Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerist í Bandaríkjunum ef atkvæði í kjörmannakerfinu standa á jöfnu?

Silja Bára Ómarsdóttir

Spurningarnar í fullri lengd hljóðuðu svona:
Hvað gerist ef forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fá báðir 269 kjörmenn? eða ef annar frambjóðandi vinnur nægilega marga kjörmenn til að koma í veg fyrir að hægt sé að ná 270 kjörmönnum? Hvaða afleiðingar gæti það haft ef báðir forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fengu jafn marga kjörmenn? Það er að segja 269 kjörmenn hvor um sig.

Stutta svarið

Ef enginn fær meirihluta kjörmanna í forsetakosningum í Bandaríkjunum, þá kýs fulltrúadeildin forseta og öldungadeildin varaforseta. Ef þessi staða kæmi upp í kosningunum haustið 2024, þá væru allar líkur á því að Repúblikanar fengju að velja sína frambjóðendur í bæði embættin.

Lengra svar

Eins og flest vita sem fylgjast með kosningum í Bandaríkjunum, þá eru það ekki atkvæði kjósenda sem ráða úrslitum um það hver verður forseti, heldur atkvæði kjörmannanna svokölluðu sem mynda kjörmannaráðið eða Electoral College. Kjörmannaráðið er fastmótað í stjórnarskrá Bandaríkjanna, svo þótt mörgum þyki þetta úreltur og óheppilegur máti til að velja í valdamesta embætti þjóðarinnar, þá er nær ómögulegt að breyta því. Á nærri 250 árum hafa verið gerðar 27 breytingar á stjórnarskránni, það er 27 viðbótarákvæði staðfest. Þar af voru tíu sett samhliða stjórnarskránni á sínum tíma og móta þau svokallaða réttindaskrá, eða Bill of Rights.

Eftir því sem íbúasamsetning í Bandaríkjunum breytist þá hafa atkvæði í kjörmannakerfinu breyst. Þau eru nú 538 og það þarf einfaldan meirihluta, það er 270 atkvæði til að hreppa embættið. En þetta þýðir að atkvæði geta staðið á jöfnu, þannig að hvor af frambjóðendum stóru flokkanna fái 269 atkvæði. Og hvað gerist þá?

Ef það gerist er farið eftir reglum sem finna má í 2. gr. stjórnarskrár Bandaríkjanna, og kemur þá til kasta þingsins.[1] Þess vegna skiptir máli hver fer með völdin þar, þegar (eða ef) svo fer að atkvæði í kjörmannaráðinu séu jöfn. Leiða má að því líkum að framboð Trumps hafi séð fyrir sér að Trump stæði sterkur í þinginu ef þetta ætti sér stað í kosningunum 2024, vegna þess að um haustið 2024 fór framboð hans þess á leit við stjórnvöld í Nebraska að þau myndu breyta úthlutanaðferðum sínum, og úthluta öllum kjörmönnum á grundvelli atkvæða í ríkinu, frekar en að útdeila þeim á grundvelli atkvæða í hverju kjördæmi fyrir sig. Ástæðan fyrir þessu er sú að í Nebraska fellur yfirleitt eitt kjördæmi Demókrötum í vil. Hér fyrir neðan má sjá myndir af algengum spám um útkomu kosninganna árið 2024. Fyrri myndin sýnir stöðuna ef Nebraska úthlutar kjörmönnum á grundvelli kjördæma en sú síðari birtir stöðuna ef kjörmönnum í Nebraska væri úthlutað á grundvelli atkvæða í ríkinu í heild.

Algeng kosningaspá – Nebraska úthlutar kjörmönnum á grundvelli kjördæma.

Algeng kosningaspá – Nebraska úthlutar öllum kjörmönnum á grundvelli atkvæða í ríkinu í heild.

Eins og sjá má leiðir þessi eina litla breyting til þess að atkvæði í kjörmannaráðinu standa á jöfnu og með því myndi koma til kasta þingsins að velja forseta og varaforseta. Þess má geta að stjórnvöld í Nebraska tóku ekki undir kröfu Trumps og munu því úthluta kjörmönnum eins og þau hafa gert undanfarið.[2] Það þýðir að líkurnar á jafntefli eru mun minni en ella.

En upprunalega spurningin snerist ekki um það hvort jafntefli gæti orðið, heldur hvað myndi gerast ef svo færi. Þetta svar á einnig við um spurninguna: hvað gerist ef enginn fær hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu, vegna þess að það er mögulegt að frambjóðandi úr svokölluðum þriðja flokki gæti hreppt nokkur atkvæði og ef nógu tæpt væri á milli frambjóðenda gæti verið að enginn skýr sigurvegari stæði uppi.

