Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Peter Hallberg og hvert var framlag hans til norrænna fræða og nútímabókmennta?

Jón Karl Helgason

Árið 1974 voru fimm einstaklingar útnefndir heiðursdoktorar við Háskóla Íslands af Heimspekideild. Þetta voru annars vegar tveir af fremstu skáldum þjóðarinnar, þeir Þórbergur Þórðarson og Gunnar Gunnarsson, og hins vegar þrír merkir bókmenntafræðingar, þeir Jón Helgason, Einar Ól. Sveinsson og Peter Hallberg. Sá síðastnefndi var sænskur, fæddur í Gautaborg árið 1916, og hafði meginhluta starfsferils síns kennt bókmenntir við Gautaborgarháskóla og sinnt sérstaklega þriðja skáldinu, Halldóri Laxness. Var þess getið í tengslum við viðburðinn í Háskólanum að Hallberg væri einn af fáum erlendum fræðimönnum sem hefði „jöfnum höndum lagt stund á íslenzkar nútímabókmenntir og íslenzkar fornbókmenntir“.[1]

Íslandsáhuga Hallbergs má rekja til þess að í kringum tvítugt sótti hann sumarnámskeið í íslensku hér á landi ásamt hópi stúdenta frá Norðurlöndum. Að námskeiði loknu, sem fór að mestu fram á Laugarvatni, dvaldi hann um mánaðartíma á Hvítárbakka í Borgarfirði, og hafði undir lok dvalar náð ágætum tökum á íslensku máli. Hann sneri síðan heim og lauk á næstu árum meistaranámi í sænskum bókmenntum og bókmenntafræði. Á stríðsárunum lá leið Hallbergs svo aftur til Íslands, því 1943 tók hann við tímabundnu starfi sem sendikennari í sænsku við HÍ. Skömmu síðar giftist hann íslenskri konu, Rannveigu Kristjánsdóttur hússtjórnarkennara. Þau eignuðust tvö börn á árunum 1946 og 1948 en um líkt leyti flutti fjölskyldan alfarin til Svíþjóðar. Hallberg vann jafnhliða að doktorsritgerð um sænska ljóðlist sem kom út í þremur bindum árið 1951. Sama ár fékk hann fasta kennarastöðu við Gautaborgarháskóla.[2]

Bækur Peter Hallbergs um Halldór Laxness og þýðingar hans og Rannveigar Kristjánsdóttur, fyrri konu hans, á verkum hans, lögðu grunn að góðu orðspori skáldsins í Svíþjóð í aðdraganda þess að Sænska akademían ákvað að veita honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Á myndinni sést Hallberg (lengst til vinstri) ásamt Halldóri Laxness og Ólafi Ragnarssyni á Laxnessþingi árið 1987.

Þessi sænski „Íslandsvinur“ hafði þá þegar hafist handa við að þýða, með aðstoð konu sinnar, nokkur helstu verk Laxness á sænsku og birta merkar fræðigreinar um skáldið, bæði á íslensku og sænsku. Meðal skáldsagna sem þau þýddu á þessum tíma voru Íslandsklukkan (1948), Heimsljós (1950-1951) og Atómstöðin (1952), en einnig nýlegt rit Kristins E. Andréssonar, Íslenskar nútímabókmenntir 1918-1948 (1955).[3] Um líkt leyti komu út þrjár fræðibækur Hallbergs um Laxness og skáldskap hans: Halldór Kiljan Laxness (1952), Den store vavaren. En studie i Laxness' ungdomsdiktning (1954) og Skaldens hus. Laxness' diktning från Salka Valka till Gerpla (1956). Fyrri bækurnar tvær, ásamt þýðingunum, lögðu grunn að góðu orðspori Laxness í Svíþjóð í aðdraganda þess að Sænska akademían ákvað að veita honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Skömmu eftir að Skaldens hus kom út lét Steingrímur J. Þorsteinsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við HÍ, svo um mælt að Hallberg væri „tvímælalaust lærðastur manna á verk Laxness, mestur sérfræðingur, sem uppi er, á þau efni“.[4]

