Í Íslendingasögunum er oft talað um flugumenn. Hvað er þetta orð gamalt í málinu og hver er upphafleg merking orðsins flugumaður?Orðið flugumaður þekkist þegar í fornum heimildum, til dæmis Flateyjarbók, Víga-Glúms sögu og fleiri ritum. Í orðabók Johans Fritzners yfir forna málið (1886: A-Hj: 446) er skýringin (í minni þýðingu): maður sem lætur telja sig á að sækjast eftir lífi einhvers eða svíkja hann fyrir launagreiðslu eða loforð um slíka greiðslu.

Í fornu máli var fluga annars vegar notað um skordýrið en hins vegar í merkingunni ‘agn, tálbeita’. Í síðari alda máli er merkingin aðeins víðari, það er ‘njósnari’ en einnig þekkist merkingin ‘launmorðingi’.
- Frirzner, Johan. 1886. Ordbog over det gamle norske Sprog. Første Bind A-Hj. Den norske Forlagsforening, Kristiania.
- ÍO: Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. A-L. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
- Deviantart.com. Birt undir Creative Commons Attribution-NonCommercial-NoDerivs 3.0 Unported leyfi. (Sótt 17.1.2024).