Fái enginn frambjóðandi hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu er það þingið sem velur sigurvegarann. Fulltrúadeildin, þar sem sitja 435 fulltrúar, velur forsetann. Það er þó ekki vægi flokkanna sem skiptir öllu máli, heldur fær hvert ríki eitt atkvæði, svo það eru 50 atkvæði undir og því þarf 26 atkvæði til að bera sigur úr býtum. Fulltrúar ríkjanna mega velja milli þeirra þriggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði, svo að í kosningunum 2024 mætti hugsa sér að Jill Stein, frambjóðandi Græningja, eða Cornel West, frambjóðandi Flokks fólksins, gætu fengið einhver atkvæði. Öldungadeildin velur svo varaforsetann og má aðeins velja milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði í almennum kosningum. Í öldungadeildinni sitja 100 öldungadeildarþingmenn og hver og einn þeirra fær eitt atkvæði svo það þarf 51 atkvæði til að sigra þar. Athugið að hér getur auðveldlega komið upp sú staða að deildirnar velji fulltrúa ólíkra flokka, og í kosningunum 2024 gæti því útkoman til dæmis verið Trump-Walz eða Harris-Vance.

Hér þarf svo að hafa í huga enn eitt flækjustigið, sem er að þótt atkvæðagreiðsla á kjördag bendi til þess að það verði jafnt í kjörmannaráðinu, þá þarf ekki svo að vera. Svokallaðir svikulir kjörmenn (e. faithless electors) eru ekki algengir, en birtast þó alltaf af og til. Einungis um helmingur ríkja krefur kjörmenn um að fylgja vilja almennings,[3] og til dæmis þegar Hillary Clinton atti kappi við Donald Trump árið 2016, þá fóru sjö kjörmenn gegn vilja kjósenda í sínum heimaríkjum. Fimm þeirra kusu ekki Clinton og tveir kusu ekki Trump.[4] Þar sem ekki munaði svo mjóu í þeim kosningum breytti þetta ekki útkomunni, Trump var með öruggan meirihluta í kjörmannaráðinu.

Ef atkvæði í kjörmannaráðinu standa á jöfnu kemur til kasta þingsins að velja forseta og varaforseta.

Þegar þetta er skrifað, í nóvember 2024, er áætlað að kjörmannaráðið komi saman þann 17. desember 2024. Þá fyrst kemur endanlega í ljós hvernig atkvæðin falla í ráðinu. Ef staðan þá verður sú að enginn fær meirihluta atkvæða þarf að bíða fram yfir áramót eftir úrslitum, því það er þingið sem verður kjörið í nóvember 2024, ekki sitjandi þing, sem fær að ráða. Þetta þing kemur saman þann 6. janúar 2025, tveimur vikum áður en nýr forseti verður settur í embætti í Bandaríkjunum. Eitt fyrsta verkefni þingsins er að staðfesta útkomu kosninganna, hvort sem hún er ljós eða ekki. Sé enginn meirihluti til staðar kemur sumsé til atkvæðagreiðslu eins og lýst var hér að framan.

Ef kosið væri á yfirstandandi þingi, þá eru Repúblikanar í meirihluta í 26 þingnefndum af 50 í fulltrúadeildinni, í tveimur eru hlutföllin jöfn, og Demókratar hafa meirihluta í 22. Miðað við kannanir í byrjun nóvember 2024 er líklegra að Repúblikanar bæti við sig þar, þótt þeir haldi ekki endilega meirihlutanum. Það yrði því að teljast líklegt að Repúblikanar myndu velja forsetann. Demókratar hafa í aðdraganda kosninga meirihluta í öldungadeildinni, en líkur eru taldar á því að þeir missi hann í kosningunum. Því er líklegra að Repúblikanar myndu líka velja varaforsetann, komi til þess að enginn fái hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu.

Tilvísanir:
  1. ^ The Constitution of the United States: A Transcription - National Archives. (Sótt 4.11.2024).
  2. ^ A Republican push to change how Nebraska awards its electoral votes stalls: NPR. (Sótt 4.11.2024).
  3. ^ About the Electors - National Archives. (Sótt 4.11.2024).
  4. ^ 2016 Electoral College Results - National Archives. (Sótt 4.11.2024).

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:

Höfundur

Silja Bára Ómarsdóttir

prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.11.2024

Spyrjandi

Patrik Patriksson, Björn Gústav Jónsson

Tilvísun

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hvað gerist í Bandaríkjunum ef atkvæði í kjörmannakerfinu standa á jöfnu?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2024, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84628.

