Glögg mynd felst í áreiðanlegri framsetningu á áhrifum viðskipta, öðrum atburðum og skilyrðum í samræmi við skilgreiningar og reglur um skráningu eigna, skulda, tekna og gjalda sem fram koma í lögum þessum, reglugerðum og settum reikningsskilareglum.En hvað er glögg mynd og hvað ber að hafa í huga þegar gefa á glögga mynd af rekstri fyrirtækja? Nokkur atriði er hægt að hafa til hliðsjónar við gerð reikningsskila til að gefa þeim sem vilja skoða ársreikninga glögga mynd af rekstri viðkomandi fyrirtækis. Eftirfarandi atriði mætti skilgreina sem gæðasérkenni reikningsskila og gagnlegar fyrir haghafa við ákvörðunartöku. Mikilvægi upplýsinga, það þýðir að upplýsingar ættu að hafa forspárgildi (hjálpa notendum að gera framtíðarspár), staðfestingargildi (staðfesta eða leiðrétta fyrri væntingar) og/eða mikilvægi (hafa áhrif á efnahagslegar ákvarðanir). Viðeigandi upplýsingar hjálpa notendum að skilja liðna atburði og taka upplýstar ákvarðanir um framtíðaraðgerðir. Samanburðarhæfi vísar til hæfileikans til að bera saman upplýsingar mismunandi tímabila. Samanburðarhæfi ársreiknings gefur notendum kleift að gera marktækan samanburð á milli fyrirtækja, atvinnugreina eða tímabila og að greina betur og taka ákvarðanir með því að bera kennsl á þróun og mynstur. Til að ná fram samanburðarhæfi eru svipuð atriði sett fram á samræmdan hátt þannig að notendur geti auðveldlega borið þau saman. Skiljanleiki vísar til getu notenda til að skilja og túlka upplýsingarnar sem settar eru fram í reikningsskilum. Fjárhagsupplýsingar skulu settar fram á skýran, hnitmiðaðan og skipulagðan hátt þannig að þær séu auðskiljanlegar ætluðum notendum. Þetta þýðir að nota skal einfalt mál í stað tæknilegs hrognamáls, veita skýringar eða skilgreiningar á flóknum hugtökum og setja fram upplýsingar á rökréttan hátt. Markmiðið er að tryggja að einstaklingar með sæmilega þekkingu á viðskiptum og atvinnustarfsemi geti skilið reikningsskilin sem best.

Forsíða ársreiknings Ford-bílaframleiðandans frá árinu 1970. Erlendis þekkist að fyrirtæki fjalli um framtíðaráform í ársreikningum en slíkt er varla merkjalengt íslenskum ársreikningum.
- Ford Motor Company of Canada Annual Report 1970 | Ford of Ca… | Flickr. (Sótt 16.10.2023). Myndina tók Michael og hún er birt undir leyfinu CC BY-NC-SA 2.0 Deed | Attribution-NonCommercial-ShareAlike 2.0 Generic | Creative Commons