Það voru þó einhverjir jákvæðir hlutir fyrir bæjarfélagið sem fylgdu þessum náttúruhamförum. Fyrir gos hafði uppfyllingarefni verið stórt vandamál. Hvergi var efni að fá og þurfti mikið jarðrask til þess að útvega efni. Í gosinu kom upp nægilegt uppfyllingarefni fyrir allar framkvæmdir. Heimaey stækkaði um 2,2 km² í eldgosinu og býður þessi viðbót upp á óteljandi möguleika varðandi framkvæmdir, ferðamennsku og útivist. Hraunið gerði innsiglingu í höfnina enn betri og lokaði á suðaustan-vindinn sem vildi herja á höfnina. Hraunið sem menn héldu að myndi eyðileggja höfnina gerði hana að einni þeirra allra bestu á landinu.Við þetta má bæta að mikil aska fór í það að lengja flugbrautina á Heimaey (sem ella hefði ekki verið hægt), og varminn í kólnandi hrauninu entist í 10 ár sem varmagjafi fyrir hitaveitu bæjarins. Heimildir, frekari fróðleikur og mynd:
- Heimaslóð - Heimaeyjargosið. (Sótt 7.9.2023).
- Ármann Höskuldsson. (2019). Vestmannaeyjar - Íslensk eldfjallavefsjá. (Sótt 7.9.2023).
- File:Vestmannaeyjar Vulkanasche 2.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 13.09.2023). Myndina tók Christian Bickel og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 2.0 Germany — CC BY-SA 2.0 DE