Silja Bára Ómarsdóttir. (2024, 5. nóvember). Hvað gerist í Bandaríkjunum ef atkvæði í kjörmannakerfinu standa á jöfnu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84628

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hvað gerist í Bandaríkjunum ef atkvæði í kjörmannakerfinu standa á jöfnu?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2024. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84628>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist í Bandaríkjunum ef atkvæði í kjörmannakerfinu standa á jöfnu?
Spurningarnar í fullri lengd hljóðuðu svona:

Hvað gerist ef forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fá báðir 269 kjörmenn? eða ef annar frambjóðandi vinnur nægilega marga kjörmenn til að koma í veg fyrir að hægt sé að ná 270 kjörmönnum? Hvaða afleiðingar gæti það haft ef báðir forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fengu jafn marga kjörmenn? Það er að segja 269 kjörmenn hvor um sig.

Stutta svarið

Ef enginn fær meirihluta kjörmanna í forsetakosningum í Bandaríkjunum, þá kýs fulltrúadeildin forseta og öldungadeildin varaforseta. Ef þessi staða kæmi upp í kosningunum haustið 2024, þá væru allar líkur á því að Repúblikanar fengju að velja sína frambjóðendur í bæði embættin.

Lengra svar

Eins og flest vita sem fylgjast með kosningum í Bandaríkjunum, þá eru það ekki atkvæði kjósenda sem ráða úrslitum um það hver verður forseti, heldur atkvæði kjörmannanna svokölluðu sem mynda kjörmannaráðið eða Electoral College. Kjörmannaráðið er fastmótað í stjórnarskrá Bandaríkjanna, svo þótt mörgum þyki þetta úreltur og óheppilegur máti til að velja í valdamesta embætti þjóðarinnar, þá er nær ómögulegt að breyta því. Á nærri 250 árum hafa verið gerðar 27 breytingar á stjórnarskránni, það er 27 viðbótarákvæði staðfest. Þar af voru tíu sett samhliða stjórnarskránni á sínum tíma og móta þau svokallaða réttindaskrá, eða Bill of Rights.

Eftir því sem íbúasamsetning í Bandaríkjunum breytist þá hafa atkvæði í kjörmannakerfinu breyst. Þau eru nú 538 og það þarf einfaldan meirihluta, það er 270 atkvæði til að hreppa embættið. En þetta þýðir að atkvæði geta staðið á jöfnu, þannig að hvor af frambjóðendum stóru flokkanna fái 269 atkvæði. Og hvað gerist þá?

Ef það gerist er farið eftir reglum sem finna má í 2. gr. stjórnarskrár Bandaríkjanna, og kemur þá til kasta þingsins.[1] Þess vegna skiptir máli hver fer með völdin þar, þegar (eða ef) svo fer að atkvæði í kjörmannaráðinu séu jöfn. Leiða má að því líkum að framboð Trumps hafi séð fyrir sér að Trump stæði sterkur í þinginu ef þetta ætti sér stað í kosningunum 2024, vegna þess að um haustið 2024 fór framboð hans þess á leit við stjórnvöld í Nebraska að þau myndu breyta úthlutanaðferðum sínum, og úthluta öllum kjörmönnum á grundvelli atkvæða í ríkinu, frekar en að útdeila þeim á grundvelli atkvæða í hverju kjördæmi fyrir sig. Ástæðan fyrir þessu er sú að í Nebraska fellur yfirleitt eitt kjördæmi Demókrötum í vil. Hér fyrir neðan má sjá myndir af algengum spám um útkomu kosninganna árið 2024. Fyrri myndin sýnir stöðuna ef Nebraska úthlutar kjörmönnum á grundvelli kjördæma en sú síðari birtir stöðuna ef kjörmönnum í Nebraska væri úthlutað á grundvelli atkvæða í ríkinu í heild.

Algeng kosningaspá – Nebraska úthlutar kjörmönnum á grundvelli kjördæma.

Algeng kosningaspá – Nebraska úthlutar öllum kjörmönnum á grundvelli atkvæða í ríkinu í heild.

Eins og sjá má leiðir þessi eina litla breyting til þess að atkvæði í kjörmannaráðinu standa á jöfnu og með því myndi koma til kasta þingsins að velja forseta og varaforseta. Þess má geta að stjórnvöld í Nebraska tóku ekki undir kröfu Trumps og munu því úthluta kjörmönnum eins og þau hafa gert undanfarið.[2] Það þýðir að líkurnar á jafntefli eru mun minni en ella.

