Hvers vegna eru lóðir (land undir hús) nefndar eftir, að því er virðist, verkfæri til að mæla þyngd. Hver er uppruni orðsins lóð sem land undir hús? Til gamans má nefna að spyrjandi vinnur við að afmarka jarðir, lönd og lóðir Íslands.Nafnorðið lóð er til í tveimur kynjum, kvenkyni og hvorugkyni, og í fleiri en einni merkingu. Sem kvenkynsorð merkir það 1. ‘afrakstur, ávöxtur, landspilda, land ætlað undir hús eða önnur mannvirki’ og 2. ‘fiskilína, strengur með mörgum önglum á’. Merking 2 þekkist frá 16. öld. Sem hvorugkynsorð er merkingin ‘stykki úr málmi af tiltekinni þyngd, tiltekin þyngdareining’ og þekkist frá 16. öld en í eldra máli og úreltu ‘hlutur, hlutskipti’. Í merkingunni ‘eðlunarfýsn og -læti í tíkum’ er orðið bæði notað í kvenkyni og hvorugkyni.[1]

Kvenkynsorðið lóð í merkingunni landspilda er líklega skylt orðinu láð ‘land, landareign’ og á ekki skylt við hvorugkynsorðið lóð sem þyngdareiningu. Myndin sýnir uppdrátt af Reykjavík eftir Sæmund Magnússon Hólm, frá árinu 1785.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
- Íslandskort.is. (Sótt 4.01.2024).