Hvaðan kemur íslenska orðið „von“? Er eitthvað vitað um orðsifjar þess?Kvenkynsorðið von ‘vænting’ er þekkt í elsta máli í myndinni ván. Breytingin vá > vo hófst á 14. öld (á > ó > o á eftir v, það er ván > vón > von) (Stefán Karlsson 2000:26). Skyld orð í grannmálunum eru í færeysku vón, nýnorsku vôn, gamalli dönsku vån, sænskum mállýskum vån, von, fornsænsku van. Af öðrum germönskum málum má nefna fornensku wēn, fornsaxnesku wān, gotnesku wens kvk. í svipaðri merkingu. Af nafnorðinu von (eldra ván) er leidd sögnin vona, eldra vána, ‘vænta’, samanber færeysku vóna, nýnorsku vona, sænskar mállýskur vånas, sjá Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:1152. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Stefán Karlsson. 2000. Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Reykjavík.
- File:Hopeful (Unsplash).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26.06.2023).