Er vitað hvaðan orðið „stimamjúkur“ er dregið og hvað er „stimi“ í þessu orði?Orðið stimamjúkur merkir ‘kurteis, snúningslipur, liðugur, mjúkmáll’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:961). Hann taldi að upphafleg merking hefði tengst glímu og verið ‘glímulipurð, liðleiki’, og að forliðurinn þá tengst nafnorðinu stím ‘glíma, bardagi’. Hann taldi einkennilegt að orðið stimamjúkur virðist hafa i en ekki í í stofni en á því hafði hann enga skýringu og enga hef ég fundið. Engin dæmi voru um nafnorðið stimi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 24.12. 2023).
- Johannes Vermeer - A Lady and Two Gentlemen - WGA24639.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 9.1.2024).