasvörun af IgE-gerð sem veldur bráðum ofnæmisviðbrögðum, og eru einar 35 slíkar sameindir nefndar, en miklu færri hafa þó verið rannsakaðar með tilliti til fæðuofnæmis. Þessar sameindir eru mismunandi að samsetningu og sumar finnast einnig í matvörum sem eiga uppruna sinn í jurtaríkinu. Talið er að latex valdi bráðaofnæmi hjá innan við 1% fólks og rúmur helmingur þeirra sé einnig með ofnæmi fyrir fæðu úr jurtaríkinu. Að jafnaði eru þau einkenni vægari en af latexi. Þær fæðutegundir sem oftast valda krossnæmi við latex eru avókadó, bananar, kastaníuhnetur og kíví. Þær fæðutegundir sem koma þar næst eru epli, gulrætur, seljurót, melóna, papaja, kartöflur og tómatar. Ýmsar aðrar fæðutegundir hafa verið nefndar þótt slíkt ofnæmi sé sjaldgæft.
Þær fæðutegundir sem oftast valda krossnæmi við latex eru avókadó, bananar, kastaníuhnetur og kíví. Þær fæðutegundir sem koma þar næst eru epli, gulrætur, seljurót, melóna, papaja, kartöflur og tómatar.

Heilbrigðisstarfsfólk er einn þeirra hópa sem hættir fremur til að fá latexofnæmi en öðrum.
Hvernig er latexofnæmi greint?
Oft er auðvelt að tengja latexofnæmi við einkennin, til dæmis þegar snerting við gúmmíhanska veldur útbrotum. Tengsl annarra einkenna við latex geta hins vegar vafist fyrir fólki. Kláði í augum og nefi er eitt helsta einkenni bráðaofnæmis. Nuddi menn nefið eða augnlokin með gúmmíhanska á hendi getur það kallað fram gríðarlegan bjúg í húð og slímhúðum. Ef ofsabjúgur kemur í varir og munn eftir tannviðgerðir, eða bjúgur á kynfæri og í endaþarmi eftir skoðanir hjá kvensjúkdómalækni, vekur það strax grun um latexofnæmi. Óvænt áföll við svæfingu og aðgerðir, til dæmis ofsabjúgur, astmi eða blóðþrýstingsfall geta einnig stafað af latexofnæmi. Þegar grunur er um latexofnæmi er gert húðpróf með sérstökum ofnæmisvökum. Ef prófið er neikvætt þrátt fyrir sterkan grun má gera þolpróf með þeim hlut sem talinn er valda einkennunum. Einnig er hægt að mæla IgE-mótefni fyrir latexi í blóði. Blóðprófin hafa þó ekki verið talin eins næm og húðprófin. Fölsk jákvæð húð- og blóðpróf koma fyrir og því þarf ætíð að skoða niðurstöðurnar úr ofnæmisrannsóknum í samhengi við einkenni viðkomandi einstaklings. Þegar prófað er fyrir latexofnæmi án tillits til einkenna kemur í ljós að aðeins um helmingur þeirra sem hafa jákvæð latex próf hafa einhver einkenni um latexofnæmi. Sömu aðferð má nota við að greina fæðuofnæmi þegar grunur er um krossofnæmi við latex. Húðprófin, og sérstaklega þolprófin, geta verið varasöm. Því ættu eingöngu læknar með reynslu á þessu sviði að gera prófin.Latexofnæmi á Íslandi
Í grein sem við Unnur Steina Björnsdóttir skrifuðum um latexofnæmi í Læknablaðið er minnst á einkenni af latexofnæmi á Íslandi. Þá höfðum við greint um 30 einstaklinga með þetta ofnæmi. Af þeim voru 80% konur. Um 70% þessara einstaklinga voru með annað bráðaofnæmi. Þrír sjúklingar voru með ofnæmi fyrir banönum og aðrir þrír fyrir kívi. Þetta eru þeir ávextir sem helst tengjast latexofnæmi hér á landi. Hér á landi tengja menn einkenni sín fyrst og fremst notkun gúmmíhanska, nokkrir hafa þó farið í fjölda aðgerða vegna fæðingargalla og einn vann í sjóklæðagerð. Tveir hjúkrunarfræðingar og einn skurðlæknir voru með latexofnæmi. Nokkrir hafa fyrst orðið fyrir einkennum af latexi í heimsókn hjá tannlækni og hafa þá bólgnað í munni undan gúmmídúkum. Einhverjir fengu sína fyrstu reynslu af latexofnæmi við að blása í blöðru á þjóðhátíðadaginn og aðrir við notkun smokksins. Tíðni latexofnæmis er afar mismunandi eftir löndum en það hefur ekki verið kannað hér á landi. Þó spurðum við um latexofnæmi meðal 100 læknanema, sem teljast í áhættuhópi hvað latexofnæmi varðar. Enginn þeirra kannaðist við einkenni um latexofnæmi. Þetta og reynsla ofnæmislækna bendir til þess að latexofnæmi komi sjaldnar fyrir á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Heimildir og myndir:- Davíð Gíslason, Unnur Steina Björnsdóttir. Latexofnæmi – nýtt heilbrigðisvandamál. Læknablaðið 1996; 82: 576-9.
- Kevin J. Kelly, Gordon Sussman. Latex Allergy: Where Are We Now and How Did We Get There? J Allergy Clin Immunol Pract. 2017; 5(5): 1212-16.
- Judy E. Perkin. The latex and food allergy connection. J Am Diet Assoc. 2000; 100(11): 1381-4.
- Gerald E. Poley, Jay E. Slater. Latex allergy. J Allergy Clin Immunol. 2000; 105: 1054-62.
- Rubber tree in Bahubal Upazila, Habiganj district, Bangladesh. (6).jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar Salim Khandoker. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 2.10.2024).
- Fruit Compote. Flickr. Höfundur myndar DarmstadtKoeln. Birt undir CC BY-NC-SA 2.0 leyfi. (Sótt 2.10.2024).
- Rawpixel. (Sótt 2.10.2024).