Hvaðan kemur orðið hinsegin? Getur verið að það hafi upprunalega verið hins veginn?Orðið hinsegin er gamalt í málinu og talið vera einhvers konar sambræðingur úr hins vegar og (á) hinn veginn. Í Flateyjarbók frá lokum 14. aldar segir (með nútímastafsetningu): „Konungur leit til hans og mælti: „Hinn veg munum við nú breyta Brandur““ en í öðru handriti sama texta frá 15. öld stendur hinnsegin í stað hinn veg. Orðið var áður skilgreint sem atviksorð í orðabókum en hefur þó lengi einnig verið notað sem (óbeygjanlegt) lýsingarorð, það er látið standa með nafnorði, eins og til dæmis orðin þannig, svona og svoleiðis sem sömuleiðis voru lengst af eingöngu flokkuð sem atviksorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það þó tvær flettur, annars vegar atviksorð og hins vegar lýsingarorð. Aðalmerking orðsins var áður 'á hinn veginn, öðruvísi' og það var oft notað sem andstæða við svona. Í Heimilisritinu 1956 segir: „Sjaldan hef ég heyrt mann grípa fram í frásögn konu sinnar með þessari athugasemd: „Það skeði ekki svona – heldur hinsegin.““ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Það verður væntanlega enginn hörgull á fólki, sem á eftir að benda á, að tiltekið atvik hafi nú ekki verið svona heldur hinsegin.“ En orðið gat líka merkt 'skrýtinn, undarlegur' eða jafnvel 'galinn'. Í Eimreiðinni 1939 segir: „Ertu eitthvað hinsegin, Dísa mín? Hvað heldurðu að hexið segi?“ Í Alþýðublaðinu 1975 segir: „Mér datt fyrst í hug, að nú væri einhver í einhverju ráðuneytinu orðinn eitthvað hinsegin.“

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og kemur til að mynda fyrir í handriti frá 15. öld, að sama texta og er að finna í Flateyjarbók.
- Flateyjarbók – Wikipedia. (Sótt 08.05.15).
Þessi texti birtist upphaflega á vefsíðu höfundar og er birtur hér með góðfúslegu leyfi.