Afköst Hallberghjónanna á þessu tímabili eru undraverð, ekki síst ef tekið er tillit til þeirra áskorana sem fjölskyldan stóð frammi fyrir. Rannveig Kristjánsdóttir lést eftir erfið veikindi í blóma lífsins árið 1952. Hallberg var þá 36 ára gamall, ekkill og einstæður faðir. Þremur árum síðar giftist hann aftur, Kristínu Kristjánsdóttur, systur Rannveigar. Kristín hafði lokið verkfræðinámi í Danmörku áratug fyrr, fyrst íslenskra kvenna, og starfað um skeið í Reykjavík fyrir Fiskimálanefnd og landbúnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Hún var í framhaldsnámi í jarðvegsfræðum í Skotlandi á árunum 1952 til 1954 en eftir að hún giftist til Gautaborgar starfaði hún við framhaldsskólakennslu og annaðist heimilisreksturinn.

Nú á dögum er Peter Hallbergs sérstaklega minnst fyrir að vera brautryðjandi í tölfræðilegum rannsóknum á stíl fornsagnanna.

Hallberg hélt áfram að sinna rannsóknum á sænskum bókmenntum en um og eftir miðjan sjötta áratuginn beindi hann athygli í vaxandi mæli að íslenskum fornbókmenntum. Meðal yfirlitsrita hans um þetta efni á sænsku eru Den isländska sagan (1956), Den fornisländska poesien (1962) og Nordens literatur (1972). Nú á dögum er hans hins vegar sérstaklega minnst fyrir að vera brautryðjandi í tölfræðilegum rannsóknum á stíl fornsagnanna. Helstu verk hans á því sviði eru Snorri Sturluson och Egils saga Skallagrímssonar (1962), Ólafr Þórðarson hvítaskáld, Knýtlinga saga och Laxdaela saga (1963) og Stilsignalement och författarskap i norrön sagalitteratur (1968). Hann kannaði meðal annars tíðni ýmissa orða og orðasambanda í ólíkum sögum og dró af henni ályktanir um sameiginlegan aldur og höfundarskap. Færði hann meðal annars sannfærandi tölfræðileg rök fyrir því að stíll Heimskringlu væri svo líkur stíl Egils sögu að sami höfundur hefði sett saman bæði verkin. Hallberg lagði ómælda vinnu í að telja orð og orðasambönd í prentuðum útgáfum en síðari tíma rannsakendur, sem nýta sér stafrænar útgáfur, tölvutækni og stærðfræðiformúlur, hafa að flestu leyti staðfest þær tilgátur sem hann setti fram á sínum tíma.

Peter Hallberg var vandvirkur, hugkvæmur og fjölhæfur fræðimaður en einnig afar hógvær og þægilegur í viðkynningu. Þegar tilkynnt var að honum myndi hlotnast heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands fyrir um hálfri öld sagði hann í viðtali við blaðamann: „Ég vil fyrir mitt leyti segja, að ég stend í enn meiri þakkarskuld við Ísland en Ísland við mig“.[5] Ætla má að flestir þeir sem þekkja til ferils Hallbergs telji að því sé samt öfugt farið.

Tilvísanir:
  1. ^ Morgunblaðið - 60. tölublað (13.03.1974) - Tímarit.is. (Sótt 30.01.2023).
  2. ^ Árbók Landsbókasafns Íslands - Megintexti (01.01.1957) - Tímarit.is. (Sótt 1.02.2023).
  3. ^ Ártöl í svigum eru útgáfuár þýðinganna.
  4. ^ Sama heimild og í nr. 2.
  5. ^ Sama heimild og í nr. 1.

Myndir:

Höfundur

Jón Karl Helgason

prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

2.2.2023

Spyrjandi

Jón Viðar Jónsson

Tilvísun

Jón Karl Helgason. „Hver var Peter Hallberg og hvert var framlag hans til norrænna fræða og nútímabókmennta?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84302.