En upprunalega spurningin snerist ekki um það hvort jafntefli gæti orðið, heldur hvað myndi gerast ef svo færi. Þetta svar á einnig við um spurninguna: hvað gerist ef enginn fær hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu, vegna þess að það er mögulegt að frambjóðandi úr svokölluðum þriðja flokki gæti hreppt nokkur atkvæði og ef nógu tæpt væri á milli frambjóðenda gæti verið að enginn skýr sigurvegari stæði uppi.

Fái enginn frambjóðandi hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu er það þingið sem velur sigurvegarann. Fulltrúadeildin, þar sem sitja 435 fulltrúar, velur forsetann. Það er þó ekki vægi flokkanna sem skiptir öllu máli, heldur fær hvert ríki eitt atkvæði, svo það eru 50 atkvæði undir og því þarf 26 atkvæði til að bera sigur úr býtum. Fulltrúar ríkjanna mega velja milli þeirra þriggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði, svo að í kosningunum 2024 mætti hugsa sér að Jill Stein, frambjóðandi Græningja, eða Cornel West, frambjóðandi Flokks fólksins, gætu fengið einhver atkvæði. Öldungadeildin velur svo varaforsetann og má aðeins velja milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði í almennum kosningum. Í öldungadeildinni sitja 100 öldungadeildarþingmenn og hver og einn þeirra fær eitt atkvæði svo það þarf 51 atkvæði til að sigra þar. Athugið að hér getur auðveldlega komið upp sú staða að deildirnar velji fulltrúa ólíkra flokka, og í kosningunum 2024 gæti því útkoman til dæmis verið Trump-Walz eða Harris-Vance.

Hér þarf svo að hafa í huga enn eitt flækjustigið, sem er að þótt atkvæðagreiðsla á kjördag bendi til þess að það verði jafnt í kjörmannaráðinu, þá þarf ekki svo að vera. Svokallaðir svikulir kjörmenn (e. faithless electors) eru ekki algengir, en birtast þó alltaf af og til. Einungis um helmingur ríkja krefur kjörmenn um að fylgja vilja almennings,[3] og til dæmis þegar Hillary Clinton atti kappi við Donald Trump árið 2016, þá fóru sjö kjörmenn gegn vilja kjósenda í sínum heimaríkjum. Fimm þeirra kusu ekki Clinton og tveir kusu ekki Trump.[4] Þar sem ekki munaði svo mjóu í þeim kosningum breytti þetta ekki útkomunni, Trump var með öruggan meirihluta í kjörmannaráðinu.

Ef atkvæði í kjörmannaráðinu standa á jöfnu kemur til kasta þingsins að velja forseta og varaforseta.

Þegar þetta er skrifað, í nóvember 2024, er áætlað að kjörmannaráðið komi saman þann 17. desember 2024. Þá fyrst kemur endanlega í ljós hvernig atkvæðin falla í ráðinu. Ef staðan þá verður sú að enginn fær meirihluta atkvæða þarf að bíða fram yfir áramót eftir úrslitum, því það er þingið sem verður kjörið í nóvember 2024, ekki sitjandi þing, sem fær að ráða. Þetta þing kemur saman þann 6. janúar 2025, tveimur vikum áður en nýr forseti verður settur í embætti í Bandaríkjunum. Eitt fyrsta verkefni þingsins er að staðfesta útkomu kosninganna, hvort sem hún er ljós eða ekki. Sé enginn meirihluti til staðar kemur sumsé til atkvæðagreiðslu eins og lýst var hér að framan.

Ef kosið væri á yfirstandandi þingi, þá eru Repúblikanar í meirihluta í 26 þingnefndum af 50 í fulltrúadeildinni, í tveimur eru hlutföllin jöfn, og Demókratar hafa meirihluta í 22. Miðað við kannanir í byrjun nóvember 2024 er líklegra að Repúblikanar bæti við sig þar, þótt þeir haldi ekki endilega meirihlutanum. Það yrði því að teljast líklegt að Repúblikanar myndu velja forsetann. Demókratar hafa í aðdraganda kosninga meirihluta í öldungadeildinni, en líkur eru taldar á því að þeir missi hann í kosningunum. Því er líklegra að Repúblikanar myndu líka velja varaforsetann, komi til þess að enginn fái hreinan meirihluta í kjörmannaráðinu.

Tilvísanir:
  1. ^ The Constitution of the United States: A Transcription - National Archives. (Sótt 4.11.2024).
  2. ^ A Republican push to change how Nebraska awards its electoral votes stalls: NPR. (Sótt 4.11.2024).
  3. ^ About the Electors - National Archives. (Sótt 4.11.2024).
  4. ^ 2016 Electoral College Results - National Archives. (Sótt 4.11.2024).

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:...