Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 17:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:55 • Sest 04:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:29 • Síðdegis: 24:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:14 • Síðdegis: 17:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 17:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:55 • Sest 04:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:29 • Síðdegis: 24:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:14 • Síðdegis: 17:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er siðferðilega rétt að sádi-arabísk knattspyrnulið sanki að sér bestu knattspyrnumönnum í heimi?

Henry Alexander Henrysson

Þessi spurning vísar til nokkurs sem hefur verið mikið í umræðunni á síðastliðnum árum. „Íþróttaþvottur“ (e. sportwashing) er hluti af siðferðilegum þvottabrögðum (grænþvottur (e. greenwashing) er mögulega þekktasta útgáfan) þar sem aðilar reyna að losna undan gagnrýni á siðferðilegt inntak starfsemi eða stjórnarhátta með því að skreyta sig með dygðugum verkefnum. Almenningur er þannig blekktur um hvað raunverulega á sér stað.

Íþróttir hafa mögulega ekki sérstakt siðferðilegt inntak, en þær geta þó skapað jákvæða ímynd og þannig dregið athygli frá afglöpum og illum vilja í samfélaginu sem þær fara fram í. Lönd með mikinn olíuauð hafa verið mjög áberandi í umræðunni þar sem íþróttum er ætlað að varpa ljóma yfir samfélög. Ástæðan er sú að aðilar sem fylgjast með ástandi mannréttinda hafa verið ákaflega gagnrýnir á hvað á sér stað í þessum löndum og telja að auka þurfi þrýsting frá alþjóðasamfélaginu á stjórnvöld. Fólki er væntanlega í fersku minni mikil umræða í kringum heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Katar 2022. Sú umræða mun aftur blossa upp þegar mótið verður haldið í Sádi-Arabíuárið 2034, ef ástand mannréttindamála hefur ekki skánað fyrir þann tíma.

Spurningin gerir ráð fyrir að knattspyrnulið frá Sádi-Arabíu séu að kaupa upp bestu knattspyrnumenn heims. Fremur mætti segja að liðin sækist eftir heimsþekktum leikmönnum sem oft eru komnar á seinni hluta ferils síns. Samningar eru gjarnan að renna út og fjárfestingin öll í launasamningum. Markmiðið er augljóst. Með því að sækja slíka leikmenn eykst áhugi og fréttflutningur af íþróttaviðburðum í landinu á heimsvísu. Einnig má gera ráð fyrir að áhuginn heima við aukist umtalsvert og aðsókn á leikina batni til muna.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu viðurkenna ekki að íþróttaþvottur eigi sér stað með fjárfestingum í knattspyrnumönnum. Rökin fyrir eyðslunni þar í landi er að fjárfestingin skili sér í hagvexti og ánægju borgaranna. Flestir eru þó á því máli að ástæðan sé fyrst og fremst ímyndarsmíð út á við og að fréttaflutningur af öðru en mannréttindabrotum borgi sig hratt til baka enda felist ákveðin viðurkenning alþjóðasamfélagsins í að fréttir séu fluttar af nafnkunnum knattspyrnumönnum og afrekum þeirra á Arabíuskaganum.

Það sem er mest ámælisvert við allar gerðir siðferðilegra þvottabragða er þegar almenningur fellur fyrir þeirri glansmynd sem dregin er upp. Þeir aðilar sem halda þvottinum gagnrýnislaust að almenningi (fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar) bera í raun mesta siðferðilega ábyrgð.

Hvort allt þetta sé siðferðilega verjandi fer eftir hvernig á málið er litið og að hverjum gagnrýnin beinist. Umræðan hefur einkennst af gagnrýni á knattspyrnumennina sjálfa. Betra er þó að fara varlega í hróp um siðleysi þeirra. Það er býsna íþyngjandi fyrir þá að bera mikla siðferðilega ábyrgð í þessu máli. Starfsævi knattspyrnumanna er stutt og eðlilegt að menn freistist til að taka bestu tilboðunum sem berast.

Sádi-Arabía er land sem flest lönd eiga í viðskiptalegu og stjórnmálalegu sambandi við og því umtalsvert að ætlast til að ungir menn einir axli þá ábyrgð að sýna af sér siðferðisstyrk með því að neita bestu tilboðunum. Þá er einnig erfitt að saka stjórnvöld og yfirmenn knattspyrnumála í Sádi-Arabíu um siðleysi með því að veita stjarnfræðilegum fjármunum í íþróttamál. Fjölmargt annað mikilvægara er gagnrýnivert í landinu. Það helsta sem mætti segja siðferðilegt um notkun fjármunanna er að auðvitað mættu stjórnvöld nota þá til einhvers uppbyggilegra heima við og bæta hag borgaranna í stað þess að dæla peningum í stjarnfræðilegar launagreiðslur einstakra knattspyrnumanna sem komnir eru yfir hápunkt ferils síns.