Jón Karl Helgason. (2023, 2. febrúar). Hver var Peter Hallberg og hvert var framlag hans til norrænna fræða og nútímabókmennta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84302

Jón Karl Helgason. „Hver var Peter Hallberg og hvert var framlag hans til norrænna fræða og nútímabókmennta?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84302>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Peter Hallberg og hvert var framlag hans til norrænna fræða og nútímabókmennta?
Árið 1974 voru fimm einstaklingar útnefndir heiðursdoktorar við Háskóla Íslands af Heimspekideild. Þetta voru annars vegar tveir af fremstu skáldum þjóðarinnar, þeir Þórbergur Þórðarson og Gunnar Gunnarsson, og hins vegar þrír merkir bókmenntafræðingar, þeir Jón Helgason, Einar Ól. Sveinsson og Peter Hallberg. Sá síðastnefndi var sænskur, fæddur í Gautaborg árið 1916, og hafði meginhluta starfsferils síns kennt bókmenntir við Gautaborgarháskóla og sinnt sérstaklega þriðja skáldinu, Halldóri Laxness. Var þess getið í tengslum við viðburðinn í Háskólanum að Hallberg væri einn af fáum erlendum fræðimönnum sem hefði „jöfnum höndum lagt stund á íslenzkar nútímabókmenntir og íslenzkar fornbókmenntir“.[1]

Íslandsáhuga Hallbergs má rekja til þess að í kringum tvítugt sótti hann sumarnámskeið í íslensku hér á landi ásamt hópi stúdenta frá Norðurlöndum. Að námskeiði loknu, sem fór að mestu fram á Laugarvatni, dvaldi hann um mánaðartíma á Hvítárbakka í Borgarfirði, og hafði undir lok dvalar náð ágætum tökum á íslensku máli. Hann sneri síðan heim og lauk á næstu árum meistaranámi í sænskum bókmenntum og bókmenntafræði. Á stríðsárunum lá leið Hallbergs svo aftur til Íslands, því 1943 tók hann við tímabundnu starfi sem sendikennari í sænsku við HÍ. Skömmu síðar giftist hann íslenskri konu, Rannveigu Kristjánsdóttur hússtjórnarkennara. Þau eignuðust tvö börn á árunum 1946 og 1948 en um líkt leyti flutti fjölskyldan alfarin til Svíþjóðar. Hallberg vann jafnhliða að doktorsritgerð um sænska ljóðlist sem kom út í þremur bindum árið 1951. Sama ár fékk hann fasta kennarastöðu við Gautaborgarháskóla.[2]

Bækur Peter Hallbergs um Halldór Laxness og þýðingar hans og Rannveigar Kristjánsdóttur, fyrri konu hans, á verkum hans, lögðu grunn að góðu orðspori skáldsins í Svíþjóð í aðdraganda þess að Sænska akademían ákvað að veita honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Á myndinni sést Hallberg (lengst til vinstri) ásamt Halldóri Laxness og Ólafi Ragnarssyni á Laxnessþingi árið 1987.

Þessi sænski „Íslandsvinur“ hafði þá þegar hafist handa við að þýða, með aðstoð konu sinnar, nokkur helstu verk Laxness á sænsku og birta merkar fræðigreinar um skáldið, bæði á íslensku og sænsku. Meðal skáldsagna sem þau þýddu á þessum tíma voru Íslandsklukkan (1948), Heimsljós (1950-1951) og Atómstöðin (1952), en einnig nýlegt rit Kristins E. Andréssonar, Íslenskar nútímabókmenntir 1918-1948 (1955).[3] Um líkt leyti komu út þrjár fræðibækur Hallbergs um Laxness og skáldskap hans: Halldór Kiljan Laxness (1952), Den store vavaren. En studie i Laxness' ungdomsdiktning (1954) og Skaldens hus. Laxness' diktning från Salka Valka till Gerpla (1956). Fyrri bækurnar tvær, ásamt þýðingunum, lögðu grunn að góðu orðspori Laxness í Svíþjóð í aðdraganda þess að Sænska akademían ákvað að veita honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Skömmu eftir að Skaldens hus kom út lét Steingrímur J. Þorsteinsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við HÍ, svo um mælt að Hallberg væri „tvímælalaust lærðastur manna á verk Laxness, mestur sérfræðingur, sem uppi er, á þau efni“.[4]

