Er einhver ástæða fyrir því að Jón er oft breytt yfir í Nonni? Eða er það bara útaf og engin sérstök ástæðaStuttnefnið Nonni hefur verið notað lengi um mann sem heitir Jón. Erfitt er að segja hversu lengi en að minnsta kosti virðist það hafa verið vel þekkt alla 19. öldina. Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705–1779), ritari Árna Magnússonar handritasafnara (1663-1730), tók saman lista yfir stuttnefni sem finna má í handriti með númerinu 432 fol., 339 r. og varðveittur er hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar nefnir hann ekkert stuttnefni fyrir Jón. Í öðrum lista í sama handriti, (432 fol., 341 r. og v. og 342 r.) er við Jón gefið stuttnefnið Jónsi en endingin -si er algeng við myndun stuttnefna, til dæmis Einsi, Gunnsi. Jón Ólafsson virðist því ekki hafa þekkt stuttnefnið Nonni en á hans tímum hét fjórði hver maður í landinu Jón.
- Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni. 1991. Nöfn Íslendinga. Formáli eftir Guðrúnu Kvaran. Um gælunöfnin í handriti Jóns Ólafssonar er fjallað á bls. 48–51. Mál og menning, Reykjavík.
- Mynd: Minjasafnið á Akureyri. (Sótt 4.7.2022).