Ámælisverðast við stöðuna er hvernig lönd sem halda uppi gagnrýni á ástand mannréttindamála í Sádi-Arabíu láta íþróttaþvottinn ganga upp með því að flytja stöðugt fréttir af honum. Ábyrgðin liggur helst hjá þeim aðilum (og hér leika fjölmiðlar stærsta hlutverkið) sem geta ekki setið á sér og vilja stöðugt láta okkur vita af afrekum leikmanna á vellinum og í einkalífinu utan hans. Á meðan fólk sem hefur sitthvað við ástand mannréttindamála að athuga er enn að opna fréttir um knattspyrnuleiki í Sádi-Arabíu eða nýjustu leikmannasamningana er ljóst að kaupin á knattspyrnumönnunum munu halda áfram. Og ef áhuginn fer ekki að skreppa saman er hætt við að óttinn sem kemur fram í spurningunni um að bestu knattspyrnumennirnir endi í Sádi-Arabíu gæti raungerst.

Það er óraunhæft að ætlast til þess að fólk láti stærstu viðburði fram hjá sér fara í nafni bætt siðferðis (til dæmis heimsmeistaramót) en það er vonandi engin knýjandi þörf að fylgjast með fréttum af liði sem enginn styður þótt tiltekinn leikmaður hafi ákveðið að láta svanasöng sinn sem knattspyrnumaður fara fram á velli liðsins. Það sem er mest ámælisvert við allar gerðir siðferðilegra þvottabragða er þegar almenningur fellur fyrir þeirri glansmynd sem dregin er upp. Þeir aðilar sem halda þvottinum gagnrýnislaust að almenningi (fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar) bera í raun mesta siðferðilega ábyrgð.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

24.1.2025

Spyrjandi

Patrik Patriksson

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Er siðferðilega rétt að sádi-arabísk knattspyrnulið sanki að sér bestu knattspyrnumönnum í heimi?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2025, sótt 5. febrúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=85324.

Henry Alexander Henrysson. (2025, 24. janúar). Er siðferðilega rétt að sádi-arabísk knattspyrnulið sanki að sér bestu knattspyrnumönnum í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85324

Henry Alexander Henrysson. „Er siðferðilega rétt að sádi-arabísk knattspyrnulið sanki að sér bestu knattspyrnumönnum í heimi?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2025. Vefsíða. 5. feb. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85324>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er siðferðilega rétt að sádi-arabísk knattspyrnulið sanki að sér bestu knattspyrnumönnum í heimi?
Þessi spurning vísar til nokkurs sem hefur verið mikið í umræðunni á síðastliðnum árum. „Íþróttaþvottur“ (e. sportwashing) er hluti af siðferðilegum þvottabrögðum (grænþvottur (e. greenwashing) er mögulega þekktasta útgáfan) þar sem aðilar reyna að losna undan gagnrýni á siðferðilegt inntak starfsemi eða stjórnarhátta með því að skreyta sig með dygðugum verkefnum. Almenningur er þannig blekktur um hvað raunverulega á sér stað.

Íþróttir hafa mögulega ekki sérstakt siðferðilegt inntak, en þær geta þó skapað jákvæða ímynd og þannig dregið athygli frá afglöpum og illum vilja í samfélaginu sem þær fara fram í. Lönd með mikinn olíuauð hafa verið mjög áberandi í umræðunni þar sem íþróttum er ætlað að varpa ljóma yfir samfélög. Ástæðan er sú að aðilar sem fylgjast með ástandi mannréttinda hafa verið ákaflega gagnrýnir á hvað á sér stað í þessum löndum og telja að auka þurfi þrýsting frá alþjóðasamfélaginu á stjórnvöld. Fólki er væntanlega í fersku minni mikil umræða í kringum heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Katar 2022. Sú umræða mun aftur blossa upp þegar mótið verður haldið í Sádi-Arabíuárið 2034, ef ástand mannréttindamála hefur ekki skánað fyrir þann tíma.

