Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í svari Vísindavefs um dýrin með stærstu tungurnar er sagt að beljakinn hafi mögulega verið með langa tungu. Hvernig dýr var beljakinn?
Beljakar (Paracheratherium, hafa líka verið nefndir Indricotherium) voru risavaxin spendýr af ættbálki Perissodactyla, eins og meðal annars núlifandi nashyrningar. Þeir voru með allra stærstu landdýrum sem reikað hafa um á jörðinni og lifðu í Mið- og Austur-Evrasíu á því tímabili jarðsögunnar sem nefnt er ólígósen (fyrir 34-23 milljónum ára).
Stærð beljaka (þriðj frá vinstri) í samanburði við nokkur af stærstu landdýrum heims, núlifandi og útdauð.
Fyrstu minjar um þessa skepnu fundust árið 1846 á svæði sem kallast Balukistan og tilheyrir nú Pakistan, en þær voru ekki greindar á þeim tíma. Í kjölfar fleiri beinafunda á svipuðum slóðum snemma á 20. öldinni var skepnan fyrst greind sem útdauður nashyrningur af ættkvíslinni Aceratherium en svo í ættkvíslina Paraceratherium sem útleggst sem „nær hornlaus skepna“. Síðan þá hafa beinaleifar beljaka fundist á svæði sem nær allt frá Balkanskaga í Austur-Evrópu til Kína.
Margt er á huldu um þessa miklu skepnu þar sem minjar um hana eru nokkuð brotakenndar og ekki hefur fundist heilleg beinagrind. Til dæmis eru fornlífsfræðingar alls ekki á einu máli um hversu margar tegundir er hægt að skilgreina út frá þekktum beinaleifum, sumir hafa talið tegundirnar vera fjórar, aðrir halda að þær hafi verið sex og jafnvel hefur verið deilt um hvort í raun sé um eina að fleiri ættkvíslir að ræða. Ekki er vitað nákvæmlega hversu stórt dýrið var en talið er að það hafi verið rúmir fjórir og hálfur metri á herðakamb, tæpir sjö og hálfur metri að lengd (þar af hafi hálsinn verið tveir til tveir og hálfur metri) og allt að 15-20 tonn að þyngd, þótt meðalþyngd hafi mögulega verið um 11 tonn. Dýrafræðingar hafa lengi talið að hámarksþyngd landspendýra sé um 20 tonn og beljakar fóru nærri þeirri stærð. Ekki er ljóst hvers vegna hámarksstærð landspendýra er minni en graseðlanna, stærstu landdýra sem uppi hafa verið, en mögulega liggur það í vistfræðilegum þáttum frekar en lífeðlisfræðilegum.
Höfuðkúpa af beljaka af tegundinni Paraceratherium transouralicum. Stærsta þekkta höfuðkúpa beljaka er um 1,3 metrar að lengd.
Talið er að lífshættir beljaka hafi verið áþekkir lífsháttum fíla nútímans. Þeir hafi haldið til á stjaktráarsléttum og étið runnagróður og mjúk lauf af hávöxnum trjám, líkt og gíraffar og fílar í dag. Tilgáta er um að þeir hafi, líkt og fílar, lifað í litlum hjörðum kúa og kálfa. Önnur tilgáta um beljaka er sú að þeir hafi ferðast um á nóttunni og hafi það verið viðbragð við hita, enda skrokkmiklar skepnur sem líklega áttu erfitt með að kæla sig. Allt varðandi lífshætti þeirra eru þó getgátur byggðar á takmörkuðum gögnum og hegðun fjarskyldra ættingja og stórra dýra sem uppi eru í dag.
Beljakar hafa ekki átt sér marga óvini. Rándýr sem deildu heimkynnum með þeim voru ekki stórvaxin, kannski á stærð við úlfa, og stafaði ekki mikil ógn af þeim. Þessi rándýr hafa þó getað verið skeinuhætt afkvæmum beljakanna, líkt og hægt er að sjá á lendum Afríku í dag þar sem ljón herja á ungviði fíla og nashyrninga. Vísindamenn hafa greint stór bitför á beini beljaka sem fannst í árfarvegi í fljótinu Bugti í Pakistan sem bendir til þess að hann hafi orðið fyrir árás af risavöxnum löngu útdauðum krókódíl, líklega Astorgosuchus sem talið er að hafi náð allt að 8 metra lengd. Þetta gefur vísbendingu um að beljökum, alla vega ungviði og veikum eða særðum dýrum, hafi getað stafað hætta af þessum risakrókódílum þegar leiðir þeirra lágu saman.
Paraceratherium transouralicum. Margt er óljóst um bæði nákvæma stærð og útlit beljaka.
Ekki er ljóst hvers vegna beljakar dóu út eftir 11 miljón ára jarðvist en sennilega eru margþættar ástæður fyrir því. Nokkrum kenningum hefur verið varpað fram sem snúast til dæmis um þróunarfræðilega sérhæfingu, loftslagsbreytingar sem leiddi til breytinga á gróðurfari, hæga tímgun og innrás nýrra tegunda í vistkerfi þeirra. Allt getur þetta mögulega hafa átt sinn þátt í aldauða beljakanna fyrir um 23 miljónum árum síðan.
Heimildir og myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr var beljaki og hvenær var hann uppi?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2024, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85523.
Jón Már Halldórsson. (2024, 23. apríl). Hvers konar dýr var beljaki og hvenær var hann uppi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85523
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr var beljaki og hvenær var hann uppi?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2024. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85523>.