Afköst Hallberghjónanna á þessu tímabili eru undraverð, ekki síst ef tekið er tillit til þeirra áskorana sem fjölskyldan stóð frammi fyrir. Rannveig Kristjánsdóttir lést eftir erfið veikindi í blóma lífsins árið 1952. Hallberg var þá 36 ára gamall, ekkill og einstæður faðir. Þremur árum síðar giftist hann aftur, Kristínu Kristjánsdóttur, systur Rannveigar. Kristín hafði lokið verkfræðinámi í Danmörku áratug fyrr, fyrst íslenskra kvenna, og starfað um skeið í Reykjavík fyrir Fiskimálanefnd og landbúnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Hún var í framhaldsnámi í jarðvegsfræðum í Skotlandi á árunum 1952 til 1954 en eftir að hún giftist til Gautaborgar starfaði hún við framhaldsskólakennslu og annaðist heimilisreksturinn.

Nú á dögum er Peter Hallbergs sérstaklega minnst fyrir að vera brautryðjandi í tölfræðilegum rannsóknum á stíl fornsagnanna.

Hallberg hélt áfram að sinna rannsóknum á sænskum bókmenntum en um og eftir miðjan sjötta áratuginn beindi hann athygli í vaxandi mæli að íslenskum fornbókmenntum. Meðal yfirlitsrita hans um þetta efni á sænsku eru Den isländska sagan (1956), Den fornisländska poesien (1962) og Nordens literatur (1972). Nú á dögum er hans hins vegar sérstaklega minnst fyrir að vera brautryðjandi í tölfræðilegum rannsóknum á stíl fornsagnanna. Helstu verk hans á því sviði eru Snorri Sturluson och Egils saga Skallagrímssonar (1962), Ólafr Þórðarson hvítaskáld, Knýtlinga saga och Laxdaela saga (1963) og Stilsignalement och författarskap i norrön sagalitteratur (1968). Hann kannaði meðal annars tíðni ýmissa orða og orðasambanda í ólíkum sögum og dró af henni ályktanir um sameiginlegan aldur og höfundarskap. Færði hann meðal annars sannfærandi tölfræðileg rök fyrir því að stíll Heimskringlu væri svo líkur stíl Egils sögu að sami höfundur hefði sett saman bæði verkin. Hallberg lagði ómælda vinnu í að telja orð og orðasambönd í prentuðum útgáfum en síðari tíma rannsakendur, sem nýta sér stafrænar útgáfur, tölvutækni og stærðfræðiformúlur, hafa að flestu leyti staðfest þær tilgátur sem hann setti fram á sínum tíma.

Peter Hallberg var vandvirkur, hugkvæmur og fjölhæfur fræðimaður en einnig afar hógvær og þægilegur í viðkynningu. Þegar tilkynnt var að honum myndi hlotnast heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands fyrir um hálfri öld sagði hann í viðtali við blaðamann: „Ég vil fyrir mitt leyti segja, að ég stend í enn meiri þakkarskuld við Ísland en Ísland við mig“.[5] Ætla má að flestir þeir sem þekkja til ferils Hallbergs telji að því sé samt öfugt farið.

Tilvísanir:
  1. ^ Morgunblaðið - 60. tölublað (13.03.1974) - Tímarit.is. (Sótt 30.01.2023).
  2. ^ Árbók Landsbókasafns Íslands - Megintexti (01.01.1957) - Tímarit.is. (Sótt 1.02.2023).
  3. ^ Ártöl í svigum eru útgáfuár þýðinganna.
  4. ^ Sama heimild og í nr. 2.
  5. ^ Sama heimild og í nr. 1.

Myndir:...