Spurningin gerir ráð fyrir að knattspyrnulið frá Sádi-Arabíu séu að kaupa upp bestu knattspyrnumenn heims. Fremur mætti segja að liðin sækist eftir heimsþekktum leikmönnum sem oft eru komnar á seinni hluta ferils síns. Samningar eru gjarnan að renna út og fjárfestingin öll í launasamningum. Markmiðið er augljóst. Með því að sækja slíka leikmenn eykst áhugi og fréttflutningur af íþróttaviðburðum í landinu á heimsvísu. Einnig má gera ráð fyrir að áhuginn heima við aukist umtalsvert og aðsókn á leikina batni til muna.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu viðurkenna ekki að íþróttaþvottur eigi sér stað með fjárfestingum í knattspyrnumönnum. Rökin fyrir eyðslunni þar í landi er að fjárfestingin skili sér í hagvexti og ánægju borgaranna. Flestir eru þó á því máli að ástæðan sé fyrst og fremst ímyndarsmíð út á við og að fréttaflutningur af öðru en mannréttindabrotum borgi sig hratt til baka enda felist ákveðin viðurkenning alþjóðasamfélagsins í að fréttir séu fluttar af nafnkunnum knattspyrnumönnum og afrekum þeirra á Arabíuskaganum.

Það sem er mest ámælisvert við allar gerðir siðferðilegra þvottabragða er þegar almenningur fellur fyrir þeirri glansmynd sem dregin er upp. Þeir aðilar sem halda þvottinum gagnrýnislaust að almenningi (fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar) bera í raun mesta siðferðilega ábyrgð.

Hvort allt þetta sé siðferðilega verjandi fer eftir hvernig á málið er litið og að hverjum gagnrýnin beinist. Umræðan hefur einkennst af gagnrýni á knattspyrnumennina sjálfa. Betra er þó að fara varlega í hróp um siðleysi þeirra. Það er býsna íþyngjandi fyrir þá að bera mikla siðferðilega ábyrgð í þessu máli. Starfsævi knattspyrnumanna er stutt og eðlilegt að menn freistist til að taka bestu tilboðunum sem berast.

Sádi-Arabía er land sem flest lönd eiga í viðskiptalegu og stjórnmálalegu sambandi við og því umtalsvert að ætlast til að ungir menn einir axli þá ábyrgð að sýna af sér siðferðisstyrk með því að neita bestu tilboðunum. Þá er einnig erfitt að saka stjórnvöld og yfirmenn knattspyrnumála í Sádi-Arabíu um siðleysi með því að veita stjarnfræðilegum fjármunum í íþróttamál. Fjölmargt annað mikilvægara er gagnrýnivert í landinu. Það helsta sem mætti segja siðferðilegt um notkun fjármunanna er að auðvitað mættu stjórnvöld nota þá til einhvers uppbyggilegra heima við og bæta hag borgaranna í stað þess að dæla peningum í stjarnfræðilegar launagreiðslur einstakra knattspyrnumanna sem komnir eru yfir hápunkt ferils síns.

Ámælisverðast við stöðuna er hvernig lönd sem halda uppi gagnrýni á ástand mannréttindamála í Sádi-Arabíu láta íþróttaþvottinn ganga upp með því að flytja stöðugt fréttir af honum. Ábyrgðin liggur helst hjá þeim aðilum (og hér leika fjölmiðlar stærsta hlutverkið) sem geta ekki setið á sér og vilja stöðugt láta okkur vita af afrekum leikmanna á vellinum og í einkalífinu utan hans. Á meðan fólk sem hefur sitthvað við ástand mannréttindamála að athuga er enn að opna fréttir um knattspyrnuleiki í Sádi-Arabíu eða nýjustu leikmannasamningana er ljóst að kaupin á knattspyrnumönnunum munu halda áfram. Og ef áhuginn fer ekki að skreppa saman er hætt við að óttinn sem kemur fram í spurningunni um að bestu knattspyrnumennirnir endi í Sádi-Arabíu gæti raungerst.

Það er óraunhæft að ætlast til þess að fólk láti stærstu viðburði fram hjá sér fara í nafni bætt siðferðis (til dæmis heimsmeistaramót) en það er vonandi engin knýjandi þörf að fylgjast með fréttum af liði sem enginn styður þótt tiltekinn leikmaður hafi ákveðið að láta svanasöng sinn sem knattspyrnumaður fara fram á velli liðsins. Það sem er mest ámælisvert við allar gerðir siðferðilegra þvottabragða er þegar almenningur fellur fyrir þeirri glansmynd sem dregin er upp. Þeir aðilar sem halda þvottinum gagnrýnislaust að almenningi (fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar) bera í raun mesta siðferðilega ábyrgð.

Myndir:...