Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtakið „hvalreki“ merkir meðal annars mikið og óvænt happ. Í tengslum við spurninguna hér fyrir ofan vísar það til (viðbótar)tekna sem fellur fyrirtæki eða einstaklingi í skaut án þess að þeir aðilar hafi aðhafst nokkuð sérstakt til að skapa þær viðbótartekjur. Hvalrekaskattur er þýðing á ensku orðunum „windfall tax“ og „windfall levy“ sem notuð eru um skatta eða álögur sem stundum er lagður á í slíkum tilfellum, til dæmis „Energy Profits Levy“ og „Electricity Generator Levy“ sem bresk stjórnvöld hafa tímabundið lagt á orkufyrirtæki þar í landi.[1]
Dæmi um hvalrekaskatt er skattur sem lagður hefur verið á hagnað banka vegna mikillar verðbólgu og hárra vaxta á Ítalíu og í fleiri löndum. Tilgangurinn er að afla fjár til að létta undir með þeim sem verðbólga og vaxatahækkanir bitna mest á.
Á tímum stórstyrjalda hækkar verðlag á nauðsynjum enda eftirspurn óbreytt en framboð takmarkað, til dæmis vegna flutningatakmarkana sem styrjöldin kann að hafa í för með sér. Í kjölfarið eykst hagnaður fyrirtækja. Á tímum fyrri og seinni heimsstyrjaldarinnar og á tímum Kóreustríðsins var sumstaðar brugðist við með því að leggja á hvalrekaskatt. Beinir skattar (e. fiscal taxes), þar með taldir umræddir hvalrekaskattar, skipta reyndar litlu máli fyrir heildarmyndina þegar fjármögnun umræddra styrjalda er skoðuð.[2] Styrjaldir eru fjármagnaðar beint með lánsfé og óbeint með peningaprentun og verðbólgu. Hlutverk hvalrekaskatta er fyrst og fremst af siðferðislegum og félagslegum toga. Það virðist stríða gegn siðferðiskennd margra að einstaklingar eða fyrirtæki hagnist á styrjaldarátökum á sama tíma og allur almenningur upplifir dýrtíð og vöruskort, að margir falli, tapi eigum sínum eða eigi um sárt að binda af völdum styrjaldarinnar. Fréttir af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja vegna styrjaldarinnar geta valdið ólgu meðal almennings. Líta má á álagningu hvalrekaskatts sem viðleitni stjórnvalda til að koma þeim skilaboðum til almennings að: „við erum öll í þessu saman“.
Uppruni orðsins
Eins og áður sagði er íslenska orðið hvalrekaskattur þýðing á ensku orðunum „windfall tax“ og „windfall levy“. Enska orðið „windfall“ er notað um trjávið eða önnur verðmæti (ávexti) sem vindur hefur feykt af einum stað á annan, til dæmis frá eignarlandi yfir á almenning.[3] Bein þýðing orðsins væri því „fokgóss“ eða „fokdreifar“. Íslenska tilvísunin til hvalreka á sér sögulegar skýringar, enda fjallað um eignarhald hvals sem rekur á fjöru í elstu lagasöfnum íslenskum.
Elstu dæmi um íslenska orðið hvalrekaskattur á Tímarit.is er að finna í aðsendri grein eftir Guðmund Franklín Jónsson í Fréttablaðinu 4. mars 2016 undir fyrirsögninni Hvalrekaskattur[4] og annað dæmi eldra sem tengist umfjöllun um kosningastefnuskrá Dögunar árið 2013.[5] Forstjóri Reita notar orðið í annarri merkingu í viðtali við Viðskiptablaðið 18. október 2018.
Hvalreki - í orðsins fyllstu merkingu - var óvænt og mikil búbót fyrr á tímum.
Samkvæmt vefleit eykst notkun orðsins á Íslandi mjög árið 2022 í kjölfar þess að stjórnvöld í Bretlandi leggja „Energy Profits Levy“ á fyrirtæki sem framleiddu olíu og gas í breska hluta Norðursjávar í maí það ár.[6] The Guardian rekur sögu hvalrekaskatta í Bretlandi í ítarlegri grein árið 2022.[7] Þar kemur fram að stjórn Verkamannaflokksins undir forystu Clement Attlee hafi tímabundið lagt allt að 100% skatt á umframhagnað ákveðinna fyrirtækja, fyrst eftir seinna stríð („Excess profit tax“). Síðar hafa breskar ríkisstjórnir, bæði undir stjórn Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins, gripið til tímabundinna ráðstafana af svipuðum toga. Oft er vitnað til þess að ríkisstjórn Margretar Thatcher hafi lagt slíkan skatt á banka árið 1981 og olíufyrirtæki árið 1982.
Skattandlag
Skattandlag hvalrekaskatta er af ýmsum toga. Styrjaldarskattarnir sem fyrr voru nefndir voru oftast í formi viðbótarskatts á hagnað fyrirtækja í völdum atvinnugreinum. Hvalrekaskattur á olíufyrirtæki í Bandaríkjunum á 9. áratug síðustu aldar var kenndur við hagnað, en var í raun vörugjald sem lagt var á hverja olíutunnu sem framleidd var.[8] Bankaskattur sem hefur verið til umræðu á Ítalíu er ekki lagður á hagnað heldur er um að ræða 40% skatt á vaxtamunartekjur á árunum 2022 eða 2023 sem eru umfram samsvarandi tekjur árið 2021.[9] Eftir mótmæli bankanna tilkynnti ítalska ríkisstjórnin áform um að setja þak á greiðslurnar samsvarandi 0,1% af heildareignum viðkomandi banka.
Líta má á fund olíu í Norðursjó sem hvalreka sem tekur 50-100 ár í úrvinnslu. Þær þjóðir sem eiga þann „hvalreka“ skattleggja olíuvinnslu umfram það sem gildir um annan fyrirtækjarekstur. Í Noregi borga vinnslufyrirtækin 22% skatt á hagnað eins og önnur fyrirtæki og auk þess aukaskatt á þann hagnað sem þá er eftir að upphæð 71,8%. Virkur hagnaðarskattur þeirra fyrirtækja er því 78%. Nokkur munur er á skilgreiningum hagnaðar eftir því hvort verið er að reikna almenna hagnaðarskattinn eða sérskattinn.[10]
Ráðstöfun tekna
Tekjum af hvalrekasköttum sem stríðandi ríkisstjórnir leggja á á styrjaldartímum er varið til styrjaldarrekstrarins eins og áður var rakið. Hvalrekasköttum sem til dæmis ítölsk og bresk stjórnvöld leggja nú á banka og orkufyrirtæki er ætlað að standa straum af kostnaði af stuðningsaðgerðum við þá sem farið hafa illa út úr hækkun vaxta og hækkun orkuverðs í kjölfar faraldurs COVID-19 og vegna áhrifa styrjaldarinnar í Úkraínu. Norðmenn leggja tekjur af olíuvinnslusköttum í sérstakan sjóð sem kallast Eftirlaunasjóður ríkisins, erlendis. Þeim sjóði er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði norska ríkisins af eftirlaunum norskra þegna í framtíðinni.
Tilvísanir:
Þórólfur Matthíasson. „Hvað er hvalrekaskattur og af hverju er hann settur á?“ Vísindavefurinn, 17. ágúst 2023, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85359.
Þórólfur Matthíasson. (2023, 17. ágúst). Hvað er hvalrekaskattur og af hverju er hann settur á? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85359
Þórólfur Matthíasson. „Hvað er hvalrekaskattur og af hverju er hann settur á?“ Vísindavefurinn. 17. ágú. 2023. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85359>.