Við hjónin höfum fylgst með fuglalífi á Álftanesinu, ekki síst viðkomu margæsa á vorin og aftur á haustin. Það komu allstórir flokkar margæsa í vor en óvenjulega fáir í haust frá varpstöðunum. Kunnið þið einhvern frekari deili á þessu, eða misstum við bara af þessu? Hversu stór er stofn margæsa?Í stuttu máli þá er talið að stofn margæsa sem fer um Ísland að hausti á leið frá varpstöðvum að vetrarstöðvum sé um 40.000 fuglar. Höfundur fann engar upplýsingar um að óvenju fáar margæsir hafi haft viðdvöl á Íslandi haustið 2022 en það útilokar þó ekki að slíkt hafi verið raunin.
lítil „svört“ gæs, mun minni en helsingi og minnsta gæsin sem sést á Íslandi. Hefur sótsvart höfuð, háls og bringu, hvítar rákir á hálshliðum og dökkt brúngrátt bak og vængi. Kviður og síður eru ljósgrá, aftanverðar síður rákóttar. Ungfugl er án ráka á hálshliðum og gráleitur á síðum.Margæsir verpa í heimskautalöndunum nánast allt í kringum norðurhvel jarðar. Þær eru oft greindar í þrjár undirtegundir. Branta bernicla bernicla sem kalla mætti kviðdökku undirtegundina (e. Dark-bellied Brant). Þessi undirtegund verpir nyrst í Síberíu en hefur veturdvöl við suðurhluta Norðursjávar, í norðvesturhluta Frakklands og á Englandi. Branta bernicla nigricans sem kalla mætti svörtu undirtegundina (e. Black-bellied Brant). Varpstöðvar hennar eru í norðausturhluta Síberíu, Vestur- og Norður-Alaska og Norðvestur-Kanada. Utan varptíma heldur hún sig við vesturströnd Norður-Ameríku frá suðurhluta Alaska suður til Kaliforníu en einnig á svæðum við Kyrrahafsströnd Asíu, Japan, Kóreu og Norðuraustur-Kína. Branta bernicla hrota sem gjarnan er vísað til sem kviðljósu undirtegundarinnar (e. Pale-bellied Brant). Af þessari tegund eru að minnsta kosti þrír stofnar. Einn stofn verpir á Spitsbergen og Franz Josef-landi en dvelur á veturna á Bretlandseyjum og í Danmörku. Annar stofn verpir á heimskautasvæði Kanada en á vetrarstöðvar við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku. Þriðji stofninn á varpstöðvar á Norður-Grænlandi og heimskautasvæðum í norðausturhluta Kanada en vetrarstöðvar eru á Írlandi og vestast á Bretlandi. Það eru einmitt margæsir í þessum síðastnefnda stofni sem hafa viðkoma hér á landi á leið milli varpsvæða og vetrarstöðva. Þær stoppa á Íslandi í allt að tvo mánuði í apríl og maí, lengur en flestir aðrir fuglar sem fara hér um.
- Náttúrufræðistofnun Íslands. Margæs (Branta bernicla). (Sótt 8.5.2023).
- Jóhann Óli Hilmarsson. Margæs (Branta bernicla). Náttúruminjasafn Íslands. (Sótt 8.5.2023).
- Fuglavefurinn. Margæs. (Sótt 8.5.2023).
- Avibase - The World Bird Database. Brant Goose. (Sótt 8.5.2023).
- BirdLife International (2023). Species factsheet: Branta bernicla. (Sótt 8.5.2023).
- Andy Stoddart. (2018, 14. febrúar). Brent Geese photo ID guide. BirdGuides. (Sótt 8.5.2023).
- Branta bernicla hrota St Marys Northumberland 0.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: MPF. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 Unported (CC BY-SA 3.0) leyfi. (Sótt 9.5.2023).
- Brant (Branta bernicla hrota) (8181937945).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Dominic Sherony. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 2.0 Generic (CC BY-SA 2.0) leyfi. (Sótt 9.5.2023).