
Dæmi um hvalrekaskatt er skattur sem lagður hefur verið á hagnað banka vegna mikillar verðbólgu og hárra vaxta á Ítalíu og í fleiri löndum. Tilgangurinn er að afla fjár til að létta undir með þeim sem verðbólga og vaxatahækkanir bitna mest á.
Uppruni orðsins
Eins og áður sagði er íslenska orðið hvalrekaskattur þýðing á ensku orðunum „windfall tax“ og „windfall levy“. Enska orðið „windfall“ er notað um trjávið eða önnur verðmæti (ávexti) sem vindur hefur feykt af einum stað á annan, til dæmis frá eignarlandi yfir á almenning.[3] Bein þýðing orðsins væri því „fokgóss“ eða „fokdreifar“. Íslenska tilvísunin til hvalreka á sér sögulegar skýringar, enda fjallað um eignarhald hvals sem rekur á fjöru í elstu lagasöfnum íslenskum. Elstu dæmi um íslenska orðið hvalrekaskattur á Tímarit.is er að finna í aðsendri grein eftir Guðmund Franklín Jónsson í Fréttablaðinu 4. mars 2016 undir fyrirsögninni Hvalrekaskattur[4] og annað dæmi eldra sem tengist umfjöllun um kosningastefnuskrá Dögunar árið 2013.[5] Forstjóri Reita notar orðið í annarri merkingu í viðtali við Viðskiptablaðið 18. október 2018.
Hvalreki - í orðsins fyllstu merkingu - var óvænt og mikil búbót fyrr á tímum.
Skattandlag
Skattandlag hvalrekaskatta er af ýmsum toga. Styrjaldarskattarnir sem fyrr voru nefndir voru oftast í formi viðbótarskatts á hagnað fyrirtækja í völdum atvinnugreinum. Hvalrekaskattur á olíufyrirtæki í Bandaríkjunum á 9. áratug síðustu aldar var kenndur við hagnað, en var í raun vörugjald sem lagt var á hverja olíutunnu sem framleidd var.[8] Bankaskattur sem hefur verið til umræðu á Ítalíu er ekki lagður á hagnað heldur er um að ræða 40% skatt á vaxtamunartekjur á árunum 2022 eða 2023 sem eru umfram samsvarandi tekjur árið 2021.[9] Eftir mótmæli bankanna tilkynnti ítalska ríkisstjórnin áform um að setja þak á greiðslurnar samsvarandi 0,1% af heildareignum viðkomandi banka. Líta má á fund olíu í Norðursjó sem hvalreka sem tekur 50-100 ár í úrvinnslu. Þær þjóðir sem eiga þann „hvalreka“ skattleggja olíuvinnslu umfram það sem gildir um annan fyrirtækjarekstur. Í Noregi borga vinnslufyrirtækin 22% skatt á hagnað eins og önnur fyrirtæki og auk þess aukaskatt á þann hagnað sem þá er eftir að upphæð 71,8%. Virkur hagnaðarskattur þeirra fyrirtækja er því 78%. Nokkur munur er á skilgreiningum hagnaðar eftir því hvort verið er að reikna almenna hagnaðarskattinn eða sérskattinn.[10]Ráðstöfun tekna
Tekjum af hvalrekasköttum sem stríðandi ríkisstjórnir leggja á á styrjaldartímum er varið til styrjaldarrekstrarins eins og áður var rakið. Hvalrekasköttum sem til dæmis ítölsk og bresk stjórnvöld leggja nú á banka og orkufyrirtæki er ætlað að standa straum af kostnaði af stuðningsaðgerðum við þá sem farið hafa illa út úr hækkun vaxta og hækkun orkuverðs í kjölfar faraldurs COVID-19 og vegna áhrifa styrjaldarinnar í Úkraínu. Norðmenn leggja tekjur af olíuvinnslusköttum í sérstakan sjóð sem kallast Eftirlaunasjóður ríkisins, erlendis. Þeim sjóði er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði norska ríkisins af eftirlaunum norskra þegna í framtíðinni. Tilvísanir:- ^ What is the windfall tax on oil and gas companies and how much do they pay? (2023, 1. ágúst). BBC News. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Mulder, N. (2018, 8. febrúar). War Finance. 1914-1918-online. International Encyclopedia of the First World War. (Sótt 16.8.2023).
- ^ windfall (n.). Online Etymology Dictionary. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Guðmundur Franklín Jónsson. (2016, 4. mars). Hvalrekaskattur. Fréttablaðið. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Álfheiður Eymarsdóttir og Margrét Tryggvadóttir. (2013, 24. apríl). Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti. Fjarðarpósturinn. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Cooban, A. (2023, 9. júní). The UK will scrap windfall tax on energy firms if prices keep falling. CNN Business. (Sótt 16.3.2023).
- ^ Inman, P. (2022, 26. maí). A brief history of windfall taxes: who used them and why. The Guardian. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Thorndike, J. (2005, 15. nóvember). Historical Perspective: The Windfall Profit Tax -- Career of a Concept. Tax Notes. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Borrelli, S.S. & Kazmin, A. (2023, 8. ágúst). Italy hits banks with surprise windfall tax. Financial Times. (Sótt 16.8.2023).
- ^ Petroleumsskatt. (2023, 11. maí). Norsk Petroleum. (Sótt 16.8.2023).
- Marketmovers.it. (Sótt 16.8.2023).
- Bloated Humpback Whale - Flickr. Höfundur myndar: docentjoyce. Birt undir Creative Commons Attribution 2.0 Generic leyfi. (Sótt 16.8.2023).